LÖGREGLA í Iowa-ríki í Bandaríkjunum handtók í gær mann sem talið er að tengist morðum á manni, konu og fimm börnum konunnar.

LÖGREGLA í Iowa-ríki í Bandaríkjunum handtók í gær mann sem talið er að tengist morðum á manni, konu og fimm börnum konunnar. Hinn handtekni heitir Adam Matthew Moss og er 23 ára og hefur verið ákærður fyrir þjófnað og vonast lögreglan til þess að hann geti varpað ljósi á morðin. Hvorki er vitað hvað langt er um liðið frá því að morðin voru framin né hvernig þau bar að, en aðstæður á vettvangi voru hryllilegar að sögn lögreglu. Lögreglustjóri Sioux City sagði morðin líklega þau hræðilegustu í sögu ríkisins.

Loftárásir í Írak

ÍRÖSK yfirvöld staðfestu í gær að bandarískar og breskar flugvélar hefðu ráðist á og eyðilagt radarstöð í borginni Basra daginn áður. Segja þeir að þrír hafi fallið og fimmtán særst í árásinni sem gerð var til að koma í veg fyrir að Írakar gætu truflað eftirlitsflug Bandamanna yfir suðurhluta Íraks.

Dauðadómi fullnægt

MAÐUR sem dæmdur var til dauða fyrir morð sem framið var árið 1993 í Bandaríkjunum var tekinn af lífi í gær. Maðurinn, Ronald Wayne Frye, hélt því ætíð fram að verjandi sinn hefði klúðrað dómsmálinu fyrir sína hönd vegna þess hve drykkfelldur lögfræðingurinn var. Hinn dæmdi viðurkenndi sekt sína en hélt því fram að hefði lögfræðingur hans staðið sig í stykkinu hefði Ronald fengið lífstíðardóm í fangelsi í stað dauðadóms. Ýmsar málsástæður sem hefðu getað blíðkað kviðdóminn komu ekki fram vegna vanhæfni verjandans, að því er Frye hélt fram.

17 falla í Kasmír

FJÓRTÁN íslamskir skæruliðar féllu í skotbardögum í indverska hluta Kasmír-héraðs í gær. Bardagarnir áttu sér stað við landamærin að Pakistan, en mennirnir voru að reyna að komast inn í indverska hlutann þegar landamæraverðir stöðvuðu þá. Indversk stjórnvöld segja lögreglumenn á svæðinu hafa beðið mennina um að gefast upp en þeir hafi svarað með skothríð. Þá var ráðist á fjölskyldu í bænum Garoora í héraðinu og létust þrír fjölskyldumeðlimir í árásinni. Talið er að skæruliðar múslima beri ábyrgð á ódæðinu, en enginn hefur lýst árásinni á hendur sér.

Aspirín gegn sykursýki

VÍSINDAMENN í Bandaríkjunum hafa komist að því að lyfið aspirín geti gefið góða raun þegar því er beitt gegn ákveðinni tegund sykursýki. Rannsóknin sýnir að lyf með svipaða virkni og aspirín muni e.t.v. geta læknað sykursýkina, en ekki sé hægt að nota aspirínið sjálft vegna þess hve stórum skömmtum þyrfti að beita.