NORRÆNU heilbrigðis- og tryggingamálaráðherrarnir ákváðu á fundi sínum í Mariehamn á Álandseyjum að leggja niður norrænu lyfjanefndina í lok mars á næsta ári.

NORRÆNU heilbrigðis- og tryggingamálaráðherrarnir ákváðu á fundi sínum í Mariehamn á Álandseyjum að leggja niður norrænu lyfjanefndina í lok mars á næsta ári. Forsvarsmenn ráðuneyta lyfjamála á Norðurlöndum munu hins vegar hittast áfram á fundum um lyfjamál. Á fundinum var samþykkt að breyta áherslum NIOM (Norrænu tannheilsustofnunarinnar) og beina starfseminni fyrst og fremst að rannsóknum og þróunarstarfi. Með þeirri breytingu verður dregið verulega úr eftirlitshlutverki stofnunarinnar sem flyst annað. Enn fremur verður vottun skilin frá meginstarfsemi NIOM og komið fyrir í sjálfstæðri einingu sem Norðmenn gangast í ábyrgð fyrir.

Á fundi ráðherranna í Mariehamn spunnust umræður um hvernig best væri að standa að útgáfu vottorða fyrir þá sjúklinga sem ferðast á Schengen-svæðinu og þurfa að hafa með sér lyf sín sem innihalda örvandi efni. Danski heilbrigðisráðherrann tók málið upp en Danir leggja áherslu á að einfalda útgáfu vottorða í þessu sambandi og hafa lagt til á vettvangi Schengen-samstarfsins að reglur verði einfaldar, án þess að slakað verði á klónni varðandi eftirlit almennt. Norrænu ráðherrarnir eru almennt sammála um að auðvelda sjúklingum sem nota lyf, sem í eru örvandi efni, að ferðast á Schengen-svæðinu. Málið verður áfram á dagskrá norrænu ráðherranna og embættismanna ráðuneytanna. Stefnt er að því að reyna að ná samkomulagi og setja fram sameiginlega norræna tillögu á vettvangi Schengen-samstarfsins.

Eitt meginþema fundarins var hvernig almennt má auka velferð barna og hvernig koma má í veg fyrir að tilteknir hópar barna og ungmenna lendi á refilstigum, og hvaða aðferðir duga best í því sambandi. Finnar lögðu ríka áherslu á að ræða þessi mál á vettvangi norræna samstarfsins í heilbrigðis- og félagsmálum, meðal annars með tilliti til vaxandi ofbeldis, fíkniefnaneyslu ungmenna og félagslegrar einangrunar tiltekinna hópa ungmenna.

Af snemmbúnum aðgerðum á þessu sviði benti Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, á verkefnið "Nýja barnið" á Akureyri og fyrirætlanir um námskeiðshald um áfengis- og vímuefnamál á vettvangi Heilsugæslunnar í Reykjavík, en hér er um að ræða samvinnuverkefni áfengis-og vímuvarnaráðs, Heilsugæslunnar og héraðslæknisins í Reykjavík. Þá benti fulltrúi félagsmálaráðuneytisins á starfsemi Barnahússins, ýmsa þætti í starfsemi Barnaverndarstofu, fyrirbyggjandi aðgerðir á vettvangi sveitarfélaganna og vakti auk þess athygli á aukaallsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York í september þar sem væntanlega verður samþykkt að auka og skilgreina réttindi barna. Við umræður um þetta þema kom fram að almennt er viðurkennt á Norðurlöndunum að börn þurfa nú meiri stuðning en áður og er ríkjandi vilji til þess á næstu misserum að beina kastljósinu að vanda barna og ungmenna í velferðarríkjum Norðurlandanna.