JÓN Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, heimsótti á fimmtudag Norræna heilsuháskólann í Gautaborg.

JÓN Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, heimsótti á fimmtudag Norræna heilsuháskólann í Gautaborg. Skólinn hefur verið undir stjórn Guðjóns Magnússonar læknis, frá 1996 og hefur starfsemi hans vaxið mjög á þeim tíma og útskrifast nú frá skólanum langtum fleiri meistaraprófsnemendur og doktorar en áður. Þar fyrir utan tekur skólinn að sér verkefni fyrir Alþjóða heilbrigðismálastofnunina, WHO, Rauða krossinn, ríkisstjórnir og samtök.

Guðjón Magnússon sýndi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skólann, kynnti honum hugmyndafræðina sem skólinn byggist á og greindi frá starfsemi hans. Jón Kristjánsson hitti í heimsókn sinni nemendur, sat fyrir svörum um íslenska heilbrigðisþjónustu og greindi frá áherslum sínum á því sviði.

Fjölmargir Íslendingar hafa stundað nám í Norræna heilsuháskólanum á undanförnum árum og var Íslendingur til dæmis í hópi doktorsnema sem brautskráðir voru frá skólanum fyrir skemmstu.