Árni Mathiesen sjávarútvegsráðherra ræðir við Konráð Alfreðsson, formann Sjómannafélags Eyjafjarðar, á bryggjunni í Hrísey.
Árni Mathiesen sjávarútvegsráðherra ræðir við Konráð Alfreðsson, formann Sjómannafélags Eyjafjarðar, á bryggjunni í Hrísey.
ÁRNI M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra nefndi í sínu ávarpi á aðalfundi Eyþings, samtaka sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum að því væri oft haldið fram að kvótinn væri að flytjast suður í stórum stíl og safnast á fárra hendur.

ÁRNI M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra nefndi í sínu ávarpi á aðalfundi Eyþings, samtaka sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum að því væri oft haldið fram að kvótinn væri að flytjast suður í stórum stíl og safnast á fárra hendur. Þetta væri rangt og sæist best á lista Fiskistofu yfir úthlutun aflahlutdeilda, kvótinn hefði ekki safnast fyrir á höfuðborgarsvæðinu né heldur væru þeir sem stærstan skerf hefðu komnir að þeim mörkum sem Alþingi setti um hámarkseign einstakra fyrirtækja á aflahlutdeild.

Sjávarútvegsráðherra sagði brýna þörf á að aukinn friður skapaðist um starfsgrundvöll sjávarútvegsins og ríkisstjórnin gerði sér það vel ljóst. Nú styttist óðum í að nefnd sem skipuð hefði verið til að móta tillögur sem tryggt gætu víðtæka sátt um skipulag fiskveiðanna lyki störfum. "Og ég geri mér vonir um að niðurstöðurnar gefi ráðrúm til að bæta enn stjórnkerfi fiskveiðanna í sem víðtækastri sátt," sagði Árni.

Bandarískir fiskifræðingar meta forsendur og mat Hafró

Greindi ráðherra frá því að ráðuneytið hefði ráðið hóp vísindamanna undir forystu bandaríska fiskifræðingsins Andrew A. Rosenberg, til að meta forsendur og mat Hafrannsóknarstofnunar á stofnstærð helstu nytjastofna. Þeim er m.a. falið að útfæra aðferðir til að meta þá óvissu sem óhjákvæmilega eru fyrir hendi í stofnstærðarmatinu. "Ég er ekki að segja að vísindamenn Hafrannsóknarstofnunar hafi gert mistök eða séu ekki þeim vanda vaxnir sem í störfum þeirra felst," sagði Árni og benti á að þeir væru færir á sínu sviði.

Árni gerði sölu á sjávarfangi að lokum að umræðuefni og sagði sölutekjur hafa staðið í stað á síðustu árum og gætu lækkað með minnkandi aflaheimildum. Útflutningstekjur myndu ekki aukast nema með nýrri framtíðarsýn þar sem áhersla yrði lögð á frekari vinnslustýringu og aukna hagræðingu. Með aukinni nýtingu, breyttri vinnslu, stjórnun og með því að nýta eðliseiginleika sjávarfangsins mætti auka útflutningsverðmætið á næstu árum.