Jæja, afró til vinstri, hinir til hægri!
Jæja, afró til vinstri, hinir til hægri!
SVO virðist sem rokkhljómsveitin At The Drive-in sé endanlega búin að leggja árar í bát. Hljómsveitin hætti skyndilega við tónleikaferð fyrr á þessu ári og gáfu síðar út þá yfirlýsingu að sveitin væri farin í "frí um óákveðinn tíma".

SVO virðist sem rokkhljómsveitin At The Drive-in sé endanlega búin að leggja árar í bát. Hljómsveitin hætti skyndilega við tónleikaferð fyrr á þessu ári og gáfu síðar út þá yfirlýsingu að sveitin væri farin í "frí um óákveðinn tíma". Nú hinsvegar hafa liðsmenn sveitarinnar skipt sér í tvær fylkingar og haldið áfram tónlistarsköpuninni hver fyrir sig. Svo virðist sem valið í fylkingarnar hafi farið eftir hárgreiðslum því afró-hausarnir tveir, söngvarinn Cedric Bixler og gítarleikarinn Omar Rodriguez hafa nú ekki einungis snúið sér að áður þekktu hliðarverkefni At The Drive-in, dub og reggae sveitinni De Facto, því auk þess stofnuðu þeir aðra rokksveit sem ber nafnið Mars Volta. Hinir þrír liðsmenn At The Drive-in hafa svo stofnað aðra rokksveit að nafni Sparta. Báðar hljómsveitir eru komnar með samning við Grand Royal, útgáfufélag Beastie Boys, en síðasta plata At The Drive-in Relationship of Command var gefin út af því fyrirtæki. Búist er við breiðskífum frá báðum rokksveitunum á næsta ári.

"Þeir eru að búa til lög, en þau eru öll allt öðruvísi en At The Drive-in," sagði talsmaður sveitarinnar nýlega í spjalli við tónlistartímaritið NME. "Ég vona bara að þeir sinni þessum hliðarverkefnum um stund og fari svo og geri það sem þeir gera best. At The Drive-in er sárlega saknað."

Vissulega orð að sönnu.