Frá vinstri Árni Mathiesen, Pétur Þór Jónasson, Jóhannes Sigfússon, Pétur Bolli Jóhannesson, Steingrímur J. Sigfússon, Þuríður Backman, Valgerður Sverrisdóttir og Kristján Þór Júlíusson.
Frá vinstri Árni Mathiesen, Pétur Þór Jónasson, Jóhannes Sigfússon, Pétur Bolli Jóhannesson, Steingrímur J. Sigfússon, Þuríður Backman, Valgerður Sverrisdóttir og Kristján Þór Júlíusson.
FJÖLMÖRG mál eru til umræðu á aðalfundi Eyþings, samtaka sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum sem hófst í Hrísey í gær, en honum lýkur í dag, laugardag.

FJÖLMÖRG mál eru til umræðu á aðalfundi Eyþings, samtaka sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum sem hófst í Hrísey í gær, en honum lýkur í dag, laugardag.

Ráðherrar sjávarútvegs- og landbúnaðarmála ræddu um vaxtarmöguleika kvótabundinna atvinnugreina á fundinum og þá fjallaði Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra um skipulag orkumála og tækifæri á Norðurlandi eystra í erindi sem hún flutti á aðalfundinum.

Nefndi Valgerður að hagkvæmniathugun á sameiningu RARIK og Norðurorku á Akureyri hefði verið jákvæð og viðræður stæðu yfir þar um en þær væru enn skammt á veg komnar og því ekki hægt að fullyrða hvort af sameiningu fyrirtækjanna yrði. Augljóst væri hins vegar að slík sameining myndi mjög styrkja byggðina norðan heiða ef tækist að mynda sterkt orkufyrirtæki í fjórðungnum. Ætti samkeppni að ríkja í sölu á raforku í framtíðinni yrði hún að vera virk og framleiðendur því að vera fleiri en tveir til þrír. Nauðsynlegt væri að mynda sterkt mótvægi við þau öflugu orkufyrirtæki sem væru að byggjast upp á höfuðborgarsvæðinu.

Valgerður sagði að menn eygðu nokkur stór verkefni á sviði orkumála á svæðinu, en m.a. væri unnið að umhverfismati á stækkun Kröfluvirkjunar, að undirbúningi nýrrar virkjunar í Bjarnarflagi og rannsóknarboranir væru að hefjast á Þeistareykjum. Ráðuneytið hefði kostað rannsóknir á setlögum fyrir Norðurlandi og í sumar fóru fram boranir í Tjörneslögin í þeim tilgangi að athuga hvort gasuppstreymi í Öxarfirði eigi rætur í surtarbrandslögum. Á næsta ári væri svo fyrirhugað að skima hafsbotninn fyrir Norðurlandi í leit að vísbendingum um hugsanlega gas- og olíuleka til yfirborðs.

"Það bíða okkar mörg ögrandi verkefni í framtíðinni á þessu landsvæði sem vonandi munu styrkja stöðu byggðar og mannlífs í náinni framtíð," sagði Valgerður.