Falleg lítil fjölbýli á tveimur hæðum og tengjast eins og raðhús. Stærðir eru frá 45 fm á 2ja herb. íbúðum upp í 4ra herbergja íbúðir á tveimur hæðum. Fallegir garðar með sameiginlegum sundlaugum eru algengir við svona hús. Verð á 2ja herb. íbúð er ca. 4-6
Falleg lítil fjölbýli á tveimur hæðum og tengjast eins og raðhús. Stærðir eru frá 45 fm á 2ja herb. íbúðum upp í 4ra herbergja íbúðir á tveimur hæðum. Fallegir garðar með sameiginlegum sundlaugum eru algengir við svona hús. Verð á 2ja herb. íbúð er ca. 4-6
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Talsverður áhugi er nú hér á landi á fasteignum á Spáni. Magnús Sigurðsson ræddi við Guðmund Ágústsson lögfræðing og Ólaf B. Blöndal hjá fasteign.is og fjallar um starfsemi fasteignasölunnar Perla Investment á Spáni, sem íslenzk hjón eiga og reka.

ÞEIR eru margir hér á landi, sem láta sig dreyma um að eignast hús eða íbúð á sólarlandinu Spáni. Mörgum finnst það hins vegar ekki einfalt mál að kaupa fasteign í öðru landi með ólíkt tungumál og hugsanlega aðrar viðskiptavenjur.

Í framtíðinni á þetta að verða auðveldara en hingað til, því að íslenzk hjón, Orri Ingvason og Auður Hansen, hafa sett á fót fasteignasölu í Torrevieja á Costa Blanca, sem nefnist Perla Investments S.L., en Auður hefur hlotið löggildingu sem fasteignasali á Spáni.

Þau hafa verið búsett þar í landi um árabil og tala því spænsku reiprennandi. Þau stunda alla almenna fasteignasölu og eru sjálfstæð en ekki háð neinum byggingaraðila. Markmið þeirra er m.a. að aðstoða Íslendinga, sem hafa áhuga á fasteignakaupum þar ytra.

Til liðs við sig hér heima hafa þau fengið Guðmund Ágústsson lögmann, sem sjálfur á hús á Spáni. "Það er auðvitað ólíkt betra fyrir Íslendinga, sem vilja kaupa fasteign á Spáni, að geta snúið sér til Íslendinga, sem búsettir eru þar í landi og þekkja umhverfið og viðskiptavenjur vel," segir Guðmundur, sem er nú meðeigandi að þessari fasteignasölu á Spáni.

Fasteignasalan fasteign.is annast sölu og kynningu eignanna hér á landi. "Það eru því löggiltir fagaðilar bæði hér heima og á Spáni, sem annast sölu á þessum eignum," segir Ólafur B. Blöndal, fasteignasali hjá fasteign.is. "Í því felst að sjálfsögðu mikil trygging fyrir því að rétt sé að öllu staðið."

Fasteignir ódýrari á Spáni

Í boði er íbúðarhúsnæði af margs konar gerð; íbúðir, parhús, raðhús og einbýlishús, bæði nýtt og notað. Húsin standa á Costa Blanca-svæðinu, rétt hjá Torrevieja og skammt frá ströndinni.

"Torrevieja, sem þýðir "Gamli turn" á íslenzku, liggur við sjóinn enda gamall fiskveiðibær," segir Guðmundur Ágústsson. "Það er því stutt út á ströndina alls staðar á þessu svæði. Golfaðstaða er líka einstök, en þarna eru þrír 18 holu golfvellir í næsta nágrenni.

Skemmtigarðurinn Terra Mitica í Benidorm er líka í næsta nágrenni. Hann gefur Euro Disney ekkert eftir og hefur gríðarlegt aðdráttarafl, bæði fyrir fullorðna og börn. Til viðbótar má nefna ennfremur vatnsrennibrautargarða, sem eru afar vinsælir."

"Þarna er allt annað loftslag en hér," segir Guðmundur ennfremur. "Þar af leiðandi er byggingarmátinn annar. En ný hús eru yfirleitt steinhús byggð samkvæmt mjög ströngum kröfum."

En hvað kostar íbúð eða hús á Spáni? "Það er svolítið mismunandi eftir staðsetningu og byggingaraðila," segir Guðmundur. "Góð íbúð, sem myndi kosta um 12 millj. kr. hér heima, kostar gjarnan um 6 millj. kr. á Spáni eða helmingi minna. Þetta er auðvitað gríðarlegur verðmunur."

Guðmundur segir að yfirleitt sé greitt staðfestingargjald, um 500.000 pesetar eða um 250.000 ísl. kr., en bankar þarna úti eru yfirleitt reiðubúnir til þess að lána allt að 70% af kaupverðinu til allt að 30 ára. Lánin eru óverðtryggð, en vextir eru nú 5,75% og breytilegir í samræmi við svokallaða Libor-vexti, sem eru þeir vextir er tíðkast á alþjóðlegum markaði hverju sinni.

Að sögn Guðmundar hafa fasteignir á Costa Blanca verið að hækka í verði undanfarin ár vegna mikillar eftirspurnar og hann telur allar horfur á að svo verði áfram, því að eftirsóknarvert byggingarland er að minnka og eftirspurn að aukast. "Það er mjög mikil eftirspurn eftir eignum á Costa Blanca frá fólki í Vestur-Evrópu," segir hann. "Bretar og Norðurlandabúar sækjast eftir eignum á þessu svæði og einnig Þjóðverjar og Spánverjar.

Rekstur fasteigna á þessu svæði er mjög lágur. Sjálfur á ég 110 ferm. hús þarna og kostnaður við það er um 50.000 kr. á ári. Inni í því eru falin fasteignagjöld og tryggingar."

Guðmundur segist álíta að Íslendingar eigi um 300-400 íbúðir eða hús á þessu svæði. "Þeir sem kaupa þarna eru einkum fólk á miðjum aldri eða eldra, sem er þá garnan að minnka við sig hér heima gagngert í því skyni að geta keypt þarna úti." Guðmundur segir algengt, að fólk leigi þessar eignir sínar út á þeim tíma, sem það notar þær ekki sjálft. "Það er mjög auðvelt að leigja þessar eignir út yfir sumartímann," segir hann.

"Ef fólk óskar eftir því getur Perla Investment orðið þeim innan handar varðandi útleigu, bæði til Íslendinga eða til fólks af öðru þjóðerni. Það er nú gjarnan svo að Íslendingar kjósa helzt að leigja Íslendingum eignir sínar.

En það eru líka starfræktar þarna leigumiðlanir fyrir ferðamannamarkaðinn almennt, þannig að kostirnir eru margir á því sviði. Með útleigu má að sjálfsögðu fá til baka eitthvað af þeim kostnaði, sem fylgir því að eiga fasteign á Spáni."

Guðmundur segir verðlag á Spáni afar hagstætt. "Verð á öllum nauðsynjum er að minnsta kosti helmingi lægra en hér á landi," segir hann. "Ósjaldan borgar maður jafn mikið í pesetum þar og í krónum hér heima, en gengi á pesetanum er um helmingur af íslenzku krónunni. Það getur oft verið heppilegt að fá bílaleigubíl, en sæmilegir bílar kosta 12.000-15.000 krónur á viku."

Flugsamgöngur við Spán eru tíðar og greiðar á sumrin. "Það er beint flug frá Íslandi til Alicante frá páskum og fram í september," segir Guðmundur. "Á veturna verður hins vegar að fljúga í gegnum Kaupmannahöfn eða London.

Öll þjónusta er mjög góð þarna úti og Íslendingar hafa t.d. svipaðan aðgang að læknisþjónustu á Spáni og hér heima," segir Guðmundur Ágústsson að lokum.

Það er fasteign.is, sem kynnir og annast sölu hér heima á þeim eignum, sem Perla Investment hefur á boðstólum á Spáni. "Mikið öryggi felst að sjálfsögðu í því fyrir þá Íslendinga, sem vilja kaupa fasteign á Spáni, að hafa löggilta fasteignasala bæði hér heima og á Spáni til þess að ganga frá samningum," segir Ólafur B. Blöndal hjá fasteign.is.

"Perla Investment er búin að starfa í rúmt ár og hefur á þeim tíma selt tugi fasteigna. Starfsmenn hennar þekkja því aðstæður og viðskiptahætti á Spáni mjög vel. Með þessu er tryggt að allur aðgangur að upplýsingum varðandi fasteignakaup á Spáni verður eins góður og hægt er að hugsa sér og sömuleiðis allur frágangur og úttekt á eignum, sem Íslendingar kaupa þar í landi.

Í rauninni er það ómetanlegt að geta keypt hús eða íbúðir á Spáni í gegnum fasteignasölu í eigu Íslendinga, sem búsettir eru þar í landi. Ef einhver snurða hleypur á þráðinn, ef íbúð er ekki afhent á réttum tíma eða í umsömdu ástandi, sem vissulega getur komið fyrir á Spáni rétt eins og hér heima á Íslandi, munu starfsmenn Perla Investment verða Íslendingunum innan handar.

Perla Investment hefur spænskan lögfræðing sér til aðstoðar, ef leysa þarf einhver lögfræðileg atriði þar í landi. Að auki verður Guðmundur Ágússtsson til aðstoðar hér heima, ef lögfræðilegar spurningar vakna."

Ólafur sagði ennfremur, að á flugvellinum í Allicante yrði tekið á móti því fólki, sem færi til Spánar með kaup á íbúð eða húsi í huga. "Við útvegum fólki frítt húsnæði í eina viku," sagði Ólafur. " Þau hús og íbúðir, sem í boði eru, verða kynnt en einnig svæðið, Torrevieja-Costa Blanca og hvers konar þjónusta, sem þar er að fá.

Hægt er að kaupa bæði nýjar og notaðar eignir, en þegar Íslendingar kaupa eignir á byggingarstigi, mun fólk á vegum Perla Investment hafa eftirlit með þeim á meðan þær eru í byggingu og veita þeim áframhaldandi aðstoð t. d. við útleigu og eftirlit með eigninni í fjarveru eigenda."

Á sunnudaginn var fór fram kynning á fasteignum á Spáni á vegum fasteign.is og Perla Investment.

Kynningin fór fram í húsakynnum fasteign.is í Borgartúni 22 og þar var opið hús fyrir alla þá, sem vilja kynna sér fasteignakaup á Spáni og allar upplýsingar veittar.

"Þátttaka var góð," sagði Ólafur B. Blöndal. "Við sýndum á myndbandi filmur af svæðinu og af þeim húsum og íbúðum, sem við höfum til sölu á Spáni. Einnig afhentum við bæklinga með myndum og hvers konar upplýsingum.

Af viðbrögðum að dæma er ljóst, að það er fyrir hendi verulegur áhugi hjá mörgum Íslendingum á að eignast íbúð eða hús á Spáni."