LANDSLIÐSMAÐURINN Andri Sigþórsson, sem leikið hefur með austurríska liðinu Salzburg, gekk til liðs við norska úrvalsdeildarliðið Molde í gær. Andri skrifaði undir samning við norska liðið síðdegis í gær sem gildir út árið 2004. Eyjólfur Bergþórsson, umboðsmaður Andra, vildi ekki greina Morgunblaðinu frá kaupverði Molde á Andra en að sögn norska blaðsins Romsdals Budstikke er kaupverðið í kringum 3 milljónir norskra króna sem eru um 33 milljónir íslenskra króna.

Andri, sem er 24 ára gamall og leikur í dag sinn 4. A-landsleik, hefur verið í herbúðum Salzburg frá byrjun árs 2000 en félagið þurfti ekkert að greiða fyrir hann þar sem samningur hans við KR-inga var útrunninn. Andri gerði fjögurra og hálfs árs samning við Salzburg og á síðustu leiktíð lék hann 16 leiki með liðinu og skoraði tvö mörk.

"Molde sendi fyrirspurn til Salzburg fyrir þremur vikum. Þá var ég ekki til sölu en í fyrradag frétti ég að félögin hefðu náð samkomulagi um kaupverðið. Í kjölfarið beindust spjótin að mér og þar sem mér hefur ekki gengið sem skyldi hjá Salzburg og leikstíllinn sem liðið hefur verið að spila ekki beint hentað mér ákvað ég að slá til," sagði Andri í samtali við Morgunblaðið í gær.

"Það leggst bara vel í mig að fara til Molde og ég er spenntur því annars hefði ég ekki tekið þessa ákvörðun. Molde er félag sem hefur mikinn metnað, aðstaðan hjá félaginu er góð og ekki skemmir að æskuvinur minn Bjarni Þorsteinsson er fyrir hjá liðinu. Salzburg spilaði mjög stífan varnarleik og einhvern veginn fann ég mig aldrei hjá liðinu. Ég fer með því hugarfari til Molde að gera mitt besta og ég lít engan veginn þannig á að ég sé að stíga skref niður á við."

Gengið var frá félagaskiptunum í gær en þá rann fresturinn út til að skipta um félag í Noregi. Andri er því orðinn löglegur með Molde og leikur sinn fyrsta leik 9. september þegar liðið mætir Odd Grenland.