Atli Eðvaldsson, landsliðsþjálfari í knattspyrnu, tilkynnti byrjunarliðið eftir æfingu síðdegis í gær.

Atli Eðvaldsson, landsliðsþjálfari í knattspyrnu, tilkynnti byrjunarliðið eftir æfingu síðdegis í gær. Þessir ellefu leikmenn munu hefja leikinn fyrir Íslands hönd:

Árni Gautur Arason

Auðun Helgason

Eyjólfur Sverrisson

Hermann Hreiðarsson

Arnar Þór Viðarsson

Jóhannes K. Guðjónsson

Pétur Marteinsson

Arnar Grétarsson

Helgi Sigurðsson

Andri Sigþórsson

Eiður S. Guðjohnsen

Varamenn eru: Birkir Kristinsson, Lárus Orri Sigurðsson, Helgi Kolviðsson, Jóhann B. Guðmundsson, Tryggvi Guðmundsson, Heiðar Helguson og Marel Baldvinsson.

Mesta athygli í vali Atla vekur að Jóhannes Karl Guðjónsson, hinn ungi leikmaður RKC Waalwijk, er í byrjunarliði í sínum öðrum landsleik en hann sýndi góð tilþrif þegar hann kom inn á í síðari hálfleiknum við Pólverja á dögunum.

"Ég er óhræddur við að henda Jóhannesi inn í byrjunarliðið þrátt fyrir að mótherjarnir séu með þeim bestu í heimi. Jóhannes hefur spilað vel með sínu félagsliði og hann sýndi mér þegar hann fékk tækifæri í leiknum við Pólverja að hann er mjög þroskaður og sterkur leikmaður sem hefur mikið hugrekki," sagði Atli í samtali við Morgunblaðið í gær.

Atli segir að hlutverk Péturs Marteinssonar í stöðu aftasta miðjumanns sé að binda saman svæðið á milli varnar og miðju og segir Atli að hann hafi leyst þá stöðu vel í leiknum við Pólverja.

"Fjórir öftustu varnarmennirnir hafa leikið þónokkuð mikið saman og þeir eiga að þekkja hver annan vel. Pétur kemur til með að veita þeim hjálp enda veitir ekki af þegar maður eins og Koller er til staðar. Hvað sóknarlínuna varðar tel ég að þeir Helgi, Andri og Eiður eigi allir að geta gert usla í tékknesku vörninni. Andri skoraði á móti Pólverjum og það efldi sjálfstraust hans, Helgi hefur verið að gera vel í Noregi og allir vita hvað Eiður Smári kann fyrir sér."