Anna Margrét Magnúsdóttir fæddist í Reykjavík 7. ágúst 1952. Hún lést 17. ágúst síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Kristskirkju í Landakoti 31. ágúst.

Víst er undir sól að sjá, sé ég mynd þar skína: Framtíð dregur fánann á fjallatinda þína. (Steph. G. Steph.)

Á þessu fagra íslenska sumri er yndisleg manneskja fallin frá.

Anna Margrét Magnúsdóttir var semballeikari og kennari við Tónlistarskóla Garðabæjar. Hún var sérstæður persónuleiki, frábærlega vel gefin og skemmtilega aðhlægin. Við áttum góðar stundir saman, sérstaklega á laugardagsmorgnum fyrir tveimur árum, þá skemmtum við okkur oft konunglega við upprifjun bernskuáranna og fundum margt sameiginlegt með orðnum atburðum í lífi okkar beggja.

Það er skrýtið en maður áttar sig stundum ekki á því fyrr en of seint, hversu mikils virði fólk getur verið. Sérstaklega eins hæfileikamikið og tilfinningaríkt fólk og Anna var. Manni finnst að þannig fólk muni ætíð lifa.

Ég þakka þér, elsku Anna Margrét mín, góð kynni og skemmtilega samveru og óska prinsessunum þínum og eiginmanni alls góðs í framtíðinni og huggunar í sorg þeirra.

Þín

Kolbrún Ósk

Óskarsdóttir.

Önnu kynntumst við er hún var nemandi við tónmenntakennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík frá árinu 1975-1978. Námið sóttist Önnu mjög vel og kom strax í ljós að hún var framúrskarandi nemandi sem hafði til að bera samviskusemi, metnað og glögga yfirsýn við úrlausn verkefna. Vorið 1978 útskrifaðist hún frá Tónlistarskólanum og var þá þegar ákveðin í að hefja framhaldsnám við háskóla erlendis.

Leið hennar lá til Bandaríkjanna þar sem hún hóf nám við University of Urbana, Illinois. Þar komu fram þeir miklu námshæfileikar sem hún hafði til brunns að bera. Stundaði hún námið af miklum dugnaði og dró hvergi af og lauk mastersprófi í tónlistaruppeldi (Music Education) og síðan doktorsprófi við sama skóla.

Á háskólaárum Önnu í Bandaríkjunum lágu leiðir okkar stöku sinnum saman þar sem hún leitaði ráða eða við spjölluðum um lífið og tilveruna, dvöl og nám hennar ytra. Kom þá fram sem áður hve afburðagreind hún var og næmleiki hennar fyrir vali í samsetningu og uppbyggingu námsins. Höfðum við á tilfinningunni að hún væri ánægð með það svið tónlistar og þær áherslur í námi sem hún hafði valið sér.

Um hríð kenndi hún við Tónmenntaskóla Reykjavíkur þar sem ég var yfirmaður hennar. Hún hafði góða nærveru og bar aldrei skugga á samskipti okkar.

Árið 1985 hóf Anna kennslu við tónmenntakennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík. Þar nutu hæfileikar hennar sín til fulls. Hún lagði drög að námskrá og setti saman námsefni í nokkrum greinum og má þar nefna fagurfræði tónlistar, tónlistarrannsóknir og tónbókmenntir. Hún var metnaðarfullur kennari og meðalmennska var henni ekki að skapi. Bar hún hag nemenda sinna fyrir brjósti og var vinsæll og virtur kennari. Við áttum talsverð samskipti hvað varðaði skipulagningu, uppbyggingu og innra starf tónmenntakennaradeildarinnar þar sem við kenndum saman um árabil. Kom þar enn og aftur í ljós hve ánægjulegt og uppbyggilegt var að vinna með henni. Hún var einstaklega fljót að koma auga á aðalatriðin, skipulögð og skapandi í hugsun. Anna var einnig skapandi listamaður og kom fram sem semballeikari hin síðari ár.

Þegar við lítum til baka minnumst við hennar sem næmrar manneskju og mikillar tilfinningaveru sem skynjaði lífið ef til vill dýpra og sárar en margur annar.

Það er með harmi í huga sem við kveðjum Önnu og biðjum guð að blessa eiginmann hennar, dæturnar tvær og fjölskyldu. Blessuð sé minning hennar.

Stefán Edelstein,

Jóhanna Lövdahl.

"Áður en hægt er að búast við því, að almenningur læri að meta mikil tónverk, er nauðsynlegt, að vér eignumst betri tónlistarkennara." Þessi orð voru skrifuð árið 1802 af einum merkasta tónlistarfræðingi síns tíma, Johann Nikolaus Forkel, í formála hans að ævisögu Johanns Sebastian Bachs sem gefin var út 1985 í íslenskri þýðingu Árna Kristjánssonar píanóleikara. Þessi orð eiga sér samhljóm í lífsstarfi dr. Önnu Margrétar Magnúsdóttur tónlistarfræðings og semballeikara. Anna Margrét var ein af frumkvöðlum í íslensku tónlistarlífi með því að ljúka doktorsprófi í tónlistarkennslufræðum frá tónlistarháskólanum í Urbana, Illinois í Bandaríkjunum. Hún starfaði við kennslu í tónmenntakennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík um margra ára skeið ásamt því að vinna að rannsóknum á sviði tónvísinda. Eftir hana liggja greinar um tónlist ýmissa tónskálda, m.a. Bachs og Purcell. Anna Margrét tók einnig virkan þátt í tónlistarlífinu sem semballeikari.

Leiðir okkar Önnu Margrétar lágu saman á þessu ári í faglegu samstarfi um stöðu háskólamenntaðs tónlistarfólks á Íslandi. Ég fagnaði því mjög að fá tækifæri til að kynnast henni og verða aðnjótandi þeirrar persónulegu útgeislunar og hlýju sem fylgdi Önnu. Frá henni stafaði vitræn og tilfinningaleg orka sem verður mikil eftirsjá að.

Víst er undir sól að sjá,

sé ég mynd þar skína:

Framtíð dregur fánann á

fjallatinda þína.

(Steph. G. Steph.)

Nína Margrét Grímsdóttir.

Fyrir réttum mánuði lék sumargolan blíðlega um Biskupstungnasveit eins og svo oft áður. Sólin skein í heiði og þennan dag lék lífið eitthvað svo fallegt lag. Það var í hinsta sinn sem ég sá þig, nú hefur þú kvatt. Minningin um þessa stuttu samverustund fyrir austan mun ylja mér lengi ekki síður en fallegu orgeltónarnir sem bárust út úr Skálholtskirkju þegar þú tókst í orgel kirkjunnar að loknum tónleikum. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að vera nemandi þinn í Tónlistarskóla Reykjavíkur og seinna samstarfsmaður í Tónlistarskóla Garðabæjar. Þú varst gædd mörgum listrænum hæfileikum, bjóst yfir leiftrandi sköpunargáfu og hugmyndaauðgi sem lituðu allt umhverfi þitt. Þú varst hláturmild og nærvera þín gaf líðandi stundu aukið vægi.

Þín bros voru sæt, eins og sólgeislinn

þýðog sumar á vöngum þínum,

er stormurinn æddi um algræna hlíð

í einveldismætti sínum;

þá bliknaði, skalf og beygði fald

það blóm, er var fegurst sýnum.

(Hulda.)

Þú varst einstakur fræðari og framúrskarandi kennari. Þú tendraðir neista í hverju hjarta með eldmóði þínum og snilldartökum á námsefninu. Ég naut frábærrar leiðsagnar þinnar og visku og er ég þér og mun vera þér ævinlega þakklát fyrir. Ég þakka samfylgdina, mín kæra.

Ég átti þig. Nú á ég minnis-ljóð

sem andblæ hausts og mánans

rökkurglóð.Á hvítum vængjum svifin ertu sjálf

með sól og álf.

(Hulda.)

Ég votta Reyni og dætrunum Birtu og Maríu mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Hjördís Ástráðsdóttir.

Nína Margrét Grímsdóttir.