Davíð Björnsson
Davíð Björnsson
Auðvitað, segir Davíð Björnsson, er enginn atvinnurekstur áhættulaus.

FYRIRHUGAÐ álver Reyðaráls á Reyðarfirði hefur orðið tilefni margvíslegra blaðaskrifa. Fjallað hefur verið um málið frá ýmsum sjónarhornum, en í grein þessari verður sjónum beint að áhættu eða óvissu þeirri, sem tengist byggingu og rekstri álversins. Tilefni skrifanna eru m.a. greinar sem tveir stjórnarmenn í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins hafa birt, um að álverið sé sérstök áhættufjárfesting, og að um sé að ræða atvinnuþróunarverkefni fremur en hefðbundna fjárfestingu í atvinnulífinu. Meginboðskapur greinanna er sá að fjárfesting í álveri sé of áhættumikil til að lífeyrissjóðum sé stætt á því að koma þar að.

Hverjir eru óvissuþættirnir?

Í fjárfestingarfræðum jafngildir óvissa áhættu og því verður hér jöfnum höndum talað um óvissu- eða áhættuþætti. Í meðfylgjandi töflu er yfirlit yfir helstu óvissuþætti í sambandi við byggingu og rekstur álvers á Reyðarfirði. Til samanburðar eru síðan sömu óvissuþættir sýndir þegar um er að ræða kaup á nýju fiskiskipi, en kaup fiskiskipa heyra til algengustu fjárfestinga atvinnufyrirtækja hérlendis. Plúsmerki er notað sé um að ræða litla áhættu af viðkomandi þætti, en mínusmerki sé áhætta af honum veruleg eða mikil.

Sjá töflu.

Sé litið á helstu óvissu- eða áhættuþætti á byggingartíma álvers og fiskiskips sést að þeir eru mjög svipaðir. Í báðum tilvikum er um að ræða þekkta tækni, þ.e. þau fyrirtæki sem taka að sér smíði eða útvegun efnis í viðkomandi framkvæmdir hafa áratuga reynslu af nákvæmlega sams konar verkefnum og það er því ekkert í smíðinni eða byggingunni sjálfri sem ætti að koma á óvart. Vegna þessa geta þau fyrirtæki sem bjóða í verkin gert föst verðtilboð og smíðaverðið er því hægt að áætla með töluverðri vissu. Í báðum tilvikum er hins vegar um það að ræða að efnið til smíðanna og helstu tæki koma að mestu erlendis frá og því eru smíði fiskiskips og álvers háð gengisáhættu á smíðatímanum. Lækki gengi krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum á smíðatímanum hækkar kostnaður af smíðinni í krónum. Megináhættuþættir við álver og fiskiskip eru því hinir sömu á byggingartíma.

Óvissa á rekstrartíma

Þegar byggingartímanum lýkur og rekstur hefst verður samanburðurinn hins vegar mjög hagstæður álverinu.

Sé byrjað á framleiðslumagni getur útgerðaraðili fiskiskipsins aldrei verið viss um það hvaða magn hann kemur til með að veiða (aðfangaáhætta). Óvissuþættirnir þar eru margir og lúta m.a. að því hvernig úthlutaður kvóti breytist milli ára, hvernig aflabrögð eru, sem fer eftir veðri, hafís, hafstraumum o.fl. þáttum sem útgerðaraðilinn hefur enga stjórn á. Álverið hefur hins vegar langtímasamning um innkaup helstu aðfanga og um sölu afurða og getur því áætlað framleitt magn mjög nákvæmlega langt fram í tímann. Þetta gerir það að verkum að álverið getur alltaf keyrt á fullum afköstum meðan afköst fiskiskipsins eru mismikil eftir aðstæðum.

Óvissa er hins vegar um verð afurðanna í báðum tilvikum, sem háð eru markaðsaðstæðum á hvorum markaði fyrir sig. Ál er hins vegar sá málmur í heiminum sem eftirspurn vex hvað mest eftir og því er það mat sérfræðinga að horfur á álmörkuðum séu vænlegar sé horft til næstu ára og áratuga.

Framleidd vara þarf hins vegar ekki alltaf að vera seld vara í tilviki útgerðaraðilans. Aðstæður á markaði geta versnað, samkvæmnisvara orðið ofan á eða önnur atriði sem valda því að dregur úr eftirspurn á markaði sem leiðir til birgðasöfnunar. Þetta þekkja framleiðendur loðnulýsis og loðnumjöls mjög vel, svo dæmi sé tekið. Í tilviki álversins er hins vegar um að ræða langtímasamninga við mjög öflugt erlent fyrirtæki, í þessu tilviki Norsk Hydro, um að félagið annist sölu allra afurða sem verksmiðjan getur framleitt, á gildandi markaðsverði og þessi áhættuþáttur því ekki fyrir hendi.

Loks má nefna áhættuþátt sem fólginn er í gengisáhættu á milli verðs aðfanga og afurða. Í tilviki útgerðaraðilans selur hann afurðir sínar á erlendum markaði en kostnaður hans er að mestu leyti í krónum. Þeirri áhættu má reyndar eyða að stórum hluta með viðskiptum á afleiðumarkaði, en af þeim viðskiptum er auðvitað nokkur kostnaður. Í tilviki álversins er stór hluti aðfanga hins vegar í sömu mynt og afurðir eru seldar í og þessi áhætta því mun minni. Allt hráefni til álversins svo og rafmagn til þess er keypt í bandaríkjadollurum sem er sama mynt og afurðirnar eru seldar í og gengisáhætta vegna þessa liðar því mjög lítil.

Niðurstöður

Eins og fram hefur komið í greiningunni hér að framan eru óvissuþættir við byggingu álvers og fiskiskips hinir sömu en óvissuþættir við rekstur fiskiskips margfalt meiri en við rekstur álvers. Eins og samningar um aðföng og afurðir eru settir upp fyrir álverið má segja að reynt sé að takmarka óvissu og þar með áhættu af rekstri þess eins og framast er unnt. Auðvitað er enginn atvinnurekstur áhættulaus, en rétt að ítreka að rekstur álversins m.v. fyrirliggjandi samninga er tiltölulega áhættulítill. Þeir sem fjölyrða um að fjárfesting í álverinu sé áhættufjárfesting hljóta þá jafnframt að vera þeirrar skoðunar að fjárfesting í fiskiskipi sé fífldirfska eða óðs manns æði. Auðvitað er ekki um það að ræða. Álverið við Reyðarfjörð er áhættulítil fjárfesting.
Óvissuþættir við byggingu og rekstur álvers og fiskiskips

Álver á Reyðarf. Fiskiskip
Óvissa á byggingartíma Þekkt tækni + +
Þekkt byggingarverð + +
Gengisáhætta - -
Óvissa á rekstrartíma Þekkt framleiðslumagn + -
Þekkt verð afurða - -
Langtímasamn. um sölu afurða + -
Langtímasamningar um innkaup helstu aðfanga + -
Gengisáhætta milli aðfanga og afurða + -

Höfundur er rekstrarhagfræðingur og situr í stjórn Hæfis hf.