Hermann Sveinsson fæddist á Þúfu í Vestur-Landeyjum 11. ágúst 1919. Hann lést á Heilbrigðisstofnuninni á Selfossi 27. ágúst síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Sveinn Sveinsson, síðar bóndi á Kotvelli í Hvolhreppi, f. 23. apríl 1884, d. 1. mars 1972 og Helga Jónsdóttir, f. 3. október 1879, d. 14. ágúst 1968. Systir Hermanns er Helga Sveinsdóttir, f. 18. nóvember 1920, gift Sigurði Dagnýssyni, f. 25. júlí 1925.

Hinn 19. maí 1956 kvæntist Hermann Guðrúnu Helgu Jónsdóttur frá Kálfsstöðum í V-Landeyjum, f. 20. mars 1929. Foreldrar hennar voru hjónin Jón Einarsson, bóndi á Kálfsstöðum, f. 11. mars 1900, d. 21. maí 1964, og Gróa Brynjólfsdóttir, f. 25. nóvember 1904, d. 27. júlí 1966. Börn Hermanns og Guðrúnar eru: 1) Guðmundur Sveinn, blaðamaður í Reykjavík, f. 17. júlí 1957. Kona hans er Lovísa Sigurðardóttir, f. 7. febrúar 1959. Börn þeirra eru Guðrún Lilja, f. 16. desember 1983, og Arnar, f. 27. ágúst 1988. 2) Helgi, verktaki í Reykjavík, f. 19. október 1958. 3) Jónína Gróa, innheimtufulltrúi á Hvolsvelli, f. 1. júlí 1965. Sambýlismaður hennar er Hákon Mar Guðmundsson, f. 12. júlí 1956. Börn Gróu með Lárusi Þorsteinssyni eru Helga Guðrún, f. 16. nóvember 1989, og Hermann Sveinn, f. 19. maí 1993. Dætur Hákonar eru Berglind, f. 25. ágúst 1979, og Kristrún, f. 5. apríl 1986.

Hermann lauk búfræðiprófi frá Bændaskólanum á Hólum árið 1938. Hann vann við vélsmíði, bifvélaviðgerðir og vörubílaakstur á Hvolsvelli og víðar þar til hann tók við búi af foreldrum sínum á Kotvelli árið 1954. Hermann og Guðrún brugðu búi 1984 og eftir það vann Hermann á bílaverkstæði Kaupfélags Rangæinga í nokkur ár. Hann tók virkan þátt í félagslífi í Hvolhreppi, var m.a. í stjórnum búnaðarfélags, ræktunarsambands, veiðifélags og bridsfélags, tók þátt í leikstarfi og söng í kirkjukór Stórólfshvolskirkju um árabil.

Útför Hermanns fer fram frá Stórólfshvolskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Vertu, Guð faðir, faðir minn, í frelsarans Jesú nafni, hönd þín leiði mig út og inn svo allri synd ég hafni. (Hallgr. Pétursson.)

"Er Hermann á Kotvelli pabbi þinn? Jæja, hann átti aldrei að verða bóndi, hann átti að verða heimspekingur," sagði Jón í Garðsauka með sinni þrumandi röddu við mig, unglinginn. Ég átti erfitt með að skilja þessi orð því að ég hafði aldrei orðið var við að faðir minn væri heimspekilega þenkjandi. Áttu heimspekingar ekki að skrifa lærðar greinar um tilgang lífsins eða nota flókin orð til að ræða eðli mannsins og veraldarinnar?

Á kveðjustundu flögra minningabrot um hugann. Um pabba þar sem hann stendur við Móbakkann í Rangá með Jóni á Velli og okkur bræðrunum með fallegan silung á stönginni eða sitjandi við eldhúsborðið, drekkandi kaffi, hamingjusaman eftir vel heppnaða veiðiferð og vaskurinn fullur af silungi. Um pabba á kafi undir húddinu á bílnum sínum eða rauða Skódanum hans Jóns, eða með traktorinn í ótal pörtum, framhjólin hér og afturhjólin þar og allt hitt þar á milli. Eða um pabba, standandi fyrir utan fjárhúsið, kallandi "kiiibbakiiibbakibb" og út um allt tún sperrtu kindurnar eyrun og streymdu síðan heim, vitandi um ilmandi töðu á garðanum og fóðurbæti í forrétt. Um pabba að strjúka Skjónu og Skjöldu eða sitjandi á kolli, reykjandi pípu, horfandi út í loftið á meðan mjaltavélin puðaði. Um pabba komandi heim eftir vel heppnaða læknisferð til nágrannans þar sem kind eða kýr var í nauðum og úr augum hans skein gleði og hamingja yfir því að hafa getað orðið að liði. Og hve stoltur ég var þegar hann kom heim með verðlaunapeninga úr bridsmótum á Hvolsvelli; eða þegar hann tók hreinan topp af mér á bridsmóti í Gunnarshólma með því að segja og standa fimm lauf á meðan allur salurinn fór niður á þremur gröndum. Þá skildi ég að hann hafði dýpri skilning á eðli spilsins en flestir aðrir.

Þótt hann notaði ekki flókin orð til að lýsa heiminum sýndi hann í verki gildi þess að vera heiðarlegur og sannur sér og sínum, gleðiblikið í augunum eftir að hafa veitt hjálparhönd sagði allt sem þurfti. Heimspekingur þarf ekki að nota flókin orð, heimspekingur þarf ekki að skrifa lærðar greinar um eðli alheimsins, heimspekingur getur sýnt visku sína í verkum sínum og með virðingunni sem hann ber fyrir umhverfi sínu.

Eftir á að hyggja fór Jón í Garðsauka ekki að öllu leyti með rétt mál. Hið sanna er að pabbi var bæði heimspekingur og bóndi.

Helgi.

Elsku bestu afi, nú vitum við að þér líður vel og við vitum líka hvar þú ert og hjá hverjum, þú ert hjá Guði, hjá þeim sama og við tölum alltaf við þegar við erum að fara að sofa á kvöldin. En annars, afi, viltu hafa samband við okkur ef þú getur og segja okkur hvernig hann lítur út?

Guð geymir þig vel, afi, það vitum við og hann hjálpar ömmu líka að sætta sig við að þú ert farinn frá henni.

Takk, elsku amma, hvað þú varst afa góð og við lofum að styrkja þig líka.

Að lokum, elsku afi, viljum við senda þér bæn sem þú hjálpaðir okkur að læra.

Vertu, Guð faðir, faðir minn,

í frelsarans Jesú nafni,

hönd þín leiði mig út og inn

svo allri synd ég hafni.

(Hallgr. Pétursson.)

Helga Guðrún og

Hermann Sveinn.

Með örfáum orðum viljum við systkinin kveðja afa í sveitinni. Þótt afi segði ekki mikið leið okkur alltaf vel í návist hans. Þegar við komum í heimsókn vorum við vön að fara inn í herbergi, þar sem tók á móti okkur afalyktin sem oftast var bara lyktin af neftóbakinu hans, kyssa afa á kinnina og segja honum hvernig allt gengi. Þegar hann sagði eitthvað kom það okkur oftast til að hlæja eða að það var einhver fróðleiksmoli. Afi var sérstaklega ættfróður og nægði oft að nefna nafn á vini og þá fengum við að vita hverrar ættar hann var eða hvort hann væri eitthvað skyldur okkur.

Með þakklæti fyrir góðar minningar kveðjum við afa í sveitinni með þessu ljóði:

Ég átti afa

sem minnti á þig -

með hvítt hár

og hátt enni,

og hann líktist þér mest í því,

finnst mér nú þegar hann er farinn

að hann sagði aldrei neitt -

Samt var návist hans lögmál.

Ég óttaðist hann ekki

en leit hann sömu augum

og ég nú horfi

til þín.

(Matthías Johannessen.)

Guðrún Lilja og Arnar.

Helgi.