"TÉKKAR eru með eitt besta liðið í Evrópu í dag og það væri náttúrulega mjög gaman að fá að spreyta sig á móti þeim. Ef við spilum skipulegan leik eigum við að geta náð góðum úrslitum á móti þeim," sagði Jóhannes Karl Guðjónsson sem lék fyrsta landsleik sinn þann 15. ágúst gegn Pólverjum og stóð sig með prýði. Hann er í leikmannahópi Íslands sem leikur gegn Tékkum á Laugardalsvelli á laugardag.

Jóhannes Karl stóð sig vel er hann kom inn á sem varamaður gegn Pólverjum. Hann kom með skemmtilegan ferskleika inn í liðið og var ófeiminn við að skjóta á markið.

Þú stóðst þig gífurlega vel þegar þú komst inn á sem varamaður í síðasta leik. Vonastu eftir að fá jafnvel stærra hlutverk í liðinu núna?

"Það er náttúrulega alltaf í höndum þjálfarans að velja liðið. Ef ég fæ tækifæri til að spila tel ég mig tilbúinn til að takast á við það."

Hvernig líst þér á andstæðingana?

"Þetta eru bara menn eins og við. Við eigum í fullu tré við þá ef við sýnum baráttuvilja og gerum það sem við erum góðir í, sem er að berjast og spila góðan varnarleik. Síðan erum við líka með menn sem geta haldið boltanum frammi og eigum alveg að geta spilað fótbolta á móti þeim líka."

Hversu miklu máli mun stemmningin á vellinum skipta?

"Hún skiptir gífurlegu máli. Það er nauðsynlegt að fá sem flesta á völlinn til að styðja við sína menn."

RKC Waalwijk, sem Jóhannes Karl leikur með í Hollandi, og spænska liðið Real Betis hafa komist að samkomulagi um sölu á kappanum til Spánar. Hann hefur hins vegar ekki gefið Betis svar ennþá. "Ég á eftir að ganga frá mínum samningsmálum. Ég er að reyna að einbeita mér að landsliðsmálunum núna og veit ekki hvort ég þarf að klára þetta á milli landsleikjanna. Ég hugsa að það sé enginn tími til þess. Ég hugsa að þetta skýrist bara eftir þessa tvo landsleiki. Núna verð ég að hafa hugann við þau verkefni sem liggja fyrir með landsliðinu."

Eftir Írisi Björk Eysteinsdóttur