Lesblinda tengist ekki bara rituðu máli og vísindamenn eru ósammála um frumorsök hennar.
Lesblinda tengist ekki bara rituðu máli og vísindamenn eru ósammála um frumorsök hennar.
Lesblinda er vandamál sem getur haft mikil áhrif á skólagöngu barna. Einkenni hennar felast í minnkaðri getu til að lesa, skrifa og stafa þrátt fyrir eðlilega greind.
Lesblinda er vandamál sem getur haft mikil áhrif á skólagöngu barna. Einkenni hennar felast í minnkaðri getu til að lesa, skrifa og stafa þrátt fyrir eðlilega greind. Vísindamenn hafa skipst í hópa eftir því hvort þeir telja frumorsök hennar vera af sjónrænum toga eða tengjast heyrnarúrvinnslu. Finnskir vísindamenn við Háskólann í Helsinki hafa nú kynnt í 28. hefti tímaritsins Proceedings of the National Academy of Sciences niðurstöður rannsókna sinna á hvernig þeim tókst að aðstoða börn sem haldin eru lesblindu við að ná betri tökum á lestri og það er ótrúlegt en satt að aðferð þeirra hafði ekkert með ritað mál að gera. Hópur barna með lesblindu var prófaður með tilliti til hve rétt þau lásu, hve hratt þau lásu og einnig var prófað hve vel þau náðu að stafa orð og hvort þau slepptu úr hljóðum í orðum. Þessum börnum var skipt í tvo hópa og fékk annar hópurinn sjö vikna þjálfun, þar á meðal voru 14 stuttar þjálfunarstundir sem fólust í pörun forma og hljóða á tölvuskjá. Æfingarnar voru þannig bæði fyrir sjónræna úrvinnslu og heyrnarúrvinnslu. Niðustöður sýndu að þau börn sem fengu þjálfunina gátu að henni lokinni lesið fleiri orð en samanburðarhópurinn og líka hraðar. Þar að auki mátti sjá aukna virkni á þeim svæðum heilans sem hafa með úrvinnslu hljóðs að gera og börnin sýndu framför við að greina sundur hljóð. Það er því mat vísindamannanna að orsök lesblindu megi því að minnsta kosti að hluta til rekja til almennra erfiðleika við að aðgreina skynáreiti frekar en til sértækra erfiðleika tengdum máli, rituðu og töluðu.