Karl V. Matthíasson
Karl V. Matthíasson
Við blasa, segir Karl V. Matthíasson, nauðasamningar margra eigenda smábáta við lánastofnanir.

Á SÍÐASTLIÐNU vori lögðum við Guðjón A. Kristjánsson fram frumvarp til laga um frestun á gildistöku laga um veiðar smábáta. Tilgangur þess var að koma í veg fyrir kvótasetningu á þær tegundir fiska sem þorskaflahámarksbátar máttu veiða frjálst. Aðallega var hér átt við ýsu og steinbít.

Samstaða hinna fögru hljóma

Þetta var skilyrt við það að endurskoðunarnefndin væri enn að störfum og ekki tímabært að kvótasetja þessa smábáta eða breyta öðru er lýtur að 23 daga kerfinu eða 40 daga kerfinu.

Það er einföld staðreynd veruleikans að þetta frumvarp kom fram. Við Guðjón vorum og erum sannfærðir um að margir stjórnarsinnar séu sömu skoðunar og við, þótt þeir hafi ekki treyst sér til að fylgja okkur að málum í vor, að minnsta kosti ekki opinberlega. Því er það fagnaðarefni að svo skýr stuðningur sé nú að koma fram við það sem við gerðum þá, sérstaklega hjá Einari Oddi Kristjánssyni. En því miður, nú er 1. september upp runninn og heldur seint í rassinn gripið að blása í lúðra samstöðu hinna fögrum hljóma. Já, þess gafst kostur fyrir fáeinum vikum, en það var því miður ekki þegið, er boðað var til sameiginlegs fundar þingmanna Vestfjarðakjördæmis.

Það sem blasir nú við eru nauðasamningar margra eigenda smábáta við lánastofnanir, svo sem sparisjóði á Vestfjörðum og ef til vill Byggðastofnun (vonandi sýnir hún mildi). Það er skýlaus siðferðileg skylda þessara aðila og annarra lánastofnana, sem að málinu koma, að koma til móts við þá sem á því þurfa að halda með lækkun vaxta (ný lög um vexti heimila það) og mikilli lengingu lána. Nema þessar stofnanir hafi áhuga á að eignast mikið af smábátum.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar á Vestfjörðum.