Mikið á eflaust eftir að mæða á þeim Eyjólfi Sverrissyni og Auðuni Helgasyni í vörn íslenska liðsins í dag.
Mikið á eflaust eftir að mæða á þeim Eyjólfi Sverrissyni og Auðuni Helgasyni í vörn íslenska liðsins í dag.
EIÐUR Smári Guðjohnsen lék ekki með íslenska landsliðinu gegn Pólverjum 15. ágúst vegna meiðsla í nára. Hann er allur að braggast og leikur með gegn Tékkum í dag. "Ég er ekki alveg búinn að ná mér.

EIÐUR Smári Guðjohnsen lék ekki með íslenska landsliðinu gegn Pólverjum 15. ágúst vegna meiðsla í nára. Hann er allur að braggast og leikur með gegn Tékkum í dag. "Ég er ekki alveg búinn að ná mér. Það eru einhverjar bólgur í náranum við vöðvafestingar," sagði Eiður Smári. "Ef til langs tíma er litið slepp ég vonandi við aðgerð með því að styrkja vöðvana í kring. Þetta eru álagsmeiðsli. Ég var með þetta þegar ég kom í leikinn gegn Pólverjum. Svo fann ég bara of mikið til og fékk að auki hnykk á mjöðmina á æfingu og var allur eitthvað skakkur eftir það, þannig að ég hefði ekki haft gott að því að spila síðasta leik held ég."

Eiður Smári hefur ekki tekið þátt í þeim tveimur leikjum er enska liðið hans, Chelsea, hefur leikið á þessari leiktíð. "Ég var á bekknum fyrsta leikinn og var svo ekki í hópnum í næsta leik. Ég veit nú ekkert af hverju, en er ekkert að kippa mér upp við það. Ég veit alveg hvað ég get og ég veit að ef ég fæ tækifæri mun hann [Claudio Ranieri knattspyrnustjóri] ekki fá færi á því að taka mig út úr liðinu aftur."

Hvernig leikæfingu ertu í?

"Ég er náttúrulega ekki í neitt sérstaklega góðri leikæfingu því ég hef verið með þessi meiðsli í gegnum undirbúningstímabilið. Ég hef alltaf æft en verið með eymsli. Síðan hef ég ekki spilað leik síðan í endann á júlí, held ég, svo það er orðið langt síðan. Það gæti orðið áhyggjuefni til lengdar. Ef ég fer ekki að spila leik bráðum kemur varaliðið væntanlega inn í þetta."

Hvaða möguleika telurðu að Ísland eigi á sigri gegn Tékkum?

"Ég held að aðalatriðið verði að halda hreinu. Ef við lítum á riðilinn þá eru það leikirnir þar sem við höfum haldið markinu hreinu sem við höfum alltaf unnið. Við höfum skorað í hverjum einasta leik nema úti í Tékklandi þar sem við áttum enga möguleika, það verður bara að viðurkennast. Þeir voru bara miklu betri og við áttum ekki góðan dag. Þannig er það stundum í fótbolta. Við fengum mikla gagnrýni eftir þann leik en ég taldi hana nokkuð ósanngjarna því það má ekki gleyma því að árið 1996 varð Tékkland í öðru sæti í Evrópukeppni landsliða þar sem liðið tapaði á móti Þjóðverjum í úrslitum í framlengdum leik. Við höfum oft vanmetið þá - hvað þeir eru sterkir - þetta er frábær knattspyrnuþjóð sem hefur undanfarin ár orðið betri og betri. Við höfum hins vegar alltaf fengið tækifæri til að skora í leikjunum hingað til. Mér finnst vera búið að tala um það svolítið mikið að undanförnu að við þurfum að nýta tækifærin betur en ég held að aðalmálið sé að halda hreinu því ef við höldum hreinu förum við í minnsta lagi með jafntefli af velli."

Eruð þið ekkert smeykir við svo gott lið sem Tékkar eru?

"Við höfum spilað við stærri stjörnur en liðsmenn Tékka. Það þýðir ekkert að bera virðingu fyrir þeim heldur verðum við bara að láta þá bera virðingu fyrir okkur," sagði Eiður Smári Guðjohnsen.

Eftir Írisi Björk Eysteinsdóttur