Seljendur * Sölusamningur - Áður en fasteignasala er heimilt að bjóða eign til sölu, ber honum að ganga frá sölusamningi við eiganda hennar um þjónustu fasteignasala á þar til gerðu samningseyðublaði.

Seljendur

* Sölusamningur - Áður en fasteignasala er heimilt að bjóða eign til sölu, ber honum að ganga frá sölusamningi við eiganda hennar um þjónustu fasteignasala á þar til gerðu samningseyðublaði. Eigandi eignar og fasteignasali staðfesta ákvæði sölusamningsins með undirritun sinni. Allar breytingar á sölusamningi skulu vera skriflegar. Í sölusamningi skal eftirfarandi koma fram:

* Tilhögun sölu - Koma skal fram, hvort eignin er í einkasölu eða almennri sölu, svo og hver söluþóknun er. Sé eign sett í einkasölu, skuldbindur eigandi eignarinnar sig til þess að bjóða eignina aðeins til sölu hjá einum fasteignasala og á hann rétt til umsaminnar söluþóknunar úr hendi seljanda, jafnvel þótt eignin sé seld annars staðar. Einkasala á einnig við, þegar eignin er boðin fram í makaskiptum. - Sé eign í almennri sölu má bjóða hana til sölu hjá fleiri fasteignasölum en einum. Söluþóknun greiðist þeim fasteignasala, sem selur eignina.

* Auglýsingar - Aðilar skulu semja um, hvort og hvernig eign sé auglýst, þ. e. á venjulegan hátt í eindálki eða með sérauglýsingu. Auglýsingakostnaður skal síðan greiddur mánaðarlega samkv. gjaldskrá dagblaðs. Öll þjónusta fasteignasala þ. m. t. auglýsingar er virðisaukaskattskyld.

* Gildistími - Sölusamningurinn er uppsegjanlegur af beggja hálfu með fyrirvara (hámark 30 dagar) og gera þarf það skriflega. Ef einkasölusamningi er breytt í almennan sölusamning þarf einnig að gera það með skriflegum hætti. Sömu reglur gilda þar um uppsögn.

* Öflun gagna/söluyfirlit - Áður en eignin er boðin til sölu, verður að útbúa söluyfirlit yfir hana. Seljandi skal leggja fram upplýsingar um eignina, en í mörgum tilvikum getur fasteignasali veitt aðstoð við útvegun þeirra skjala sem nauðsynleg eru. Fyrir þá þjónustu þarf að greiða, auk beins útlagðs kostnaðar fasteignasalans við útvegun skjalanna. Í þessum tilgangi þarf eftirfarandi skjöl:

* Veðbókarvottorð - Þau kosta nú 900 kr. og fást hjá sýslumannsembættum. Opnunartíminn er yfirleitt milli kl. 10.00 og 15.00. Á veðbókarvottorði sést hvaða skuldir (veðbönd) hvíla á eigninni og hvaða þinglýstar kvaðir eru á henni.

* Greiðslur - Hér er átt við kvittanir allra áhvílandi lána, jafnt þeirra sem eiga að fylgja eigninni og þeirra, sem á að aflýsa.

* Fasteignamat - Hér er um að ræða matsseðil, sem Fasteignamat ríkisins sendir öllum fasteignaeigendum í upphafi árs og menn nota m.a. við gerð skattframtals. Fasteignamat ríkisins er til húsa að Borgartúni 21, Reykjavík sími 5155300.

* Fasteignagjöld - Sveitarfélög eða gjaldheimtur senda seðil með álagningu fasteignagjalda í upphafi árs og er hann yfirleitt jafnframt greiðsluseðill fyrir fyrsta gjalddaga fasteignagjalda ár hvert. Kvittanir þarf vegna greiðslu fasteignagjaldanna.

* Brunabótamatsvottorð - Vottorðin fást hjá því tryggingafélagi, sem eignin er brunatryggð hjá. Vottorðin eru ókeypis. Einnig þarf kvittanir um greiðslu brunaiðgjalda. Ef fá þarf nýtt brunabótamat á fasteign, þarf að snúa sér til Fasteignamats ríksins og biðja um nýtt brunabótamat.

* Afsal - Afsal fyrir eign þarf að liggja fyrir. Ef afsalið er glatað, er hægt að fá ljósrit af því hjá viðkomandi sýslumannsembætti og kostar það nú kr. 100. Afsalið er nauðsynlegt, því að það er eignarheimildin fyrir fasteigninni og þar kemur fram lýsing á henni.