Brakið sem rak á land við útfall Höfðakvíslar á Mýrdalssandi reyndist 72 feta langt. Í baksýn er Hjörleifshöfði.
Brakið sem rak á land við útfall Höfðakvíslar á Mýrdalssandi reyndist 72 feta langt. Í baksýn er Hjörleifshöfði.
HLUTA af skipsflaki hefur rekið á fjöru við útfall Höfðakvíslar á Mýrdalssandi. Talið er víst að hér sé um að ræða hluta af tvíbytnu Philips-liðsins sem fékk á sig brotsjó um 1300 kílómetra vestur af Írlandi 10. desember í fyrra.

HLUTA af skipsflaki hefur rekið á fjöru við útfall Höfðakvíslar á Mýrdalssandi. Talið er víst að hér sé um að ræða hluta af tvíbytnu Philips-liðsins sem fékk á sig brotsjó um 1300 kílómetra vestur af Írlandi 10. desember í fyrra. Talsverð leit var gerð að skútunni á sínum tíma en hún var metin á um 600 milljónir íslenskra króna.

Áhöfnin yfirgaf skútuna er hún varð fyrir skemmdum í óveðri. Tvíbytnan var í reynslusiglingu en ætlunin var að hún tæki þátt í kappsiglingu kringum hnöttinn sem hófst í Barcelona á Spáni um síðustu áramót. Hönnun skútunnar þótti byltingarkennd og var hún stærsta tvíbytna sem smíðuð hafði verið til keppnissiglinga. Skipsskrokkarnir voru hvor um sig tæpir 40 metrar á lengd.

Í lok maí í fyrra fann Lóðsinn í Vestmannaeyjum stórt rekald austur af eyjunum og reyndist það vera annar hluti tvíbytnu Philips-liðsins. Var flakið dregið inn til hafnar í Vestmannaeyjum. Þá fannst um 15 metra langur hlutur, sem talinn er vera úr kili skútunnar, út af Hornafjarðarósi í vor. Hluturinn var dreginn inn til Hafnar í Hornafirði.

Síðastliðinn sunnudag fannst 10- 15 metra langur hluti úr flaki skútunnar. Að sögn lögreglunnar í Vík gerði ferðamaður lögreglu viðvart um að hlutur væri á reki við Höfðafjöru. Lögregla taldi fyrst að um flugvélarvæng væri að ræða. Þyrla frá Landhelgisgæslunni var kölluð á staðinn og staðfesti Thorben Lund, sigmaður á TF SIF, að menn teldu þetta hluta af flaki tvíbytnunnar sem fórst vestur af Írlandi. Thorben sagðist fyrst hafa komið auga á flakið 8. júní s.l. þar sem það rak á svipuðum slóðum.

Hann sagði flakið merkt auglýsendum en að öðru leyti væri erfitt að átta sig á hvaða hluta skipsins væri um að ræða. Líklegast þykir að þetta sé hluti af kilinum eða mastri. Að sögn lögreglunnar í Vík hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort flakið verður fjarlægt.