Lesendur Morgunblaðsins geta komið spurningum varðandi sálfræði-, félagsleg og vinnutengd málefni til sérfræðinga á vegum persona.is. Senda skal tölvupóst á persona@persona.is og verður svarið jafnframt birt á persona.is.

Af hverju falla flestir sem hætta að reykja?

VIÐ þessari ágætu spurningu er því miður ekkert einfalt svar. Að sjálfsögðu er það undarlegt hversu erfitt það er fyrir marga að hætta að reykja þrátt fyrir greinilegan fjárhagslegan og heilsufarslegan ávinning. Rannsóknir sýna að um 65-90% af þeim sem reyna að hætta falla að stuttum tíma liðnum. Flestir reykingamenn viðurkenna að reykingar veiti þeim afar takmarkaða ánægju og því er ekki hægt að útskýra tóbaksreykingar sem einbera nautnaþrá.

Óþægileg fráhvarfseinkenni koma oft fram eftir að reykingum er hætt og getur það að hluta til skýrt hvers vegna margir falla á fyrstu dögunum. En fráhvarfseinkenni eru viðbrögð taugakerfisins við þeirri röskun sem á sér stað þegar nikótín hættir að hafa áhrif á starfsemi þess. Fráhvarfseinkennin geta verið mjög óþægileg en þeirra fylgifiskur er einbeitingarörðugleikar, spenna, vanlíðan og hraður hjartsláttur. Samt sem áður er vitað að þessi einkenni standa yfirleitt stutt yfir og geta því tæplega útskýrt hvers vegna svo margir gefast upp á reykleysinu.

Eftir að fráhvarfseinkennin eru gengin yfir finna reykingamenn oft fyrir sterkri löngun eða þrá til þess að reykja. Löngunin virðist stundum vera óstjórnleg og í litlu samræmi við það markmið að hætta. Það er eins og hugurinn sé fullur af hugsunum um að reykja sem sækja að án afláts. Rannsóknir sýna að reykingalöngun af þessu tagi sækir oft á í aðstæðum sem áður hafa verið tengdar við reykingar. Því virðast heilinn læra að mynda sterk tengsl milli reykinga og aðstæðna í umhverfinu.

Sumir vísindamenn vilja skýra þetta með því að benda á að viðvarandi breytingar á starfsemi heilans geti átt sér stað samfara notkun á nikótíni. Eins og önnur fíkniefni hefur nikótín áhrif á taugaenda og viðtöku boðefna í heila og auka næmi þeirra. Þessar breytingar gerast í þeim hluta taugakerfisins sem hefur með hvatalíf og langanir að gera. Heilinn verður þannig ofurnæmur fyrir nikótíni og þeim umhverfisaðstæðum sem tengjast reykingum. Því geta hlutir í umhverfinu og jafnvel ákveðnar hugsanir eða hugarástand orðið kveikja að reykingalöngun. Þessi tengsl kvikna ósjálfrátt og jafnvel ómeðvitað þannig að reykingamanninum finnst hann oft vera ofurseldur reykingalönguninni. Reynslan sýnir ennfremur að fallhættan er mikil þegar reykingalöngunin er sterk og sérlega þegar reykingamaðurinn er í neikvæðu hugarástandi. Neikvætt hugarástand virðist bæði auka reykingalöngun og takmarka möguleikana á að takast á við hættuaðstæður með árangursríkum hætti.

En fall á sér ekki einungis stað undir slíkum kringumstæðum. Í samfélaginu hafa reykingar fengið ákveðið félagslegt gildi. T.d. á vinnustöðum myndast oft reykingaklíkur og eru reykingar því oft aðgöngumiði inn í slíka hópa. Ef einhver hættir að reykja passar viðkomandi ekki lengur í hópinn og er ef til vill litinn hornauga af hinum félögunum í reykingaklíkunni. Á sama hátt getur það að reykja verið orðinn mikilvægur hluti af persónuleika viðkomandi. Getur ef til vill verið tákn um frjálslyndi og lífsnautna ímynd. Reykingar eru ennfremur atferli sem reykingamaðurinn hefur stundað fleiri tugþúsundum sinnum og því orðið ósjálfrátt og oflært. Reynslan sýnir að oft er mjög erfitt að brjóta slík atferlismynstur. Dæmi um slík atferlismynstur eru ýmsir kækir og ósiðir eins og að naga neglur o.s.frv.

Reykingaávaninn eða fíknin samanstendur því að flóknu samspili lífeðlislegra, sálfræðilegra og félagslegra þátta sem geta gert það mjög erfitt fyrir reykingamanninn að hætta. Fordæmandi viðhorf í garð reykingamannsins eru því ekki við hæfi þar sem hann stendur frammi fyrir mikilli áskorun eftir að ákvörðun um að hætta er tekin. Við sem ekki reykjum værum tæplega mikið betur sett ef við værum í sporum reykingamannsins. Til hughreystingar má benda á að þrátt fyrir að það sé erfitt að hætta tekst æ fleiri Íslendingum að brjóta reykingaávanann. Þrátt fyrir að mörgum takist að hætta einir og óstuddir þá benda rannsóknir til að hægt sé að auka líkurnar umtalsvert með því að fara á afreykinganámskeið. Einnig sýna rannsóknir að auka má líkurnar á að reykingabindindið haldist með því að nota nikótínlyf. Nikótínlyf hafa því miður þann ókost að vera vanabindandi og fela þannig í sér fjárhagslegan kostnað og óhagræði fyrir neytandann. Þrátt fyrir þetta er það ljóst að skaðsemi nikótínlyfja er hverfandi samanborið við tóbaksreykingar.

Þrátt fyrir þær hættur sem eru reykingum samfara tel ég mikilvægt að virða rétt fólks til þess að reykja. Mikilvægast er að reykingamaðurinn brjóti ekki á rétti annarra til þess að anda að sér fersku og ómenguðu lofti en sá skaði sem hann gerir á eigin heilsu hlýtur að vera á hans eigin ábyrgð. Þrátt fyrir þetta er mikilvægt fyrir aðstandendur að hvetja og styðja þann sem vill hætta að reykja - en reykingamaðurinn sjálfur verður að vinna glímuna við Tabaccus.

eftir Jón Þ. Ingjaldsson

Höfundur er sálfræðingur og vinnur að rannsóknum á áfengismisnotkun við Háskólann í Björgvin, Noregi.