TVÖ ár eru liðin frá vígslu Þórshafnarkirkju nú í ágúst og það var hátíðlegt í kirkjunni þegar teknar voru í notkun nýjar kirkjuklukkur sem Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis gaf.

TVÖ ár eru liðin frá vígslu Þórshafnarkirkju nú í ágúst og það var hátíðlegt í kirkjunni þegar teknar voru í notkun nýjar kirkjuklukkur sem Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis gaf. Enn fremur var helgað og tekið í notkun nýtt Johannus-rafmagnsorgel en það var keypt fyrir fé úr orgelsjóði Birnu heitinnar Ingimarsdóttur frá Þórshöfn.

Sóknarpresturinn séra Sveinbjörn Bjarnason prédikaði og þjónaði fyrir altari ásamt sr. Ingimari Ingimarssyni fyrrverandi sóknarpresti en prófastur Þingeyjarprófastdæmis, sr. Pétur Þórarinsson, var einnig viðstaddur athöfnina.

Séra Sveinbjörn þakkaði góðar gjafir og hlýhug í garð þessa fallega Guðs húss en kirkjunni var einnig gefinn mikill kjörgripur; orgel sem var í eigu Oddnýjar Fr. Árnadóttur frá Þórshöfn svo og vönduð ábreiða yfir flygilinn sem stendur í kirkjunni.

Veglegar kaffiveitingar voru í safnaðarheimilinu á neðri hæð í kirkjunni að lokinni athöfn en það var tekið formlega í notkun í vor og er nú ágætlega búið húsgögnum og eldhústækjum.

Af gjöfum og framlagi fólks frá upphafi kirkjubyggingar er ljóst að kirkjan er söfnuði sínum kær og nýju kirkjuklukkurnar munu í framtíðinni kalla söfnuð sinn til helgra tíða en á þær er letrað fyrsta vers úr sálminum "Nú gjaldi Guði þökk".