Eggert Magnússon, formaður KSÍ, og Atli Eðvaldsson landsliðsþjálfari hafa haft í mörg horn að líta síðustu daga. Í dag rennur stóra stundin upp þegar flautað verður til leiks Íslendinga og Tékka á Laugardalsvelli.
Eggert Magnússon, formaður KSÍ, og Atli Eðvaldsson landsliðsþjálfari hafa haft í mörg horn að líta síðustu daga. Í dag rennur stóra stundin upp þegar flautað verður til leiks Íslendinga og Tékka á Laugardalsvelli.
ATLI Eðvaldsson, landsliðsþjálfari í knattspyrnu, gerir sér vel grein fyrir því að leikurinn við Tékka á Laugardalsvellinum í dag er einn sá erfiðasti sem liðið hefur leikið undir hans stjórn. Atli segist vel minnugur ófaranna í Teplic fyrir tæpu ári þegar Íslendingar töpuðu stórt, 4:0. Hann segir að strákarnir hafi lært mikið af þeim leik og þau mistök sem leikmenn hafi verið að gera þá megi ekki sjást í dag.

Ég tel lið Tékka vera í sama gæðaflokki og þegar Frakkar komu hingað fyrir tveimur árum. Tékkar eru með valinn mann í hverju rúmi og það eitt að þeir eru í sjöunda sæti á styrkleikalistanum segir hvaða mótherja við erum að fara að glíma við. Við megum helst ekki bera neina virðingu fyrir þeim og markmiðið er að gera Tékkunum lífið leitt á Laugardalsvellinum," sagði Atli Eðvaldsson í samtali við Morgunblaðið í gær en klukkan 14 í dag mætast Ísland og Tékkland í 3. riðli undankeppni HM í knattspyrnu.

Þú hefur alltaf talað um það sem markmið að komast upp úr fjórða sætinu. Lítur þú á leikinn við Tékka sem úrslitaleik með það fyrir augum að ná hærra í riðlinum?

"Alls ekki. Ég get ekki hugsað svona. Við verðum að taka hvern einasta leik fyrir sig. Ef þessi leikur við Tékka gengur eftir og við vinnum þá getum við ekki gengið að því vísu að vinna N-Írana. Við erum enn með í þeim möguleika að komast hærra en til þess að svo eigi að verða þarf allt að ganga upp. Ef okkur tekst vel upp í leiknum við Tékka, spilum agað og af öryggi og fáum mjög öflugan stuðning frá áhorfendum er ég handviss um að Tékkarnir munu lenda í vandræðum með okkur. Ef leikurinn fer hins vegar fer illa og við töpum getum við ekki lagt árar í bát. Þá eru enn tveir leikir eftir og þeir leikir eru einnig undirbúningur fyrir næstu keppni þar á eftir."

Þó svo að tæpt ár sé liðið frá ósigrinum á móti Tékkum þá hlýtur hann að lifa aðeins í minningunni?

"Við gerðum afgerandi mistök í þeim leik. Við misstum sjálfstraustið og vörn okkar brotnaði strax á fyrstu mínútunum. Það kom mikið óöryggi upp í leik okkar og við áttum aldrei möguleika. Frá því þessi leikur var tel ég að við höfum smátt og smátt verið að bæta okkar leik. Við áttum mjög góðan leik á móti N-Írunum, ágætan leik við Pólverja ytra þrátt fyrir tap, Búlgaríuleikurinn heima var frábær og við unnum tvo sannfærandi sigra á Möltu. Ég hef merkt mikinn stíganda í liðinu frá fyrstu leikjunum við Dani og Tékka í keppninni og vonandi heldur sá stígandi áfram í þessum leik."

Aðalstyrkur Tékkanna er framherjinn hávaxni, Jan Koller, ásamt leikmönnum á borð við Pavel Nedved og Karel Poporsky. Ert þú með eitthvað í pokahorninu til að halda aftur af þessum leikmönnum og þá sérstaklega Koller?

"Það eru þessir umtöluðu miðverðir í landsliðinu, Eyjólfur og Hermann, sem ég tel besta miðvarðaparið í dag ásamt Pétri Marteinssyni, sem fá það hlutverk að glíma við Koller. Ég treysti þeim fullkomlega til að halda honum í skefjum. Koller fékk of mikið rými til að athafna sig í fyrri leiknum og ég viðurkenni alveg að ég gerði ákveðin mistök í þeim leik. Hermann var í stöðu vinstri miðjumanns í fyrri hálfleiknum en í þeim síðari kom hann í miðvarðarstöðuna með Eyjólfi og þá gekk okkur betur að eiga við hann. Það er mjög mikilvægt að loka vel svæðinu á milli varnar og miðju og þá verðum við að passa okkur á að gefa þeim ekki aukaspyrnur á hættulegum stöðum."

Reiknar þú með að Tékkar komi til með að pressa stíft frá byrjun leiks?

"Já, ég get vel ímyndað mér það. Lið sem er í sjöunda sæti á styrkleikalistanum hlýtur að mæta í leikinn á móti Íslandi með það fyrir augum að ætla að vinna og sjálfsagt koma þeir til með að spila mjög grimmt á móti okkur og sækja okkur vel fram á völlinn. Staða þeirra í riðlinum býður ekki upp á neitt annað en þrjú stig ætli þeir að ná efsta sætinu svo þeir koma örugglega til með að selja sig dýrt. Það eina sem gildir hjá okkur er að vera mjög agaðir og þolinmóðir. Við komum til með að spila sama leikkerfi og í undanförnum leikjum og ég held að menn séu sér mjög vel meðvitandi um hvað þeir eigi að gera. Áherslurnar eru þær sömu, að spila agað, gera fá mistök, vera þolinmóðir og spila sem ein liðsheild."

Það vantar Rúnar, Brynjar Björn og Ríkharð í liðið. Allt hafa þetta verið fastamenn í liðinu. Kemur fjarvera þeirra til með að veikja lið okkar?

"Auðvitað. Það hefur enginn þessa reynslu og yfirsýn sem Rúnar hefur, það hefur enginn þessa baráttugleði og drifkraft sem Brynjar Björn er með og það er enginn af þeim leikmönnum sem við erum með í dag jafnhættulegur í teignum á mikilvægum augnablikum og Ríkharður. Við erum búnir að lenda í þessum áföllum og við verðum að leysa stöður þeirra með öðrum mönnum. Hópurinn er sterkur sem ég er með og ég treysti þeim leikmönnum sem koma til með að fylla skörðin fyllilega til að klára verkefnið með sóma. Ég líki fjarveru þessara þriggja við það að Tékkarnir væru að missa Koller, Nedved og Poporsky. Menn tala um mikinn missi fyrir Tékka að leika án Bergers og Smicers en hver er þá missirinn fyrir okkur. Rúnar, Ríkharður og Brynjar Björn hafa allir verið lykilmenn í landsliðinu síðustu fimm til sex árin en við verðum að komast af án þeirra og ég veit að strákarnir koma til með að leggja sig alla fram. Ég get ekki beðið um meira."

Guðmundur Hilmarsson skrifar