BRETI sem handtekinn var með sex kíló af hassi í farangri sínum á Keflavíkurflugvelli 8. júlí sl. var dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi.

BRETI sem handtekinn var með sex kíló af hassi í farangri sínum á Keflavíkurflugvelli 8. júlí sl. var dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi. Maðurinn neitaði frá upphafi sakargiftum og sagði að fíkniefnunum hefði verið komið fyrir í töskunni án vitundar sinnar.

Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur segir að frásögn Bretans sé öll með ósennileikablæ og losaraleg í atriðum sem máli skipta. Ferðamáti hans og það sem hann segir um tilgang með ferðum sínum hingað, annarsvegar í maí sl. og svo aftur í júlí, sé í hæsta máta tortryggilegt.

Þá hafi dómari skoðað ferðatöskuna gaumgæfilega. Farangur mannsins var hafður í töskunni og þyngd, sem samsvaraði hassinu, var bætt í. Dómarinn handfjatlaði töskuna með og án þyngdaraukans og komst að þeirri niðurstöðu að umbúnaður fíkniefnanna, svo og þyngd þeirra, útiloki að ákærði hafi ekki vitað af þeim. Þá verði að telja það algerlega fráleitt að ætla að aðrir reyni á þennan hátt að flytja efnin til landsins án vitneskju og samþykkis ákærða. Engin skynsamlega ástæða væri til að efast um að Bretinn hefði vísvitandi flutt hassið hingað til lands.

Auk refsingarinnar var Bretinn dæmdur til greiðslu málsvarnarlauna verjanda sína, Sveins Andra Sveinssonar, hrl.

Pétur Guðgeirsson kvað upp dóminn en Svavar Pálsson sótti málið fyrir hönd ákæruvaldsins.