Jón Helgi Símonarson, fyrrverandi bóndi á Þverá í Svarfaðardal, fæddist í Gröf í Svarfaðardal 13. september 1895. Hann lést föstudaginn 24. ágúst síðastliðinn, tæplega 106 ára að aldri. Foreldrar hans voru Símon Jónsson og Guðrún Sigurjónsdóttir.

Helgi kvæntist 4.6. 1927 Maríu Stefaníu Stefánsdóttur, f. 23.11. 1895 á Vémundarstöðum, d. 20.11. 1963 á Þverá. Foreldrar hennar voru Stefán Jónsson og Sigríður Jónsdóttir. Börn Helga og Maríu voru: 1) Halldóra, f. 12.7. 1930, d. 26.10 1958 af slysförum; dóttir hennar og Lárusar Haraldssonar er Guðrún, f. 17.2. 1950 á Þverá og hefur alist þar upp; 2) Sigrún Petrína, f. 10.8 1935, d. 26.4 1996; 3) Símon f. 14.1. 1941. Tvö börn fæddust andvana og eitt dó nýfætt.

Helgi bjó á hluta af jörðinni Völlum í Svarfaðardal frá 1914-1930 en það ár keyptu þau hjón Þverá og var Helgi bóndi þar til ársins 1972. Hann lauk gagnfræðaprófi 1919 og kennaraprófi 1923. Stundaði eftir það kennslustörf um árabil og var skólastjóri barnaskólans á Dalvík 1924-43 en kenndi við unglingaskólann þar til 1945. Jafnframt hlóðust á hann margs konar störf í þágu hreppsins og við menningarmál. Hann var hreppsnefndarmaður í 12 ár, formaður í búnaðar- og ræktunarsamböndum dalbúa í sex ár, í stjórn sjúkrasamlags og í fulltrúaráði sparisjóðs sveitarinnar og formaður Ungmennafélags Svarfdæla um skeið. Á tímabilinu 1961-70 var hann fulltrúi Búnaðarsambands Eyjafjarðar á búnaðarþingi og einnig var hann fulltrúi á þingum Stéttarsambands bænda. Helgi hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín. Hann var sæmdur hinni íslensku fálkaorðu fyrir störf að félagsmálum, hann var heiðursfélagi í Búnaðarfélagi Íslands og Búnaðarfélagi Svarfdæla og heiðursfélagi í Ungmennafélagi Svarfdæla. Á 100 ára afmæli Helga var hann sæmdur Melvin Jones-orðu Lionssamtakanna.

Helgi bætti jörð sína mikið með stórfelldum ræktunarframkvæmdum og nýbyggingum.

Árið 1972 leigði Helgi jörðina Símoni syni sínum og Guðbergi Magnússyni, fyrrv. manni Guðrúnar dótturdóttur sinnar. Guðrún og Símon eiga jörðina og búa þar félagsbúi. Sambýlismaður Guðrúnar er Eiríkur Helgason. Börn Guðrúnar eru: 1) Helgi, maki Eva Reykjalín Elvarsdóttir, börn þeirra Elvar og Petra, 2) María Vilborg.

Helgi bjó hjá Símoni og Guðrúnu á Þverá frá 1972 en vorið 2000 fluttist hann á dvalarheimilið Dalbæ á Dalvík.

Útför Helga fer fram frá Dalvíkurkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13:30.

Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. (V. Briem.)

"Ég hef átt gott líf," sagði Helgi frændi minn á Þverá, þegar ég hringdi til hans á afmælisdaginn, er hann varð 105 ára. Þessi orð hans komu mér ekki á óvart. Alla tíð hafði hann átt rósemi hugans og verið jákvæður, þó að margir og dimmir skuggar hefðu fallið á ævibraut hans og lífsreynslan verið óvenju sár með köflum.

Föður sinn þekkti hann ekki. Hann drukknaði, þegar Helgi var á öðru ári. Hin mikilhæfa kona hans missti heilsuna fyrir aldur fram og lá síðustu árin á sjúkrahúsi. Af sex börnum þeirra dóu þrjú í fæðingu eða nýfædd.

Þannig misstu þau tvö fyrstu börnin. Mest sá ég samt Helga brugðið, er dóttirin, sem var stoð foreldranna, dó af slysförum. Þó mælti hann ekki æðruorð en bað um að fá að fara einn á staðinn. Dóttirin Halldóra átti þá unga telpu, sem afinn ól upp og varð augasteinn hans. Á elliárum hans hefur hún launað honum fóstrið vel og verið stoð hans og stytta til hinstu stundar. Þegar Helgi kveður jarðlífið eru öll börn hans látin, nema Símon, sonurinn sem var þeirra yngstur.

Samband Helga við bernskuheimili mitt var alla tíð náið. Faðir minn var móðurbróðir hans. Fyrstu hjónabandsár foreldra minna var Guðrún móðir hans á heimili þeirra með drengina sína, Helga og Jón. Er hún nokkru síðar flutti að Völlum, sem vinnukona hinna mætu prestshjóna sem þar voru, fylgdi Jón móður sinni en Helgi var áfram hjá foreldrum mínum á Brautarhóli. Hann sagði mér sjálfur, að hann hefði verið á þeirra vegum frá níu ára aldri fram undir tvítugt. Enda fannst mér mamma, ekki síður en pabbi, líta á hann sem elsta drenginn sinn.

Helgi var skarpgreindur, glaðsinna, trygglyndur og atorkusamur.

Eftir nám í Gagnfræðaskólanum á Akureyri og síðar Kennaraskólanum gerðist hann kennari á Árskógsströnd og ári síðar skólastjóri á Dalvík. Eftir að hann kvæntist stundaði hann jafnframt búskap, ásamt eiginkonu sinni, fyrst á hluta af Völlum og síðan á Þverá. Þá jörð keypti hann árið 1930. Meðan þau hjón höfðu gott og traust vinnufólk gekk þetta vel, með góðri stjórn eiginkonunnar, þó að húsbóndinn væri fjarri heimilinu vetrarmánuðina. Um helgar lagði hann að vísu oftast land undir fót og gekk heim, enda röskleikamaður og léttur í spori. Svo fór þó, að hann varð að velja á milli starfs skólastjórans og bóndans. Valdi hann þá síðari kostinn. Helgi var mikill ræktunarmaður. Ár frá ári stækkaði túnið á Þverá. Þó að hann hefði nokkurt kúabú var sauðkindin honum hugstæðari, enda var hann fjárglöggur.

Síðustu árin voru fæturnir orðnir þreyttir og aldurinn hár. Þrátt fyrir það mætti Helgi á Tungurétt í haustgöngum meðan kraftar entust.

Sumarið, sem ég var 16 ára, kynntist ég best heimilisháttum á Þverá, er ég var þar í nokkrar vikur sem eins konar kaupakona. Hlýr og léttur andi hvíldi yfir samskiptum fólks. Hjónin voru bæði glaðsinna, og ekki spillti rólyndi Guðrúnar, móður Helga, heimilislífinu. Á hverju sumri var börnum úr þéttbýlinu komið þangað til dvalar. Leið þeim áreiðanlega vel. Heimilið var snyrtilegt og menningarbragur á öllu. Þar að auki var María, kona Helga, mjög góð matmóðir.

Í æsku minni fórum við, fjölskyldan á Brautarhóli, á hverju sumri í berjaferð yfir að Þverá. Þar var berjaland mikið og gott, þó að sum holtin og móarnir breyttust smátt og smátt í tún. Jafnframt var þetta skemmtiferð, sem vakti tilhlökkun, enda móttökur alltaf frábærar. Ég held, að bæði foreldrar mínir og hjónin á Þverá hafi þó fyrst og fremst gert þetta til að treysta vináttu- og ættarböndin. Móðir mín, sem sjaldan fór af bæ, hafði það líka fyrir reglu, bæði haust og vor, að heimsækja ættingjana, en María var frændkona hennar. Að vetrarlagi kom hún aftur á móti til okkar, með Halldóru dóttur sína, og dvaldi heima nokkra daga.

Auk þess að annast allstórt bú á svarfdælskan mælikvarða þess tíma sinnti Helgi margs konar félags- og trúnaðarstörfum fyrir sveit sína og sýslu. Ungmennafélagsandinn í upphafi 20. aldar átti hug hans. Hann var algjör reglumaður, neytti hvorki áfengis né tóbaks og var ósínkur á tíma sinn ef hann taldi, að hann gæti lagt góðu málefni lið. Ræðumaður var hann góður, skýr í hugsun og rökfastur. Gaman var að tala við Helga, einkum um sameiginleg áhugamál. Er ég var sest að í Reykjavík bjó hann á stundum á heimili okkar hjóna, þegar hann var fulltrúi fyrir Eyjafjarðarsýslu á Búnaðarþingi eða sat á fundum Stéttarsambands bænda. Bar þá margt á góma, þegar tóm gafst frá fundarsetum. Ég var þakklát fyrir þessar stundir, því að ég fræddist um margt sem gaf lífinu gildi og kynntist Helga vel. Stundum skýrði hann frá ýmsu, sem tengdist lífsreynslu hans sjálfs, svo fáorður sem hann þó annars var um eigin hag og tilfinningar.

Þegar aldur færðist yfir og fætur Helga fóru að gefa sig sat hann oft við ritstörf. Hugsunin var áfram skýr og frjó og minnið gott. Í einni bók ritsafnsins Aldnir hafa orðið skrifaði hann ævisögu sína í stórum dráttum, svo langt sem hún náði þá. En hann var of hógvær maður til að segja frá fjölbreyttu starfi sínu eins og verðugt hefði verið. Einnig skráði hann minningargreinar í blöð og ýmsta stutta þætti, sem hann birti ekki á prenti.

Á ég suma þeirra, enda vissi hann, að mér þótti fengur að þeim og varðveiti þá vel.

Þótt ævin væri orðin löng vissum við ættingjar Helga, hve óvenju vel hann hélt andlegu atgervi sínu. Á niðjamóti, sem afkomendur afa okkar, Sigurjóns Alexanderssonar, og eiginkvenna hans héldu fyrir tíu árum, þegar Helgi var tæpra 96, var honum falið að flytja aðalræðuna og minnast þeirra þriggja. Það gerði hann á frábæran hátt, þar sem hann miðlaði fróðleik, sem flestum okkar var ókunnur og hefði annars fallið í gleymsku. En Helgi var fyrsta barnabarn afa og þekkti hann manna best.

Á síðustu árum þótti mörgum fýsilegt að hafa tal af þessum gamla, hressa og minnuga manni. Dagskrárgerðar- og fréttamenn fjölmiðla sóttu hann heim og birtu viðtöl og myndir. Um síðustu áramót mátti fyrst heyra þann tón í svari hans, að hann væri orðinn saddur lífdaganna.

Ég sat aldrei á skólabekk hjá Helga. Á unglingsárum mínum var hann aftur á móti stundum prófdómari á vorprófum. Í fyrstu þótti mér það dálítið óþægilegt. Ég óttaðist, að hann yrði ekki sáttur við frammistöðu frænku sinnar. Ekki veit ég heldur, hvaða dóm hann hefði lagt á þessa ritsmíð mína, sem á að vera kveðja og þakklæti mitt og fjölskyldunnar frá Brautarhóli fyrir öll liðnu árin. Tryggð hans, kærleiki og vinsemd í okkar garð breyttist aldrei. Við andlát móður minnar skrifaði hann hlýja minningargrein í Tímann, þar sem hann þakkaði foreldrum mínum fóstrið í æsku hans. Og hverri nýrri grein á ættarmeiðnum mætti hann með sömu hlýju.

Þegar hinir traustu stofnar í íslensku þjóðlífi falla til foldar verður eftir tómarúm hjá okkur samferðamönnunum, jafnvel þó að stofninn sé orðinn gamall. Því stærra verður það rúm, því nánara sem sambandið var.

Helgi mætti dauða sínum með sömu ró og hann lifði lífinu. Guðrún dóttirdóttir hans, sem sat við hvílu hans er hann kvaddi, heyrði hann mæla fram bænaversin sín. Ég veit vel, að bæði á björtum og dimmum dögum fól hann sig og sína vernd Guðs og leiðsögn. Hann treysti Drottni sem á langri ævi hafði veitt honum kraft til góðra verka á örlagastundum og styrk. Því gat hann sem háaldrað gamalmenni sagt með sanni, að hann hefði átt gott líf.

Kæri Símon, Guðrún, Helgi og María. Guð blessi ykkur öllum dýrmætar minningar um föður, afa og langafa, sem bar með sér manngöfgi hvar sem hann fór.

Lilja S. Kristjánsdóttir.

Þegar Helgi kom fylltist hús bernskunnar af hlátri. Barnsminnið dregur upp, að Helgi Símonarson hafi komið suður þegar dagar okkar urðu myrkir og langir, eins og ljóssending úr Svarfaðardal. Með í för hans var gáski og áreitnislaus kímni. Svo gisti hann gjarnan eða kom í mat eða kaffi. Þegar Helgi kom hló mamma meira en venjulega.

Helgi var yndislegur maður og svo mjúklátur í gleðinni að börnin drógust óttalaus að honum. Hann dró upp myndir í frásögn sinni og ímyndunarafl okkar hinna flaug auðveldlega með. Hann var aufúsugestur alls staðar sem hann kom. Og hann var svo gætinn í samskiptum við menn að mér fannst eins og hann væri ekki beint mennskur heldur fremur himneskur. Þegar ég eltist og kynntist honum betur sá ég hversu handgenginn hann var Guði og skildi betur ræktina í honum og hvaðan hann þáði engilsatferlið. Og merkilegt var að hlusta á hann háaldraðan ræða með skerpu um hið góða en einnig hið varhugaverða í menningu og samfélagi.

Svarfdælingar eru ríkir að hafa átt Helga og stórríkir vegna langlífis hans.

Hann var góður sendiboði sveitamenningar fyrri hluta 20. aldar. Sem slíkur var hann ekki heimóttarlegur, heldur gat glaðst yfir góðum leik rauðliðanna í Liverpool eða pólitískum skylmingum á Alþingi. Öllum lagði hann gott til en engum illt. Að leiðarlokum vil ég þakka allar gleðistundir og hlátur mömmu og minna. Þverárfólkið veri blessað fyrir hversu vel það umvafði Helga alla tíð.

Sigurður Árni Þórðarson.

Helgi Símonarson átti stórt rúm í hjarta þeirra sem þekktu hann. Í því rúmi ríkir nú tómleiki, en þó fyrst og fremst birta, friður og þakklæti. Helgi var búinn að lifa svo lengi og bar aldurinn svo vel að mér fannst á stundum eins og hann ætti bara alltaf að lifa. En það kom að því að líkaminn lét undan, og þá verður dauðinn velkominn.

Helgi hefur tilheyrt lífi mínu frá bernsku. Pabbi minn og Helgi voru systkinasynir og með þeim voru sterk bræðrabönd, enda ólust þeir upp saman, þar sem Helgi kom á heimilið um það leyti sem pabbi fæddist. Þótt níu ár skildu þá að í aldri voru þeir mestu mátar, höfðu náið samband og báru virðingu hvor fyrir öðrum.

Helgi bjó alltaf norður í Svarfaðardal en við vorum í Reykjavík og síðar í Mosfellssveit. Það var árviss viðburður, sem við systkinin hlökkuðum til, að Helgi kom og gisti í nokkra daga þegar hann kom á búnaðarþing. Það er orðin hálf öld síðanog undarlegt að hugsa um að þá var Helgi búinn að lifa hálfa öld. Hann sýndi okkur börnunum umhyggju og áhuga, ræddi við okkur um viðfangsefni okkar og áhugamál og við fundum að Helgi var vinur okkar. Helgi var einhvern veginn þannig að það var eins og hann ætti hlut í okkur. Við systkinin erum full þakklætis yfir því að hafa átt svo góðan frænda og vin.

Ljúfa minningu á ég frá sjö ára aldri þegar ég dvaldi í þrjár vikur á Brautarhóli hjá ömmu. Einn sunnudaginn fórum við allt heimilisfólkið í heimsókn að Þverá. Ekið var á dráttarvél og við sátum á vagni, sennilega heyvagni.

Þetta varð mér sem ævintýraferð og það var í fyrsta sinn á ævinni sem ég kom í torfbæ og ég dáðist að því hvað var hægt að hafa fínt heimili í svona gömlu húsi, með moldargólf í hluta eldhússins.

Þegar ég varð eldri og kynntist Helga betur og heyrði um áföllin í lífi hans þótti mér ætíð sem hann væri einstök fyrirmynd sem við hin gætum lært mikið af. Sorgir lífsins gerðu hann sterkan, auðmjúkan og þakklátan. Hann kvartaði ekki. Þvert á móti: Hann þakkaði Guði gæði lífsins og gleði. Hann vissi að lífið allt er gjöf úr hendi skaparans. Ætli Helgi hafi ekki lifað svo lengi af því að hann hafði þetta mikilvæga hlutverk?

Að leiðarlokum þökkum við, sem eftir stöndum, fyrir að hafa fengið að vera samferða Helga og læra af honum. Ljómi ásjónu hans býr innra með okkur. Kærleikur hans mun umvefja okkur og ylja meðan við lifum.

Guð blessi minningu Helga og alla ástvini hans.

Stína Gísladóttir.

Þegar ég var smákrakki í Svarfaðardal kynntist ég fjölskyldunni á Þverá af því að hún var í vinahópi foreldra minna. Þá fannst mér að Helgi hefði alltaf verið á Þverá og yrði þar alltaf. Þess vegna fannst mér skrítið þegar hann flutti á Dalbæ. Eftir það vaknaði ég ekki við fyrstu útvarpsfrétttir á morgnana í heimsóknum mínum að Þverá. Útvarpsmessa á sunnudegi hljómaði þá heldur ekki lengur um allt hús.

Sumarið þegar ég var 10 ára og Helgi var að verða 100 dvaldi ég um tíma á heimilinu. Það voru margir á bænum og ég svaf þess vegna í stofunni. Ég var þar lítið ein, því á þessum tíma stóðu yfir Ólympíuleikar í Atlanta og Helgi mátti ekki missa af neinu sem þar fór fram. Hann sat því í sjónvarpsstólnum sínum þar til útsendingu var lokið, en það var gjarnan klukkan að verða fjögur um nóttina. Stundum reyndi ég að færa mig inn í herbergi til Maríu, dótturdótturdóttur Helga, en þá vaknaði ég líka við fyrstu útvarpsfréttir úr herberginu hjá Helga. Ég lærði því að búa við þennan mikla áhuga á fréttum og íþróttaviðburðum og fylgdist með Ólympíuleikunum með öðru auganu. Dvölin á Þverá þetta sumar varð mjög skemmtileg í endurminningunni. Þrátt fyrir 90 ára aldursmun fannst mér að Helgi væri vinur minn. Hann tók mér alltaf fagnandi. "Ert þetta þú!" sagði hann alltaf þegar hann sá hver var kominn. Við María gátum sprellað og fíflast með honum. Sérstaklega man ég eftir hvað við hlógum öll mikið þegar við stelpurnar vildum auka hárvöxt Helga með því að gefa honum eitthvert sveppasoð. Honum fannst þetta ekki minna fyndið en okkur.

Helgi mun alltaf lifa í minningum mínum og ég er honum þakklát fyrir þær stundir sem við áttum saman.

Sigríður Ásta Björnsdóttir.

Helgi Símonarson var afar merkur maður, ekki einvörðungu vegna þess hve háum aldri hann náði heldur og ekki síður vegna mannkosta hans. Hann missti föður sinn á barnsaldri en braust til mennta þrátt fyrir kröpp kjör og lauk kennaraprófi 28 ára gamall árið 1923. Á fyrstu áratugum síðustu aldar var hann einn af öflugustu frumkvöðlum heimabyggðar sinnar í því merkilega og árangursríka átaki mannræktar og samvirkni sem ungmennafélögin og samvinnuhreyfingin beittu sér fyrir. Hann trúði því einlæglega að frumkvæði og hæfileikar hvers einstaklings nytu sín best með samhygð og félagslegt réttlæti að leiðarljósi.

Móðurafi minn Kristján Tryggvi og Guðrún móðir Helga voru systkin, börn Sigurjóns Alexanderssonar. Þeir fæddust báðir í Gröf í Svarfaðardal sem við hjónin höfum nýlega eignast. Afi minn var 25 árum eldri og þegar hann gerðist bóndi á Brautarhóli sem er næsti bær við Gröf, fylgdi Helgi honum þangað með móður sinni. Mér er sagt að mjög sterk vináttutengsl hafi verið milli þeirra frændanna, enda sagðir líkir að skapgerð.

Sem barn í sveit á Brautarhóli man ég vel eftir Helga Símonarsyni. Hann var þá orðinn bóndi á Þverá jafnframt því að vera skólastjóri á Dalvík. Hins vegar kynntist ég Helga ekki að ráði fyrr en eftir að við Guðrún fluttum frá London árið 1981. Þá var Helgi orðinn 86 ára gamall og okkur er það afar minnisstætt þegar við hjónin heimsóttum hann í fyrsta skipti nokkru síðar, hve þessi aldraði maður fylgdist af miklum áhuga með þróun mála, bæði hérlendis og erlendis. Á ættarmóti sem var haldið í Svarfaðardal 1991 til minningar um Sigurjón langafa minn, flutti Helgi aðalræðuna, þá að verða 96 ára gamall, og var síðan hrókur alls fagnaðar. Hann var enn glaður í veislunni þegar fólk, fjórum áratugum yngra, dró sig í hlé eftir miðnættið og hann var mættur í bítið í kaffitjaldið morguninn eftir, hress og ræðinn og meira með á nótunum en flestir sem yngri voru og spurði m.a. hnitmiðað um stöðu vissra pólitískra mála. Helgi hafði fylgst grannt með hugsjónum og stefnu Kvennalistans, var jafnréttissinnaður og velti fyrir sér mögulegri samvinnu og þróun stjórnmálaaflanna af miklu innsæi. Það varð fastur liður þegar við Guðrún áttum leið um bernskuslóðir mínar að ganga í smiðju til Helga á Þverá sem hafði tekið virkan þátt í undraverðri þróun íslenska samfélagsins í hartnær heila öld og braut ennþá til mergjar viðburði líðandi stundar af lifandi áhuga.

Í samtali okkar Helga fyrir þremur árum benti hann á að drifkraftur þeirra ótrúlegu menningarlegu og efnahagslegu framfara sem Íslendingar nutu á tuttugustu öldinni hafi lengst af verið samvinna en ekki samkeppni af því tagi sem nú er í tísku. Helgi var skynsamur og vinveittur maður, ekki dómharður eða fordómafullur, en hann hafði áhyggjur af þeirri hörðu og sjálfhverfu markaðshyggju sem nú ríkir, óttaðist að hún myndi leiða íslenskt samfélag og mannkynið allt í ógöngur.

Aðeins fjórum dögum fyrir andlát Helga heimsótti Guðrún hann í Dalbæ með fjórum af barnabörnum okkar. Þá var ljóst að hverju stefndi. Við Guðrún erum þakklát fyrir að hafa þekkt Helga Símonarson. Við vitum að hvíldin var honum tímabær en söknum hans og sendum aðstandendum hans innilegar samúðarkveðjur. Með honum er genginn ötull brautryðjandi sem lifði með velvild og viti langa ævi. Blessuð sé minning hans.

Helgi Valdimarsson,

Guðrún Agnarsdóttir.

Þegar ég las í Morgunblaðinu fréttina um lát Helga Símonarsonar, fyrrverandi kennara og skólastjóra og elsta karls á Íslandi, hvarflaði hugurinn til ársins 1933 þegar ég, þá tíu ára, settist á skólabekk hjá honum ásamt tólf öðrum í gamla barnaskólanum á Dalvík. Við mættum öll með skólatöskurnar okkar sem höfðu að geyma allt sem við þurftum á að halda en mundi þykja forvitnilegt í dag, svo sem pennastöng og penna, blekbyttu og spjald og griffil.

Skólaborðin voru sambyggð sem borð og bekkur og voru farin að láta á sjá eftir langa notkun. Helgi var þá 38 ára gamall og okkur fannst hann þá gamall karl en hann var ætíð ungur í anda, tók alltaf þátt í leikjum okkar og virtist skemmta sér manna best. Þetta kunnum við að meta.

Aldrei voru nein agavandamál en ef eitthvað kom upp á var nóg að hann hvessti augun, þá féll allt í ró. Helgi var frábær kennari og fjölhæfur og þar sem hann var eini kennarinn varð hann að kenna allar greinar og fór létt með það. Hann var kröfuharður en jafnframt réttsýnn og allir báru til hans hlýjan hug og virtu hann.

Í gamla barnaskólanum vorum við til áramóta en í janúar 1934 fluttum við í nýja skólann (nú gamla skólann) og voru það mikil umskipti. Við gengum fylktu liði frá gamla skólanum í þann nýja og tókum með okkur þaðan allt það vit og visku sem við gátum borið ásamt kennslugögnum og þá var kátt í höllinni. Næstu fjögur árin nutum við kennslu Helga. Það var gott veganesti út í lífið að hafa notið kennslu og leiðsagnar þess mæta manns. Það hefur komið fram opinberlega hversu mikill áhugamaður Helgi var um íþróttir, sérstaklega knattspyrnu þar sem Liverpool var hans uppáhaldslið, enda fylgdist hann með ensku knattspyrnunni eins lengi og hann gat. Ég fór til Bretlands í vetur og sá Liverpool vinna Arsenal 6:1. Mér varð þá hugsað til Helga sem var skráður elsti aðdáandi Liverpool í heiminum.

Ég keypti Liverpool-könnu og sendi honum og hann mun hafa drukkið kaffið sitt úr þessari könnu síðustu mánuðina.

Að leiðarlokum vil ég þakka Helga frábæra kennslu og vináttu alla tíð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

(V. Briem.)

Bjarki Elíasson.

Minn elsti vinur er látinn. Vinirnir verða vart eldri en heiðursmaðurinn Helgi Símonarson sem hefði orðið 106 ára nú í september.

Ég bar mikla virðingu fyrir þessum bónda og skólastjóra, allt frá okkar fyrstu kynnum fyrir rúmlega 40 árum síðan, þegar ég kom fyrst í sveit til hans og fékk að njóta samvista við hann og hans góðu fjölskyldu í 6 sumur.

Ég kom fyrst að Þverá í Svarfaðardal vorið eftir að flutt var úr gamla torfbænum og í nýja glæsilega íbúðarhúsið. Það voru miklar breytingar að verða í sveitinni, dráttarvélar og tæki voru að koma og Helgi fylgdist grannt með því sem var að gerast. Það var ekki sjálfgefið að fá að vera í sveit eins og Svarfaðardalnum og ég sagði strákunum vinum mínum á haustin, þegar skólinn byrjaði aftur, að þeir vissu ekkert hvað sveit væri, þótt þeir hefðu eitthvað farið á bæi fyrir austan fjall.

Helgi var merkilegur maður og hafði upplifað meira en flestir. Það gekk á ýmsu í lífinu, hann missti ótímabært kæra ástvini, eiginkonu og dóttur. Þetta var Helga erfitt og lífið var ekki alltaf dans á rósum. Alltaf stóð þó Helgi keikur og lífið hélt áfram og hann sinnti sínum skyldum eins og vera ber.

Helgi var hraustur maður. Hann var skólastjóri á Dalvík í nokkur ár og hljóp þá gjarnan heim eftir kennslu á kvöldin, 10 km leið í vetrarveðrum. Það varð að sinna búskapnum líka. Stundum var ófært um hávetur, þá hljóp Helgi bara í söndunum við Dalvík til að fá þá hreyfingu sem hann þurfti. Sennilega hefur Helgi verið með fyrstu mönnum á Íslandi að hlaupa í frístundum sér til ánægju og heilsubótar. Flestum hefur fundist á þeim tíma, fyrir nálægt 70 árum, að daglegt amstur og strit væri nóg, þótt ekki væri hlaupið um sandana eftir vinnu. Helgi lifði alla tíð mjög reglusömu lífi. Hann bragðaði ekki áfengi og var sannfærður um skaðsemi þess. 105 ára gamall var hann þeirrar skoðunar

að glas af rauðvíni væri ekki það sem þyrfti til að ná háum aldri og góðri heilsu. Hann sagði mér að hann hefði farið að reykja um tvítugt og verið orðinn háður tóbaki. Hann hætti því fáum árum síðar. Honum fannst ekki við hæfi að kennari og skólastjóri gæfi börnunum þau skilaboð að þetta væri í lagi. Daunillur tóbaksreykur gæti ekki verið góður heilsunni. Helgi hafði rétt fyrir sér eins og svo oft áður. Þetta var fyrir 70-80 árum og fáir á þeim tíma sem veltu slíkum hlutum fyrir sér.

Við höfum haldið góðu en stundum stopulu sambandi síðustu áratugi. Eftir að ég hætti að koma til Helga í sveitina fór Helgi að venja komur sínar á okkar heimili í Reykjavík og gisti oft hjá okkur þegar hann sótti búnaðarþingin.

Helgi naut þess í ellinni að vera við góða heilsu og heilinn var skýr. Hann fylgdist með öllu sem fram fór í þjóðfélaginu fram á síðustu ár. Hann var pólitískur, var alltaf mikill framsóknarmaður, en það var eitt af því fáa sem hann gat ekki kennt mér. Helgi var einnig mikill áhugamaður um íþróttir, sérstaklega fylgdist hann vel með enska boltanum.

Mér þótti merkileg afstaða Helga til málanna þegar haldið var upp á 100 ára afmæli hans, þar sem menn ræddu um gömlu góðu dagana, eins og eldra fólk gerir gjarnan. Menn minntust liðinna ára með blik í auga. Helgi sagði í þakkarræðu að auðvitað væri miklu betra að lifa í dag en á árum áður. Nú hefði fólk nóg að bíta og brenna, enginn færi svangur í rúmið og engum þyrfti að vera kalt. Helgi vissi hvað hann var að tala um. Maður á að ylja sér við minningarnar en svona væri nú raunveruleikinn. Þarna skákaði hann öðrum viðstöddum öldungum.

Helgi átti góða að. Sonurinn Símon hefur stundað bústörfin og Guðrún dótturdóttir hans hefur alltaf annast afa sinn eins og væri hann henni faðir.

Ég votta þeim og öðrum aðstandendum samúð mína og kveð Helga með þakklæti og virðingu.

Guðbjörn Björnsson.

Helgi bóndi Símonarson á Þverá er allur, vísast nokkuð saddur lífdaga, munandi þrjár aldir. Sjálfur svaraði hann því viturlega til eitthvað á þá leið að ekki væri endilega eftirsóknarvert að lifa jafnlengi og hann hefði gert; því þá hefði maður séð á eftir svo mörgu. Helgi Símonarson lifði þó lífi sínu, það ég þekki best til, með reisn og af skörungsskap og hélt fullri heilsu miðað við háan aldur fram undir það síðasta.

Ég vitjaði Helga síðast á Dalbæ sl. vetur. Hann hvíldist þá í rúmi sínu og taldi skrokkinn nokkuð slitinn orðinn en andlega ljósið logaði skært. Skipti ekki máli fremur venju hvort við ræddum stjórnmál, íþróttir, hugmyndafræði eða aldamótahátíðarhöldin næstsíðustu, Helgi var jafnáhugasamur um allt sem bar á góma. Handtak hans var þétt sem fyrr og seta mín þarna á rúmstokknum sem reyndist kveðjustund er mér nú dýrmæt minning.

Fyrst man ég Helga á framboðsfundi á Dalvík 1979 en þá stóð hann upp og brýndi menn og gagnrýndi á víxl og ekkert síður sína eigin menn, framsóknarmenn, en aðra. Mér þótti mikið til þessa sköruglega manns koma og lagði mig eftir að kynnast honum á árunum sem í hönd fóru. Svo lengi lærir sem lifir segir gamalt máltæki og má það til sanns vegar færa að Helgi Símonarson á Þverá hafi verið sönnun þess. Kom það jafnt fram í þeim eldlega áhuga sem hann sýndi á atburðum líðandi stundar og eins hinu að engum sem á hann hlýddi duldist að þar fór djúpvitur lífsreyndur spekingur.

Fyrir fáeinum árum vorum við Ragnar Arnalds á pólitísku ferðalagi nyrðra og lá leiðin m.a. í Þverá. Helgi tók Ragnari vel og taldi hann efnilegan stjórnmálamann en Ragnar hafði þá setið rúm 30 ár á þingi. Hann var engu að síður, og eðlilega, nýlega kominn fram á hið pólitíska svið í augum Helga á Þverá sem mundi íslensk þjóðmál u.þ.b. eina öld aftur. Svarfaðardalur er einum skörungnum fátækari með andláti Helga á Þverá en hann hafði svo sannarlega skilað sínu dagsverki og var vel að hvíldinni kominn.

Blessuð sé minning hans.

Steingrímur J. Sigfússon.

Sigríður Ásta Björnsdóttir.