Örn Þórisson hjá áskriftardeild Morgunblaðsins afhenti Sigurði Smára geislaspilarann.
Örn Þórisson hjá áskriftardeild Morgunblaðsins afhenti Sigurði Smára geislaspilarann.
Í JÚNÍ setti Morgunblaðið í gang svokallað Blaðberakapphlaup sem gengur út á að blaðberar á höfuðborgarsvæðinu safna stigum. Fá þeir ákveðin stig við upphaf og lok blaðburðar en einnig fá þeir aukastig ef þeir ljúka burðinum fyrir kl. 7.

Í JÚNÍ setti Morgunblaðið í gang svokallað Blaðberakapphlaup sem gengur út á að blaðberar á höfuðborgarsvæðinu safna stigum. Fá þeir ákveðin stig við upphaf og lok blaðburðar en einnig fá þeir aukastig ef þeir ljúka burðinum fyrir kl. 7. Þeir sem safna flestum stigum og standa sig best í starfi lenda svo í lukkupotti, sem dregið er úr mánaðarlega.

Blaðberakapphlaupið fyrir ágústmánuð var mjög spennandi og voru margir sem komu til greina í lokaúrslitunum. Sá sem hreppti aðalvinninginn í þetta sinnið var Sigurður Smári Sigurðsson og fékk hann Sony-ferðageislaspilara í verðlaun. Auk þess fengu 20 aðrir blaðberar aukavinninga, miða fyrir tvo á kvikmyndina The Fast and the Furious frá Háskólabíói.

Sigurður Smári er sautján ára nemandi í Verslunarskóla Íslands. Hann sér íbúum Laugarásvegar fyrir Morgunblaðinu á hverjum morgni og hefur gert það síðastliðin þrjú ár.

"Mér finnst blaðburðarstarfið gott starf með skóla. Maður vaknar vel á morgnana og er hress," segir Sigurður Smári.

"Ég vakna klukkan hálfsjö á morgnana og er um hálftíma að bera út öll blöðin."

Sigurður Smári segist ætla að halda útburðinum áfram á meðan hann er í skóla og mælir með starfinu fyrir námsmenn.

Að loknu stúdentsprófi langar Sigurð að læra meira, helst eitthvað sem er tengt tölvum og viðskiptum.

Blaðberakapphlaupið heldur áfram í september með nýjum vinningum.