VALGERÐUR Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segist gleðjast yfir úrskurði Skipulagsstofnunar vegna Reyðaráls. Hún telji hann ekki óeðlilegan og þau skilyrði sem sett séu alls ekki óyfirstíganleg.

VALGERÐUR Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segist gleðjast yfir úrskurði Skipulagsstofnunar vegna Reyðaráls. Hún telji hann ekki óeðlilegan og þau skilyrði sem sett séu alls ekki óyfirstíganleg.

Valgerður sagði að hvað varðaði vöktunarskilyrði væri ekki ólíklegt að þau mál yrðu útfærð frekar í starfsleyfi sem Hollustuvernd sæi um. Hvað ábúðina varðaði hefði ráðuneytið gert þeim aðilum viðvart sem þarna ættu í hlut, en það væru tvö býli sem væru á svokölluðu þynningarsvæði. Reyndar væri það þannig með annað býlið að það lenti ekki innan marka svæðisins fyrr en við stækkun verksmiðjunnar, en hún teldi að ef svo færi að þarna yrði farið í framkvæmdir þá væri ekki ólíklegt að það mætti ná samkomulagi við þá ábúendur sem ættu í hlut. Það yrði hins vegar auðvitað ekki farið út í þær viðræður fyrr en það lægi endanlega fyrir að af framkvæmdum yrði.

"Það má segja að það sé komin upp svolítið sérkennileg staða þegar maður horfir á Noral verkefnið sem slíkt. Hvað varðar úrskurð Skipulagsstofnunar þá er álverið jákvætt og höfnin, línan og vegurinn, en hins vegar virkjunin ekki. En það er náttúrlega með þennan úrskurð eins og aðra að það er ekki þar með sagt að þetta sé niðurstaðan, því nú á eftir að koma í ljós hvort um kæru verður að ræða og þá er það ráðherra sem á síðasta orðið," sagði Valgerður.