"Lúna getur verið stolt af sínum fyrsta og vonandi ekki síðasta diski," finnst Heimi Snorrasyni.
"Lúna getur verið stolt af sínum fyrsta og vonandi ekki síðasta diski," finnst Heimi Snorrasyni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leyfðu mér að þegja þögn þinni. Lúna. Lúna eru: Hákon Aðalsteinsson, Björk Rannveigar Viggósdóttir, Guðmundur H. Viðarsson og Heimir Hólmarsson. Lög og textar: Lúna og Haukur Þór Jóhannsson (lag 4). Gestaleikarar: Klara Þórhallsdóttir, Jóhann Björn Ævarsson, Hjalti Axelsson. Stjórn upptöku og hljóðblöndun: Haraldur Ringsted Steingrímsson. Myndir á umslagi: Guðmundur Tjörvi Guðmundsson. Hönnun: Guðmundur Oddur. Útgáfa: Smekkleysa SM. 55.45 mín.

ÞETTA er ungt og leikur sér segir máltækið en eins og svo margir frasar af sama meiði er um bull að ræða sé vikið frá því staðlaða samhengi sem frasinn kemur venjulega fram í. Ungsveitin Lúna sýnir fram á það á fyrsta hljómdiski sínum að ekki þurfi þunga áranna til að skapa tónlist sem er allt annað en leikandi létt. Nafn disksins, Leyfðu mér að þegja þögn þinni, gefur viss fyrirheit um það sem býr að baki. Þetta er þeirra bláa tímabil. Ofurdrama. En óttist ei því einmitt það gerir þessa tónlist að því sem hún er; sveimandi og sterka um leið.

Hlustum á nokkra stikkprufur:

"Upplausnir litrófsins" byggist á værukæru rennsli þar sem bassi, sneriltromma og "múmkennt" barnaorgelið renna stoðum undir stolið gítarstefið úr Wicked Game með Chris Isaak. Hvaðan gott kemur skiptir þó í raun ekki máli í þessu besta lagi disksins. Framúrskarandi uppbygging þar sem eins og strekkist hægt á samofnum stálvír þar til þræðirnir fara að slitna einn af öðrum og vírinn brestur að lokum og kerfið hrynur. Glæsilegt.

"Det stille vand" gefur okkur gítarhljóm sem minnir á regndropa sem gára kyrran vatnsflöt og haganleg tempóaukning á trommunum er eins og nærmynd af dropunum þar sem þeir sprengja yfirborðið. Innkoma raddar er ágæt en þó mesta synd að ekki skuli vera hægt að skilja orðin betur þar sem í þeim gæti leynst eitthvað gott. Óþarfa feluleikur. Niðurlagið í flottum pirúettustíl þar sem tromma og gítar kúldrast hvert um annað.

Gott píanó. Djúpur gítar sem er eins og rakinn upp úr spaghettívestra bergmálar í eyðimerkurgljúfrunum eða kannski er óhætt að íslenska líkinguna og segja þau vera jökulsprungur. Það ber með sér mikinn þunga þótt melódían sé falleg. Við innkomu trompetsins um miðbik lagsins verður vísunin í Sigur Rós mjög greinileg og á köflum er nánast erfitt að greina á milli þessa lags og Nýrra battería. Eins og áður kemur það þó ekki að sök. Ekkert er undir sólinni nýtt og lagið mjög gott.

Lagasmíðarnar á plötunni eru allar helst til keimlíkar og rýrir það nokkuð annars góðan grip. Meiri breytileiki og tilraunastarfsemi koma væntanlega samfara því að hljómsveitin fer að treysta meira á mátt sinn og megin. Þess ber einnig að geta að hönnun á umslagi er til fyrirmyndar en á þessum síðustu og bestu dögum nettónlistar er útlitshönnun orðin eitt helsta haldreipið fyrir útgáfu á diski. Listilega framkvæmt.

Lúna má vera stolt af þessari fyrstu og vonandi ekki síðustu útgáfu sinni og þó ég leggi ekki í vana minn að verðleggja hljómplötur með stjörnum held ég þó að óhætt sé að gefa Lúna nokkur full tungl.

Heimir Snorrason