**½ Leikstjóri: Glenn Jordan. Aðalhlutverk: James Garner, Gina Gershon, Mary-Louise Parker og Kathleen Turner. Bandaríkin, 1999. Bergvík. (92 mín.) Bönnuð innan 16 ára.

FÖGUR fyrirsæta er ákærð fyrir morð á ofbeldishneigðum eiginmanni systur sinnar. Líkt og við vitum er ekkert í meira uppáhaldi hjá Bandaríkjamönnum en hressilegt sakamál sem stjarna er viðriðin. Fyrirsætan fær frægasta lögfræðing bæjarins, Norman Keane (greinilega byggður á persónu Johnnys Cochrans, verjanda O.J. Simpsons), til að verja sig en eitt það skemmtilegasta við myndina er hvernig hún tekur á fjölmiðlastorminum sem skellur á í kjölfar morðsins. Þar stelur Kathleen Turner senunni sem þáttastjórnandi sem fjallar um réttarhöldin á einkar ósvífinn hátt. Leikarar standa sig allir með prýði, Gershon er skemmtilega samviskulaus sem fyrirsætan en það sem gerir þessa mynd dálítið óvenjulega er sú staðreynd að strax frá upphafi vita áhorfendur að hún hefur óhreint mjöl í pokahorninu. Spennan felst í spurningunni hvort hún komist upp með ráðabrugg sitt. Haganlega gerð mynd sem stingur á nokkrum kýlum jafnframt því að vera góð afþreying.

Heiða Jóhannsdóttir