[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞRÁTT fyrir að almennt séð hafi verið frekar líflegt í laxveiðiám á Hvítár-Ölfusársvæðinu í sumar þá hefur veiði á Iðu verið afar slök það sem af er, að sögn Birgis Sumarliðasonar sem þar er öllum hnútum kunnur.

ÞRÁTT fyrir að almennt séð hafi verið frekar líflegt í laxveiðiám á Hvítár-Ölfusársvæðinu í sumar þá hefur veiði á Iðu verið afar slök það sem af er, að sögn Birgis Sumarliðasonar sem þar er öllum hnútum kunnur. Bestu dagarnir hafa aðeins gefið 5-7 laxa á þrjár stangir og heildarveiðin er ekki nema milli 120 og 130 laxar, en í venjulegu ári ættu að vera komnir að minnsta kosti helmingi fleiri laxar á land og raunar annað eins að auki.

"Þetta er nokkur ráðgáta, skilyrði hafa alls ekki verið slæm, en það rigndi talsvert snemma í ágúst og þá kom skot í Stóru Laxá. Það virðist sem mest af því litla sem hér hafði komið af laxi hafi skotið sér upp í Stóru Laxá. Það veiddist vel í henni í nokkra daga á eftir, en svo dofnaði yfir henni aftur, en ágúst hefur verið lélegur á Iðu," sagði Birgir.

Frést hefur af einum rúmlega 20 punda laxi sem veiðst hefur á Iðu og er stærstur þar í sumar. Laxinn veiddi Þórarinn Sigþórsson tannlæknir og notaði fluguna Sunray Shadow í túpuútfærslu. Það er saga til næsta bæjar ef ekki veiðist stærri lax á Iðu í sumar, en Iða hefur verið nokkurs konar svar Sunnlendinga við Nesveiðum í Laxá í Aðaldal þeirra Norðlendinga.

Loftur Atli Eiríksson var að veiðum á svæðum 1-2 í Stóru Laxá um helgina og sagði hann ána standa vel undir grínnefninu "Tóma Laxá" þessa dagana. "Við sáum ekki mikið af laxi, en það sem var verra og kom okkur raunar á óvart var hve lítið vatn var í ánni. Áður illvæð brot varla í hné. Eins og ég segi þá vorum við undrandi á þessu því það var tilfinning okkar að það hefði verið bærilega úrkomusamt á Suðurlandi að undanförnu. Ég fékk einn 5 punda leginn lax á Munroe Killer númer 14 í Kálfhagahyl. Það var eini laxinn sem hollið veiddi," sagði Loftur.

Vel á annað hundrað laxar eru komnir á land úr Stóru Laxá allri sem gæti ýtt undir betri lokatölu en sést hefur í ánni síðustu sumur. September er ævinlega besti mánuðurinn í Stóru Laxá, en ef enginn er laxinn á Iðu, sbr. fréttina að ofan, þá er vandséð hvaðan haustaflinn á að koma, en hann byggist ævinlega á því að uppsöfnuð laxatorfa tekur sig upp á Iðu og gengur upp í Stóru Laxá.