Jan Koller freistar þess að setja fót fyrir skot Hermanns Hreiðarssonar skömmu áður en hinn fyrrnefndi var rekinn af leikvelli.
Jan Koller freistar þess að setja fót fyrir skot Hermanns Hreiðarssonar skömmu áður en hinn fyrrnefndi var rekinn af leikvelli.
Atvikið á 38. mínútu þegar Jan Koller var rekinn af velli var einn af vendipunktunum í leik Íslands og Tékklands á laugardaginn.

Atvikið á 38. mínútu þegar Jan Koller var rekinn af velli var einn af vendipunktunum í leik Íslands og Tékklands á laugardaginn. Varla hefur nokkur af hinum sex þúsund áhorfendum á Laugardalsvelli haft hugmynd um hvað var á seyði þegar dómarinn ráðfærði sig við aðstoðardómara og sýndi síðan Koller rauða spjaldið. Boltinn var víðsfjarri þegar þetta átti sér stað en ljóst var að eitthvað hafði gerst á milli Kollers og Hermanns Hreiðarssonar, sem hafði góðar gætur á tékkneska risanum í leiknum.

"Við vorum búnir að lenda nokkrum sinnum saman og hann var orðinn svo pirraður að eftir einn áreksturinn okkar á milli missti hann stjórn á sér og hrækti á mig. Svoleiðis gera menn ekki, og sem betur fór var aðstoðardómarinn vel staðsettur og sá hvað gerðist. Það var mikill léttir að losna við þennan öfluga sóknarmann," sagði Hermann við Morgunblaðið.

Koller verður af þessum sökum ekki í liði Tékka þegar það tekur á móti Möltubúum á heimavelli sínum í Teplice á morgun.