Fulltrúar á aðalfundi Eyþings í Hrísey.
Fulltrúar á aðalfundi Eyþings í Hrísey.
GUÐNI Ágústsson landbúnaðrráðherra sagði á aðalfundi Eyþings, Samtaka sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, reginmun á því hvort umræða um vaxtarmöguleika kvótabundinna atvinnugreina snerist um landbúnað eða sjávarútveg.

GUÐNI Ágústsson landbúnaðrráðherra sagði á aðalfundi Eyþings, Samtaka sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, reginmun á því hvort umræða um vaxtarmöguleika kvótabundinna atvinnugreina snerist um landbúnað eða sjávarútveg. Landbúnaðurinn byggi yfir meiri framleiðslugetu en markaðir leyfðu og því væri gripið til kvótasetningar til að sníða framleiðslu að markaðsþörf svo komist yrði hjá sóun við að framleitt væri umfram markaðsþörf og fjöll matvæla mynduðust. Þessu væri öfugt farið í sjávarútvegi, þar sem takmarkaðri auðlind væri skipt milli aðila eftir tilteknum reglum til að forðast rányrkju.

Framleiðsla mjólkur er kvótabundin við lögbýli og fer eftir svigrúmi á innanlandsmarkaði hverju sinni. Guðni sagði að fram til þessa hefðu ekki verið taldir möguleikar á að sækja á erlenda markaði með ávinningi og því hafi markaðskvótar í Bandaríkjunum ekki verið nýttir heldur gengið til annarra landa. Vaxtarmöguleikar mjólkurframleiðslunnar væru því háðir innanlandsmarkaði. Ráðherra hefur ákveðið að auka greiðslumark í mjólk um eina milljón lítra á næsta verðlagsári. Aukningin leiðir til þess að brúttótekjur mjólkurframleiðenda aukast um 70 milljónir króna. Framleiðendur eru um eitt þúsund talsins þannig að um verður að ræða um 70 þúsund króna tekjuauka á hvert bú. "Af þessu má sjá hversu miklu máli skiptir fyrir vöxt og viðgang landbúnaðarins að rækta innlenda markaðinn," sagði Guðni.

Hann nefndi í ræðu sinni að sauðfjárbændur hefðu von um að selja afurðir sínar til útlanda og hefðu þá frelsi til að framleiða meira, fyndist markaður fyrir afurðirnar. Nefndi hann Bandaríkin sérstaklega í því sambandi. Landbúnaðarráðherra benti á að bændur sem væru að kaupa framleiðslurétt á því verði sem nú væri í boði yrðu fljótt skuldugir og það myndi koma niður á atvinnugreinunum til framtíðar og samkeppnisstöðu þeirra m.a. gagnvart innflutningi, t.d. á fuglakjöti. "Við verðum að huga að því að þessar greinar eru á markaði og verða að standa sig í samkeppni," sagði Guðni.

Ráðherra nefndi fjölmörg dæmi um jákvæða þróun í landbúnaði, m.a verulega aukningu í bleikjueldi, en gert væri ráð fyrir að um eitt þúsund tonn af bleikju yrðu flutt út á þessu ári og söluverðið væri allt að 500 milljónir króna. Áætlanir gerðu ráð fyrir tvöföldun framleiðslunnar á næsta ári. Skógrækt væri annað verkefni sem skapaði möguleika í dreifbýli sem og landgræðslustörf, en í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum tækju 130 manns þátt í slíku verkefni.