ARNAR Viðarsson hefur þegar skapað sér gott orð í belgísku knattspyrnunni og er orðinn fyrirliði Lokeren þrátt fyrir að vera aðeins 23 ára . Lokeren hefur byrjað illa, hefur aðeins náð í eitt stig eftir þrjá leiki en það er engan bilbug að finna á Arnari. "Eina sem menn eru vonsviknir yfir er að tapa fyrir Aalst um síðustu helgi," sagði Arnar.

Aalst er að vísu í efsta sæti núna en er ekki gott lið og við bara klúðruðum þeim leik. Ef við vinnum næsta leik erum við komnir inn í þetta aftur. Vörnin hefur gefið svolítið mikið af mörkum svo ég hugsa að það verði gerðar breytingar þar á og farið að leika með sömu vörn og í fyrra," sagði Arnar.

Arnar lék í tvö ár með tékkneska risanum Jan Köller er hann var leikmaður Lokeren. Árið 1998 gekk Koller í raðir Anderlecht og þá fékk Arnar tækifæri til að leika á móti honum og þekkir hann því vel. Sú þekking gæti reynst Íslendingum dýrmæt er þjóðirnar mætast á Laugardalsvelli á laugardag. "Hann er ótrúlegur, bæði mjög stór og sterkur en það verður að eiga við hann eins og hvern annan. Við erum með ákveðin svör við því, en það þýðir ekki að ýta 100 kg manni í burtu. Við verðum hins vegar að vinna saman og hjálpast að og þá verður þetta miklu auðveldara. Hann er ekkert ofurmenni þrátt fyrir að hann sé góður. Það er bara spennandi að leika gegn liðum sem eru með menn í bestu liðum í heimi í hverri stöðu."

Munum við einblína á að leika varnarleik gegn Tékkum?

"Nei, það held ég ekki. Við spilum bara okkar aðferð. Við spilum ekkert upp á jafntefli, heldur verðum við að vinna, ef við ætlum að eiga möguleika á að komast upp úr riðlinum. Við skuldum þjóðinni það að fá einn góðan sigur á heimavelli."

Hver er leiðin til að vinna Tékka?

"Við þurfum að vera mjög þolinmóðir, skipulagðir og þá kemur að því að þeir missa þolinmæðina. Þá sækjum við hratt á þá og spilum okkar leik. Ef við förum í leikinn með sama hugarfari og gegn Búlgörum á þetta að vera mögulegt," sagði Arnar Viðarsson.

Eftir Írisi Björk Eysteinsdóttur