MÓTETTUKÓR Hallgrímskirkju er að hefja sitt 20. starfsár. Fyrsta verkefni kórsins á haustdögum er vinna við hljóðritanir á efni fyrir geisladisk sem kemur út á 20 ára afmæli kórsins árið 2002.

MÓTETTUKÓR Hallgrímskirkju er að hefja sitt 20. starfsár.

Fyrsta verkefni kórsins á haustdögum er vinna við hljóðritanir á efni fyrir geisladisk sem kemur út á 20 ára afmæli kórsins árið 2002. Í desember mun kórinn syngja á jólatónleikum í Hallgrímskirkju með tenórsöngvaranum Jóhanni Friðgeiri Valdimarssyni, auk þess að frumflytja nýja Jólaóratóríu, sem John Speight samdi fyrir Schola cantorum, Mótettukórinn, fjóra einsöngvara og hljómsveit. Verkefni þetta hlaut styrk hjá Menningarborgarsjóðnum. Þetta verður önnur stóra íslenska óratórían sem frumflutt er í Hallgrímskirkju á árinu 2001. Passían eftir Hafliða Hallgrímsson verður endurflutt á næsta ári, á föstudaginn langa, í tengslum við hljóðritun á verkinu, en ætlunin er að koma verkinu í alþjóðlega dreifingu síðar á árinu. Á vordögum mun kórinn undirbúa tónleikaferð til Þýskalands, en hann hefur þegið boð um að koma fram á tónleikaröð norrænna kóra í Dómkirkjunni í Frankfurt í september 2002.

Kórinn ætlar með þeirri tónleikaför að hefja hátíðahöld í tilefni af 20 ára afmæli sínu. Kórinn getur bætt við nokkrum söngvurum í allar raddir, skráning í inntökupróf fer fram í Hallgrímskirkju.