FYRSTA tilraunaborunin eftir olíu í efnahagslögsögu Færeyja virðist ekki hafa skilað árangri.

FYRSTA tilraunaborunin eftir olíu í efnahagslögsögu Færeyja virðist ekki hafa skilað árangri.

Þrátt fyrir að olíumálaráðuneyti færeysku landstjórnarinnar hyggist bíða þar til í næstu viku með að birta formlega niðurstöðurnar úr fyrstu tilraunaboruninni, sem norska ríkisolíufélagið Statoil stóð að, segir í frétt færeyska vikublaðsins Fregnir, sem út kom í gær, að borunin hafi reynzt árangurslaus.

Eftir því sem haft er eftir "áreiðanlegum heimildum" kom borinn á yfir 3.700 m dýpi óvænt niður á hart basaltberglag. Statoil hafði á grundvelli niðurstaðna jarðfræðirannsókna sem gerðar voru á olíuleitarsvæðinu talið að borinn myndi koma niður á olíusetlag áður en niður á harða basaltklöppina kæmi. Mjög ósennilegt sé að olía finnist undir hinu 200 m þykka basaltberglagi.

Í sjónlínu frá borpallinum Sovereign Explorer, sem Statoil hefur notað við tilraunaborunina, eru borpallar í brezkri lögsögu norður af Hjaltlandi sem mala olíugull fyrir brezkt hagkerfi og því er með þessum fyrstu neikvæðu niðurstöðum tilraunaborana í færeyskri lögsögu draumurinn um olíuævintýri í Færeyjum langt frá því að vera úti.

Þórshöfn. Morgunblaðið.