"ÉG er ekkert smeykur fyrir leikinn," sagði Helgi Sigurðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, fullur tilhlökkunar fyrir leikinn gegn Tékkum í dag. "Við höfum náð ágætis úrslitum gegn þessum betri þjóðum.

"ÉG er ekkert smeykur fyrir leikinn," sagði Helgi Sigurðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, fullur tilhlökkunar fyrir leikinn gegn Tékkum í dag. "Við höfum náð ágætis úrslitum gegn þessum betri þjóðum. Þær hafa ekki unnið okkur hér á landi í langan tíma. Búlgarir og Pólverjar komu hingað - hvorug þjóðin vann okkur þrátt fyrir að Pólland sé eitt af "heitustu" liðunum í Evrópu að undanförnu. Ef við bætum aðeins í miðað við hvernig við lékum gegn Pólverjum og Búlgurum þá held ég að við getum unnið Tékkana. Til þess förum við í leikinn, til að vinna," sagði Helgi.

Helgi hefur leikið feikivel síðan hann gekk í raðir Lyn í Noregi í sumar og hefur skorað fjögur mörk í sjö leikjum.

"Það hefur gengið mjög vel í Noregi og það gefur mér aukið sjálfstraust. Vonandi næ ég að taka það sjálfstraust með í leikinn á laugardag og halda áfram á sömu braut. Það kom mér sjálfum mest á óvart hvað ég var fljótur að fá sjálfstraustið og komast inn í leikinn í Noregi. Ég hélt að það tæki lengri tíma, þetta hefur gengið vonum framar. Liðinu hefur gengið vel og mér líka þannig að ég er mjög sáttur við dvölina í Noregi það sem af er."

Á von á að við höldum okkur uppi

Þið gerið náttúrulega enga stóra hluti í deildinni í ár, en hvað með næsta ár?

"Þegar ég kom vorum við í fallsæti og úr því sem komið var urðum við að stefna að því að halda okkur í deildinni. Við höfum unnið Stabæk og Brann í síðustu tveimur leikjum þannig að ég á von á að við höldum okkur uppi héðan af. Svo á að styrkja liðið fyrir næsta ár og helst vera í toppbaráttunni."

Það var slæm útreið sem við fengum í síðustu viðureign okkar gegn Tékkum er þeir unnu 4:0, höfum við möguleika á að vinna þetta lið?

"Já, ég held við eigum góðan möguleika ef við leikum toppleik og allir gera sitt besta og berjast hver fyrir annan. Tékkarnir eru ekki eins sterkir á útivelli og heimavelli. Við erum á okkar heimavelli, með okkar áhorfendur og eigum því bara að keyra á þá og spila til sigurs. Það verður mjög erfitt en við verðum að hafa trú á því sem við erum að gera."

Er Ísland þekkt í Evrópu fyrir að vera erfitt viðureignar á heimavelli?

"Já, það er öruggt mál. Ég lék ekki síðasta leik gegn Pólverjum en Norðmenn töluðu um þann leik á þann hátt að allir bjuggust við sigri Íslendinga. Menn í Noregi segja gjarnan að Íslendingar séu orðnir þannig að þeir tapa nánast aldrei heima og fyrir leikinn gegn Pólverjum mæltu þeir með því að menn veðjuðu á sigur íslenska liðsins," sagði Helgi Sigurðsson.