Í Morgunblaðinu sl. laugardag var frá því skýrt, að geðdeild Landspítalans í Fossvogi, sem áður var geðdeild Borgarspítalans, yrði flutt í geðdeildarhúsið við Hringbraut. Þessa ákvörðun skýrði Jóhannes Gunnarsson, lækningaforstjóri Landspítalans, m.a.

Í Morgunblaðinu sl. laugardag var frá því skýrt, að geðdeild Landspítalans í Fossvogi, sem áður var geðdeild Borgarspítalans, yrði flutt í geðdeildarhúsið við Hringbraut. Þessa ákvörðun skýrði Jóhannes Gunnarsson, lækningaforstjóri Landspítalans, m.a. með svofelldum orðum: "Það er stefna spítalans að draga saman þá starfsemi, sem saman á. Það var grundvöllur að sameiningu spítalanna að gera það. Þetta gildir um geðsviðið eins og allar aðrar deildir. Það var tekin um það ákvörðun fyrir nokkru að færa bráðamóttöku geðlækninganna í húsið við Hringbraut. ...Ástæðan er sú að tvær bráðadeildir á geðsviði eru núna reknar á hálfum afköstum vegna mannaflaskorts."

Þessi rök eru skiljanleg og þau standa fyrir sínu í öllum venjulegum rekstri, hvort sem um er að ræða spítalarekstur eða annars konar rekstur.

En þótt þau séu skiljanleg út frá sjónarmiði þeirra, sem bera ábyrgð á rekstri Landspítala - háskólasjúkrahúss, m.a. gagnvart fjárveitingavaldinu, breytir það ekki því að með þeirri ákvörðun að leggja niður geðdeild Borgarspítalans er stigið skref aftur á bak í geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Þegar geðdeild Borgarspítalans var opnuð sumarið 1968 fyrir 33 árum urðu merkileg þáttaskil í þjónustu við geðsjúka. Þeir og aðstandendur þeirra áttu í fyrsta sinn val um það inn á hvaða geðsjúkrahús þeir yrðu lagðir. Fram að þeim tíma var einungis um einn kost að ræða, þ.e. Kleppsspítalann, og þeir, sem voru lagðir inn þar, voru markaðir af því alla ævi vegna fordóma, sem sköpuðust af þröngsýni, þekkingarleysi og að sumu leyti hræðslu almennings.

Opnun geðdeildar Borgarspítalans gjörbreytti þessari aðstöðu. Hún skapaði möguleika á vali, ekki einungis á milli tveggja spítala heldur líka á milli tveggja mismunandi stefna í geðlækningum. Á geðdeild Borgarspítalans var að sumu leyti fylgt annarri stefnu en á Kleppsspítalanum og síðar á geðdeild Landspítalans. Með því er ekki sagt að önnur stefnan hafi verið rétt og hin röng heldur einungis að fólk átti val um það, hvar það sótti læknismeðferð vegna viðkvæms og erfiðs sjúkdóms.

Með starfsemi geðdeildar Borgarspítalans var sýnt og sannað að það var hægt að reka geðdeild inni á almennu sjúkrahúsi. Sjálfsagt eru flestir búnir að gleyma því, að um það stóðu harðar deilur hvort yfirleitt ætti að byggja geðdeildarhús á lóð Landspítalans. Sjónarmið þeirra, sem það vildu, urðu ofan á og mundu slíkar umræður nú ekki þykja við hæfi.

Þótt spítalarnir tveir, Landspítali og Borgarspítali, hafi verið sameinaðir er ljóst, að það andrúm, viðhorf og vinnubrögð, sem skapazt höfðu á hvorum staðnum fyrir sig, héldust og skipti máli til hvors spítalans, sem litið var. Það var m.ö.o. hægt að bjóða upp á val, þótt það væri undir hatti einnar og sömu stofnunar.

Þetta val verður nú ekki lengur fyrir hendi. Að því leyti til stöndum við í sömu sporum og fyrir rúmlega þrjátíu árum, þótt miklar framfarir hafi orðið í meðferð geðsjúkra á þessum tíma.

Rök forystumanna Landspítalans fyrir þessum ráðstöfunum eru skiljanleg en þau eru þeirra rök.

Nú er vaxandi áherzla lögð á að líta til þessa málaflokks ekkert síður frá sjónarhóli geðsjúkra og aðstandenda þeirra. Frá og með áramótum eiga þeir engra kosta völ og það er neikvæð þróun.

Samstarfssamningur Íslandsbanka og Nýlistasafnsins

Menningarsjóður Íslandsbanka og Nýlistasafnið hafa gert með sér samstarfssamning til þriggja ára sem felur í sér fjögurra milljóna króna árlegt framlag til safnsins næstu þrjú ár.

Samstarf atvinnulífs og menningarstofnana hefur aukist til muna hér á síðustu árum og ummæli Óskar Vilhjálmsdóttur, formanns stjórnar Nýlistasafnsins, hér í blaðinu fyrir helgi eru til marks um það. Hún telur samninginn táknrænan fyrir breytta tíma í samskiptum listheimsins og viðskiptalífsins á Íslandi. Að hennar sögn mun samningurinn gera Nýlistasafninu kleift að færa starfsemi safnsins út til almennings og "kynna og miðla listinni til breiðari hóps en áður". Jafnframt hefur verið mótuð metnaðarfull sýningarstefna sem verður grundvöllur fjölbreyttrar listastarfsemi og umræðu.

Eins og Valur Valsson, bankastjóri Íslandsbanka og formaður sjóðsstjórnarinnar, benti á í frétt Morgunblaðsins hefur Nýlistasafnið um árabil "verið vettvangur nýrra strauma og tilrauna, þar sem stöðugt endurmat hefur verið í öndvegi". Sem slíkt hefur safnið áunnið sér mikilvægan sess í íslenskum listheimi og verið burðarás í hugmyndafræðilegri framþróun samtímalista hér á landi. Það fer því afar vel á því að fyrirtæki á borð við Íslandsbanka, sem vill skapa sér framsækna og um leið menningarlega ímynd, geri safninu kleift að þróa frumkvöðulsstarf sitt enn frekar.