Guðrún Halldórsdóttir fæddist á Mábergi á Rauðasandi 24. apríl 1908. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 13. ágúst síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Fossvogskirkju 27. ágúst.

Rauðisandur í Vestur-Barðastrandasýslu er ægifögur sveit girt björgum á þrjá vegu og hinum fjórða gulum sandströndum þar sem brimið svarrar. Staðurinn er eins konar lítill unaðsreitur milli risanna tveggja, Bjargtanga eða Látrabjargs og Skorar. Undirlendi er lítið en grösugt, bæirnir kúra þétt upp við dranga og stórgrýti og allflestum ferðamönnum verður ekki um sel í fyrsta sinn að feta fjallveginn eða líftaugina niður á sandinn. Byggðin er að mestu lögst í auðn núna en blómlegt mannlíf og gróskumikil menning var það að finna eins og víðar til sveita fyrr á 20. öldinni.

Umhverfið mótar manninn og þarna eru æskustöðvar Guðrúnar Halldórsdóttur, föðursystur okkar og systkina hennar átta. Guðrún var unglingur þegar hún missti föður sinn og móðir hennar og föðuramma hjálpuðust að eftir lát hans með bústörf og uppeldi. Elstu börnin lærðu fljótt að taka til hendinni og lögðu sitt af mörkum til þess að forða því að heimilið yrði leyst upp eins og algengt var á þeim árum við slíkar aðstæður.

Þetta varð líka til þess að tengja systkinin sterkari böndum, böndum sem aldrei rofnuðu og eftirtekt vakti hvað mikil samheldni og glaðværð fylgdi systkinunum frá Gröf þá þau komu saman. Það var ótrúlegt hvað þau skákuðu okkur, yngri kynslóðinni, þegar safnast var saman. Svo virtist sem brunnur þeirra aldrei þryti af sögum, kvæðum og vísum. Það var sungið og dansað út í eitt og kvartaði einhver um þreytu var það næsta víst að það kom ekki frá systkinunum heldur hinum yngri.

Guðrún Halldórsdóttir, eða Gunna frænka, var meðalhá kona, grannvaxin og fríð sýnum. Léttleiki einkenndi hana öðru fremur; hún var létt á fæti, létt í dansi og hafði einstaklega létta lund. Kátínan hreinlega ískraði í henni og prakkarapúkinn sat oft á öxl hennar. Aldrei kastaði hún þó hnjóðsyrði til eins eða neins, mátti ekkert aumt sjá og þeir voru margir sem áttu athvarf sitt hjá henni, bæði menn og málleysingjar. Hún var bráðlagin í höndunum og alveg sama hvað hún tók sér fyrir hendur eins og fallegir munir hennar bera vott um.

Heimili Gunnu á Spítalatíg 6 varð félagsmiðstöð í orðsins fyllstu merkingu. Allir lögðu leið sína á Spítalastíginn, akandi og gangandi, borgarbúar og sveitamenn, ættingjar og vinir, vel megandi og lítils megnir. Allir yfirgáfu Spítalastíginn mettir á sál og líkama. Þau sannindi að hlátur væri hollur og að sálarbætandi væri að sjá lífið í spaugilegu ljósi voru frænku okkar eðlislæg.

Áður en foreldrar okkar flytja búferlum suður áttu Þurý og Þrúða sitt annað heimili á Spítalastígnum hjá Gunnu. Það leið vart dagur að þær kæmu ekki við hjá Gunnu. Hún var vinkona þeirra og þær gátu leitað til hennar með sorgir sínar og gleði, hún huggaði þær og samgladdist þeim og kunni þá list að hlusta og sjá málefni í nýju ljósi.

Á milli föður okkar og Gunnu skynjuðum við systurnar fljótt sérstakan þráð, ofinn úr gagnkvæmri hlýju og virðingu þegar Gunna sagði "Mundi minn" og faðir okkar "Gunna systir". Móðir okkar var sjúklingur í 16 ár áður en hún lést og að öðrum ólöstuðum var það Gunna frænka sem reyndist henni tryggust og vitjaði hennar þegar hún sjálf gat við komið. Að leiðarlokum biðjum við góðan guð að geyma frænku okkar. Við þökkum henni fyrir allt sem hún gaf okkur og kenndi. Við erum vissar um að hún og faðir okkar syngi kvæðið um Hjálmar og Huldu og stígi dansinn um leið. Börnum hennar og fjölskyldum þeirra sendum við hlýjar kveðjur.

Dætur Ingimundar

og Jóhönnu.

Dætur Ingimundar og Jóhönnu.