Þorsteinn Einarsson
Þorsteinn Einarsson
VIÐURKENNING vegna starfa Þorsteins Einarssonar í þágu íslensku glímunnar verður veitt af bandarísku samtökunum The Eastern U.S.A.

VIÐURKENNING vegna starfa Þorsteins Einarssonar í þágu íslensku glímunnar verður veitt af bandarísku samtökunum The Eastern U.S.A. International Martial Arts Association í byrjun nóvember en Þorsteinn, sem lést í janúar á þessu ári, gegndi meðal annars stöðu íþróttafulltrúa ríkisins.

Í tilkynningu frá samtökunum segir að þetta sé í fyrsta sinn sem glíma er formlega viðurkennd sem sjálfsvarnaríþrótt í Bandaríkjunum og bent er á að Þorsteinn hafi unnið ötullega að kynningu glímunnar víðs vegar um heiminn.

Að sögn Jes Einars Þorsteinssonar, sonar Þorsteins, eru samtök þessi mjög þekkt í Bandaríkjunum.

Þorsteinn Einarsson vann mikið starf við að kynna glímuíþróttina á Íslandi og erlendis, meðal annars með námskeiðum í menntaskólum og fyrirlestrum um glímu víðs vegar um heiminn. Á yngri árum lagði hann stund á glímu og vann í eina tíð fegurðarglímuverðlaun í Íslandsglímunni. Hann þjálfaði lengi glímu og lagði einnig stund á aðrar íþróttir.Vonir standa til þess að bók sem Þorsteinn vann að og nefnist Þróun glímu í íslensku þjóðlífi, og er saga íslensku glímunnar, komi út á næsta ári.

Sonur Þorsteins, Guðni Þorsteinsson læknir, sem búsettur er í Bandaríkjunum mun taka við viðurkenningunni í nóvember fyrir hönd fjölskyldu Þorsteins.