Sigríður Ingibjörg Jónsdóttir fæddist á Ísafirði 9. október 1947. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 13. ágúst síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Grafarvogskirkju 27. ágúst.

Sá er eftir lifir deyr þeim sem deyr en hinn dáni lifir í hjarta og minni manna er hans sakna. Þeir eru himnarnir honum yfir. (Hannes Pétursson.)

Ljóshærð fimm ára hnáta vestur á Ísafirði árið 1952, ákveðin og kraftmikil stelpa sem vissi hvað hún vildi. Þannig minnist ég hennar Siggu systurdóttur minnar og við kvöddumst að sinni, glaðar í bragði. Ég var þá átján ára og var að fara suður til Reykjavíkur. Og litla frænka hafði að sjálfsögðu engar áhyggjur af því.

Árin liðu eitt af öðru, ég eignaðist fjölskyldu, og Sigga óx úr grasi í foreldrahúsum við Skutulsfjörð. Ég fylgdist með Gerðu systur og fjölskyldu hennar úr fjarlægð og stundum fór ég í heimsókn vestur. Svo var það árið 1964 að Sigga kom suður til Reykjavíkur, fullvaxta og myndarleg stúlka. Þar festi hún rætur, rétt eins og ég, og fljótlega tókst með okkur frænkunum sérstök vinátta sem nú hefur staðið á fjórða áratug.

Allan þennan tíma hefur varla liðið sá dagur að við hefðum ekki samband og ekki leið sú vika að Sigga kæmi ekki í heimsókn. Og jafnan var sá háttur á að hún kom til mín. Nærveru hennar fylgdi oftast ánægja og fjör, hún var lífsglöð og kát hún frænka mín og varla var hún sest við eldhúsborðið yfir kaffibolla þegar aðrir úr fjölskyldunni höfðu laðast að til að hlusta, fylgjast með, og taka þátt í samræðum.

Nokkrum sinnum fórum við saman í ferðalög. Utanlandsferðirnar okkar urðu þrjár en síðasta ferðin okkar var berjaferð á æskuslóðirnar vestur á firði fyrir tveimur árum. Með okkur var Jóna Ósk, bróðurdóttir Siggu. Þá var hún þegar farin að kenna sér þess meins sem að lokum lagði hana að velli. Lítið var um ber á vestfirsku lyngi þessa síðsumarsdaga en hvorki það né annað kom í veg fyrir velheppnaða ferð þar sem þrjár frænkur á ólíkum aldri skemmtu sér vel.

Sigga frænka var vel gerð; hún var traustur vinur, góð, dugleg og hjálpsöm og gott var til hennar að leita. Ávallt var hún reiðubúin að leggja lið þegar á þurfti að halda og öll hennar greiðasemi var orðalaus og með ánægju af hendi leyst.

Eftir rösklega þriggja ára erfið veikindi er hvíldin komin. Í glímunni við illvígan sjúkdóm kom í ljós að lengi býr að fyrstu gerð. Enn sem fyrr var Sigga ákveðin og föst fyrir. Lífsviljinn var mikill, hún sýndi enga uppgjöf, aldrei kvartaði hún og aldrei missti hún vonina um bata enda þótt síðasta árið væri nokkuð víst að meinið yrði að hafa sinn gang. Í þeim skilningi var sigurinn því hennar. Í erfiðum veikindum naut hún umhyggju og óskoraðs stuðnings eiginmanns síns, Þórs, og þriggja uppkominna barna.

Nú horfi ég á eftir minni bestu frænku og vinkonu með trega og söknuð í huga. Ég er þakklát fyrir allar samverustundirnar og þá ómetanlega vináttu sem hún gaf mér. Í fallegum minningum og ljóslifandi á ég Siggu áfram að og frá minningunum stafar huggun og ylur. Þær mun ég ávallt geyma. Fyrir hönd fjölskyldu minnar flyt ég innilegar samúðarkveðjur til Þórs, barnanna, tengdabarna, barnabarna, bræðranna Jónasar og Jenna, og annarra sem eiga um sárt að binda. Megi góður guð veita þeim styrk.

Sá er eftir lifir

deyr þeim sem deyr

en hinn dáni lifir

í hjarta og minni

manna er hans sakna.

Þeir eru himnarnir

honum yfir.

(Hannes Pétursson.)

Sigríður Þorsteinsdóttir.

Það er stórt skarð höggvið í kjarna þessarar fjölskyldu, Guð hefur tekið of marga frá okkur á einu og hálfu ári og þessi sári söknuður og sorg grær seint eða aldrei. Aldrei fáum við svör við þeim spurningum sem hrannast upp í huga okkar; af hverju?

Elsku Sigga, þú varst svo dugleg og jákvæð í öllum þínum veikindum. Þegar ég hitti þig eða hringdi í þig og spurði hvernig er heilsan væri var svarið: "Fín, en hjá þér?" Þú varst svo hamingjusöm eftir að þú kynntist Þór, giftir þig á fimmtíu ára afmælinu og enginn vissi fyrr en við vorum komin í glæsilega veislu til þín. Ég var mjög ánægð að geta komið í afmælið til þín. Alltaf var gott að heimsækja þig.

Elsku Sigga, við áttum eftir að gera svo margt, við ætluðum til berja, þér þótti svo gaman að tína ber og við ætluðum að keyra fyrir Nes, en þér hefur verið úthlutað annað. Þú varst dugleg að koma keyrandi vestur, eins og þú varst veik, og vera hjá mér þegar við fylgdum elsku litlu frænku, henni Pálínu, 28. júlí og þú kvartaðir aldrei. Þú varst heppin að eiga svona yndislegan mann sem gerði allt sem hann gat svo þér liði sem allra best í veikindunum. Oft minntir þú mig á þegar ég var eins árs, og þú að passa mig, labbaði ég sofandi með þér. Þú varst svo mikið fyrir að ferðast og komst oft vestur og þá með rútu eða flutningabíl.

Elsku Sigga, þakka þér fyrir allar þær stundir sem við áttum saman. Guð geymi þig.

Elsku Þór, Fanney, Ingibjörg, Siggi og aðrir aðstandendur, við vottum ykkur samúð og biðjum Guð að gefa ykkur styrk í þessari miklu sorg.

Kveðja,

Ásta og fjölskylda.

Í nokkrum orðum vil ég minnast samstarfskonu til margra ára og náins vinar og ferðafélaga sem nú er látin. Sigríður Jónsdóttir starfaði á Droplaugarstöðum í fjöldamörg ár og var m.a. trúnaðarmaður eldhússtarfsmanna um árabil. Á þessum árum hittumst við fyrst en okkar fyrstu kynni hófust í ferð um Austfirði á vegum Starfsmannafélagsins Sóknar þar sem ég var að kynnast ferðum félagsins sem þáverandi varaformaður Sóknar. Við áttum það sameiginlegt að hafa mikla ánægju af þessari ferð og urðu kynni okkar nánari á árunum á eftir þar sem Sigríður kom í varastjórn Sóknar árið 1987 og fór að gegna trúnaðarstörfum fyrir Sókn og láta til sín taka í félagsmálum. Sigga Jóns var hún kölluð í hópi félaga sinna en í þau liðlega 12 ár sem hún gegndi trúnaðarstörfum fyrir Sókn var hún ávallt sú trausta kona sem sótti alla þá fundi eða samkomur sem félagið stóð fyrir. Hún var ævinlega reiðubúin til að sinna félagsmálum og var m.a. kjörin á ASÍ þing og til ýmissa trúnaðarstarfa fyrir Sókn, en þar ber hæst vera hennar í stjórn Sóknar og einnig margra ára þátttaka í ferða- og skemmtinefnd félagsins. Frá því við kynntumst í Austfjarðaferðinni 1986 til ársins 2000 fór Sigga í allar ferðir Sóknar og síðar Eflingar-stéttarfélags og var virkur þátttakandi í undirbúningi þeirra. Nú í ár var heilsa hennar þannig að hún komst ekki með en í huganum tók hún þátt með félögum sínum.

Við í ferðanefndum þessara félaga söknum sárt góðs ferðafélaga og þökkum henni samfylgdina á þeim vettvangi. En Sigga var ötul á mörgum öðrum sviðum og má þar sérstaklega nefna hversu frábær kokkur hún var og gleymist seint margt það sem hún hefur töfrað fram fyrir okkur á ýmsum stundum. Vil ég þar sérstaklega nefna hversu frábærlega hún undirbjó mörg kaffisamsæti og matarboð við námskeiðsslit hjá Sókn. Hún tók virkan þátt í að skipuleggja t.d. kaffisamsæti 1. maí um árabil. Á þessum vettvangi var Sigga í essinu sínu og gat töfrað fram ótrúlegan mat eða kaffiborð. Ég minnist einnig þeirra ferða sem við áttum saman við að standsetja orlofshús en þó er mér minnisstæðust ferð austur á Klaustur þar sem verið var að taka í notkun nýtt orlofshús og smiðirnir voru á eftir áætlun. Húsið var búið að leigja út vikuna á eftir og urðum við að þrífa í kringum smiðina og taka upp ný húsgögn eftir því sem smiðirnir komust nær verklokum. Þetta var maraþonvinna en eftir á afar skemmtileg. Allar þessar minningar og margar fleiri eigum við félagar hennar nú þegar kemur að kveðjustundinni. Hennar barátta hefur verið löng og erfið en hún hélt baráttuþrekinu þar til nú í sumar, hún ætlaði að sigra en sigur hennar felst í þeim mannkostum sem félagar og vinir hennar þekkja og þeirri gleði sem hún gaf meðal félaga sinna á dýrmætum samverustundum utan vinnu í góðra vina hópi.

Ágæti Þór. Ég sendi þér mínar einlægustu samúðarkveðjur og einnig börnum og barnabörnum sem henni þótti svo vænt um. Ég kveð vinkonu mína og samstarfsfélaga með söknuði og einlægri virðinu fyrir góðum liðsmanni í lífi og starfi.

Þórunn Sveinbjörnsdóttir,

1. varaformaður Eflingar - stéttarfélags,

áður formaður Sóknar.

Með fáum orðum langar okkur að minnast vinkonu okkar og félaga til margra ára, Sigríðar Jónsdóttur. Siggu Jóns, eins og við kölluðum hana ævinlega, kynntumst við þegar undirrituð hóf störf hjá Starfsmannafélaginu Sókn árið 1987, en hún sat lengi í trúnaðarmannaráði og síðar stjórn félagsins. Okkur varð fljótt vel til vina enda Sigga sérstaklega skemmtileg og þægileg manneskja og ætíð tiltæk þegar félagið þurfti á kröftum hennar að halda. Orlofs- og ferðamál félagsins voru Siggu hugstæð og í hvert sinn sem fara þurfti í sumarbústaði félagsins þar sem tekið var til hendinni við þrif eða verið var að koma búnaði fyrir í nýju húsi eða íbúð var alltaf fyrst kallað í Siggu, enda einstaklega gott að vinna með henni, fyrir nú utan að hún gat töfrað, og það án þess að virðast hafa nokkuð fyrir því, þvílíkar krásir upp úr pottunum að unun var að. Þá spillti ekki fyrir hvað gaman var að skemmta sér með henni, en þrátt fyrir að líf hennar væri ekki alltaf dans á rósum kunni hún betur að fara með listina að lifa en flestir aðrir. Nú við fráfall hennar minnumst við með bros á vör en miklum söknuði ótal skondinna og skemmtilegra atvika þar sem Sigga var hrókur alls fagnaðar. Við minnumst margra skemmtilegra daga og nótta á Akureyri. Vikunnar meðan á kvennaráðstefnunni stóð í Finnlandi þegar við bjuggum saman og loks gafst tækifæri frá önnum dagsins að fara duglega út á lífið með viðeigandi söng og dansi. Kjötsúpuferðar þar sem dansað var í vaðstígvélum af því að götuskórnir voru of stamir. Ótal ferða vítt og breitt um landið þar sem Sigga var fundvís á fallega steina í safnið sitt, og síðast en ekki síst minnumst við með gleði og þakklæti óvissuferðar sem við félagar hennar í stjórn Sóknar undirbjuggum í tilefni af fimmtugsafmæli Siggu og giftingar þeirra Siggu og Þórs fyrir tæpum fjórum árum. Ógleymanlegrar undrunar og gleði Siggu yfir uppátækjum okkar og óvæntri brúðar- og afmælisgjöf frá börnunum, þar sem uppáhaldið sjálft hann Geirmundur Valtýs var mættur holdi klæddur að taka fyrir hana nokkrar skagfirskar sveiflur. Sveiflurnar verða ekki fleiri, sjúkdómurinn ógurlegi tók Siggu allt of fljótt frá okkur öllum. Eftir sitjum við með söknuð í hjarta en minningar um góða vinkonu og félaga lifa áfram. Félaga okkar, Þuríði Ingimundardóttur, færum við innilegar þakkir fyrir einstaka alúð og umhyggju fyrir Siggu í veikindum hennar. Elsku Þór, börnum og öðrum ættingjum Siggu vottum við okkar dýpstu samúð.

Guðrún Kr. Óladóttir,

Björn V. Gunnarsson.

Elsku Sigga, þú horfin ert á braut hins himneska friðar.

Það er alltaf sorglegt að missa fólkið er manni þykir vænt um og það höfum við fengið að upplifa síðastliðin ár, það er eins og það eigi að flytja alla ættina smátt og smátt til himna og halda ættarmót þar. Að vissu leyti var það léttir að vita að þú hafðir kvatt þennan heim veikinda og kvala og að vita að þú kvelst ei meir, guð og menn vita að þú fékkst þinn skammt og ríflega það.

Það var yndislegt að fá að eyða smátíma með þér er þú og Þór komuð vestur (og við fylgdum Pálínu Elíasdóttur til grafar) áður en þú veiktist. Þvílíkan lífskraft hef ég sjaldan séð og hamingjan sem umvafði ykkur Þór er ekki á hverju strái. Það er minninganna vert og verður ekki gleymt í bráð.

Elsku Þór, Fanney, Ingibjörg, Siggi og aðrir aðstandendur, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð í þessum stóra missi ykkar, því

nú er komið stórt skarð í okkar fjölskyldu sem verður einungis fyllt fallegum minningum um frábæra konu.

Kær kveðja.

Kristinn (Dengsi) og Lína Þóra.

Sigríður Þorsteinsdóttir.