Óttinn er eðlileg tilfinning og hluti af hegðun allra spendýra. Það er hins vegar mjög mismunandi hve mikinn ótta eða kvíða fólk upplifir og tengist það greinilega erfðum.

HJÁ manninum er litróf óttans margbreytilegt og nær allt frá mildum kvíða til ofsafælni. Í eðli sínu er óttinn mikilvæg líffræðileg aðlögun og hluti af hegðun allra spendýra eins og fram kemur í tímaritinu Scientific American. Óttinn er tilfinning, hann er minning án orða sem við geymum á ákveðnum stað í heilanum og veldur því að við bregðumst hratt við, næstum eins og af eðlishvöt ef aðstæður eru hættulegar. Fólk hefur tilhneigingu til að upplifa mismikinn ótta en þegar tilhneigingin er til staðar í of miklum mæli geta afleiðingarnar orðið allt annað en auðveldar. Gera má ráð fyrir að á lífsleiðinni verði um fjórðungur Bandaríkjamanna einhvern tímann fyrir lamandi kvíða, ofsakvíða, dýrafælni eða kvíða tengdum miklu áfalli. Slíkar kvíðaraskanir valda ekki bara andlegri vanlíðan heldur ýmiss konar líkamlegum einkennum eins og til dæmis staðbundnum verkjum og fróðlegt væri að vita eins og með alla aðra hegðun okkar, að hve miklu leyti kvíði er lærð hegðun og að hve miklu leyti hann á rætur í erfðum okkar.

Kvíðnar mýs ræktaðar

Rannsóknir á kvíða meðal dýra eins og til dæmis músa hafa leitt í ljós að hægt er að velja úr kvíðin dýr til undaneldis og þannig flytja kvíðann til næstu kynslóða. Bendir það eindregið til að um erfðir sé að ræða. Ákveðin rannsókn á kvíða fór þannig fram að mýs voru valdar af handahófi. Þær sýndu margs konar ólík viðbrögð við aðstæðum sem fólust í að þær voru settar í opinn kassa í mikilli birtu þar sem hvergi var hægt að fela sig. Sumar mýsnar skoðuðu svæðið í rólegheitum á meðan aðrar hlupu stefnulaust um eða jafnvel hímdu uppi við einn vegg og losuðu sig við úrgangsefni aftur og aftur. Flestar þeirra sýndu hegðun sem var blanda af þessum tvennu öfgakenndu viðbrögðum.

Óttinn var ekki lærður

Væru hinar hræddu og óöruggu mýs látnar æxlast saman allt að tólf kynslóðir í röð var hægt að fá fram röð músa sem allar voru mjög kvíðnar og sýndu mikil einkenni um ótta við margs konar ólíkar aðstæður. Óttaviðbrögðin lærðu þær hvorki hver af annarri né af mæðrum sínum. Ef nýfæddum músarunga, sem átti röð hræddra forfeðra, var komið fyrir í fóstri hjá óhræddri móður og hennar ungum þá sýndi fósturbarnið sömu merki um hræðslu og hans líffræðilegu forfeður.

Taugaboðefnin og kvíðinn

Tekist hefur að staðsetja í tilraunamúsum gen sem tengjast áðurgreindri hegðun. Ekki kemur á óvart að þessi gen segja fyrir um framleiðslu taugaboðefna eða móttakara taugaboðefna en það eru þau efni í heilanum sem eru ábyrg fyrir sambandinu milli tveggja taugafrumna. Taugaboðefnin eru í rauninni undirstaða allar hegðunar. Ef að á taugafrumur músanna vantar starfhæfa móttakara fyrir taugaboðefnið GABA þá sýna þær meiri hræðslu en þær mýs sem hafa móttakara á sínum frumum því taugaboðefnið GABA hefur þau áhrif að dempa og slá á hræðsluviðbrögð. Annað dæmi er að ef mýsnar vantar móttakara í heilann fyrir flokk svo kallaðra stresshormóna (glucocotocoid ) þá sýna þær minni kvíða en samanburðarmýs.

Kvíðinn er í genunum

Hvað menn varðar þá benda rannsóknir sem gerðar hafa verið á ættleiddum börnum og eineggja tvíburum til þess að tilhneiging til kvíða og ótta tengist erfðum. Hvað það er sem veldur ofsakvíða, svo sem innilokun, snákar eða hvaðeina annað, er tengt reynsluheimi fólks en tilhneigingin til að upplifa slíka hræðslu hefur bein erfðafræðileg tengsl. Eins og hjá músum virðast hin erfðafræðilegu tengsl kvíða hjá manninum tengjast taugaboðefnum og móttökurum þeirra. Taugaboðefnið GABA kemur þar mikið við sögu en mikilvægasta efnið er þó kannski serotónín.

Taugaboðefnið serótónín

Virkni serótóníns er flókin en tengist mjög upplifun kvíða sem hjá mönnum er oft hluti af birtingarmynd þunglyndis. Lyf sem hafa áhrif á magn serótóníns hafa því oft með góðum árangri bæði áhrif á kvíða og þunglyndi. Alvarlegt þunglyndi hefur sýnt sig að hafa greinileg erfðafræðileg tengsl.

Það eru mörg gen sem hafa áhrif á ótta og kvíða en ekkert eitt gen sem kalla mætti "óttagenið" og erfist milli kynslóða. Þau gen sem hafa áhrif á framleiðslu taugaboðefna og móttakara þeirra eru öll til staðar á fjölbreytilegan hátt hjá mannfólkinu. Sú ákveðna og einstaka genasamsetning sem við hvert og eitt erfum frá foreldrum okkar segir fyrir um hvort við erum líkleg til að sýna mikinn eða lítinn kvíða í þeim aðstæðum sem mæta okkur á lífsleiðinni. Að hversu miklu leyti líf okkar verður fyrir áhrifum vegna þessara þátta í arfgerð okkar er einstaklingsbundið. Þar hefur að segja hversu oft við verðum fyrir áreiti sem veldur okkur kvíða, hvers eðlis það er og hve lengi það varir.