NÚ ÞEGAR öll fyrirtæki í Úrvalsvísitölu Verðbréfaþings Íslands hf.

NÚ ÞEGAR öll fyrirtæki í Úrvalsvísitölu Verðbréfaþings Íslands hf. hafa birt milliuppgjör sín er ástæða til að skoða hvernig fjármálafyrirtækjum gekk að spá fyrir um afkomuna og þá um leið hvernig væntingar fjármálafyrirtækjanna gengu eftir, en þetta eru í raun tvær hliðar sama penings.

Í töflunni hér að ofan má sjá hverju fjármálafyrirtækin spáðu og hver niðurstaðan varð í raun, annars vegar um afkomu fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) og hins vegar um afkomu eftir skatta og óreglulega liði, sem sagt lokatölu rekstrarreikningsins.

Almennt má segja að félög í Úrvalsvísitölunni hafi staðið undir væntingum fjármálafyrirtækjanna og jafnvel verið heldur yfir þeim þó tæplega sé hægt að segja að miklu hafi munað. Ef litið er á meðaltal spáa sést að heldur betur gekk að spá fyrir um afkomu fyrir afskriftir en eftir skatta. Á þessu vegur sú skýring þungt að mikil gengislækkun varð á tímabilinu og sum fyrirtæki beittu annarri aðferð við bókhaldslega meðferð á áhrifum gengisbreytinga en í fyrra. Þess vegna gat verið ómögulegt að spá rétt fyrir um hvaða áhrif gengislækkunin hefði á afkomuna.

En þótt fjármálafyrirtækin hafi að meðaltali komist nokkuð nærri réttri meðalniðurstöðu þýðir það ekki að spár þeirra hafi verið nærri lagi fyrir einstök félög í vísitölunni. Fyrir afskriftir skeikaði spánum að meðaltali um 37%, og er þá litið jafnt á frávik sem er yfir og undir niðurstöðunni. Eftir afskriftir voru spárnar fjær lagi eins og áður sagði, eða 54%.

Leggja má margs konar mælikvarða á hvernig einstökum fjármálafyrirtækjum gekk að spá að þessu sinni. Á einn mælikvarða getur fyrirtæki mælst með bestu spá en á annan með þá verstu og rétt er að taka þessa umræðu með þeim fyrirvara. Ef litið er á hversu oft fyrirtæki spáðu best um lokaafkomuna má sjá að Landsbankinn oftast næstur réttri tölu, eða sjö sinnum. Kaupþing er fjórum sinnum næst, Íslandsbanki þrisvar sinnum og Búnaðarbankinn einu sinni. Ef litið er á það hversu oft fjámálafyrirtæki er með lökustu spána snýst dæmið svo að segja alveg við. Hér er þó eðlilegt að líta til þess að Landsbankinn kaus að spá ekki fyrir um afkomu Baugs og Össurar.

Ef litið er á meðalfrávik frá niðurstöðu (eftir að leiðrétt hefur verið fyrir upphæð og því hvort frávikið er jákvætt eða neikvætt) fæst út að fyrir afskriftir kemur Kaupþing best út, með 28% frávik ef aðeins er horft á þau fyrirtæki sem allir spá fyrir um. Næstur er Íslandsbanki með 35%, þá Landsbankinn með 47% og Búnaðarbankinn með 55%. Þegar sama hlutfallstala er skoðuð fyrir lokaniðurstöðuna, þ.e. hagnaðinn sjálfan, þá er Landsbankinn með 26% frávik, Íslandsbanki með 27%, Búnaðarbankinn með 49% og Kaupþing með 55%.

Efnahagsumhverfið, þá sérstaklega gengislækkun krónunnar og sjómannaverkfallið, gerði spámönnum fjármálafyrirtækjanna lífið erfitt, en með betri upplýsingagjöf skráðra fyrirtækja mætti draga úr þeirri óvissu sem slíkar aðstæður í efnahagslífinu hafa í för með sér. Ástandið verður betra framvegis að því leyti að þá munu uppgjör liggja fyrir fjórum sinnum á ári, en félög geta líka bætt sig með því að gera betur grein fyrir því sem máli getur skipt, eins og framvirkum samningum sem gerðir hafa verið og með því að birta oftar en nú er gert afkomuviðvaranir og tilkynningar um eignasölu eða annað sem hefur áhrif á rekstrarniðurstöðuna.