ÁKVEÐIÐ hefur verið að flýta flutningi bráðageðdeildar frá Kleppsspítala á geðsvið Landspítalans við Hringbraut. Jóhannes Gunnarsson, lækningaforstjóri á Landspítala, segir að ástæðan sé skortur á starfsfólki.

ÁKVEÐIÐ hefur verið að flýta flutningi bráðageðdeildar frá Kleppsspítala á geðsvið Landspítalans við Hringbraut. Jóhannes Gunnarsson, lækningaforstjóri á Landspítala, segir að ástæðan sé skortur á starfsfólki. Hann segir einnig að í vetur sé fyrirhugað að flytja bráðageðdeildina í Fossvogi í geðdeildarhúsið við Hringbraut.

"Það er stefna spítalans að draga saman þá starfsemi sem saman á. Það var grundvöllur að sameiningu spítalanna að gera það. Þetta gildir um geðsviðið eins og allar aðrar deildir. Það var tekin um það ákvörðun fyrir nokkru að færa bráðamóttöku geðlækninganna í húsið við Hringbraut.

Það var ákveðið fyrr í sumar að deildin í Fossvogi flytti í húsnæði sem í áraraðir hefur verið notað í aðra starfsemi í geðdeildarhúsnæðinu við Hringbraut. Þessi deild mun hafa svipað pláss og áður. Á Kleppi eru bráðadeildir og við viljum flytja þá bráðastarfsemi inn á Hringbraut, en okkur þykir að þessi bráðastarfsemi hafi verið of dreifð. Þessi flutningur mun gerast fyrr en við upphaflega ráðgerðum. Ástæðan er sú að tvær bráðadeildir á geðsviði eru núna reknar á hálfum afköstum vegna mannaflaskorts. Þess vegna höfum við ákveðið að draga þessa starfsemi saman á einn stað þannig að okkur nýtist sá mannafli sem við höfum sem best. Ein af bráðadeildunum á Kleppi verður flutt mjög fljótlega og deildin í Fossvogi verður flutt í nóvember eða desember. Þetta er sú stefna sem við verðum að fylgja, en hún byggist á því að nýta mannafla, húsnæði og fé eins vel og hægt er," sagði Jóhannes.