Á UNDANFÖRNUM árum hafa þeir landshlutar sem eru næst höfuðborgarsvæðinu í vaxandi mæli þróast í líkingu við það sem þar hefur gerst. Þannig hefur fækkun vegna búferlaflutninga innanlands orðið óveruleg eða jafnvel landshlutunum í hag.

Á UNDANFÖRNUM árum hafa þeir landshlutar sem eru næst höfuðborgarsvæðinu í vaxandi mæli þróast í líkingu við það sem þar hefur gerst. Þannig hefur fækkun vegna búferlaflutninga innanlands orðið óveruleg eða jafnvel landshlutunum í hag. Þetta gerðist árið 1999 á Suðurlandi og árið 2000 á Suðurnesjum og Vesturlandi.

Í ár er það einungis á Suðurnesjum sem ætla má að aðfluttir innanlands verði fleiri en brottfluttir. Umbreytingin er mest á Vesturlandi þar sem brottfluttum hefur fjölgað verulega meðan fjöldi aðfluttra stendur í stað. Þessi þróun á sér stað um allan landshlutann og er Akranessvæðið ekki undanskilið.

Á Suðurlandi er brottfluttum einnig að fjölga þótt í minna mæli sé. Aukning hefur átt sér stað um allan landshlutann. Aðfluttu fólki frá útlöndum fjölgar jafnt og þétt á Suðurlandi og Suðurnesjum og útlit er fyrir að árið 2001 verði metár í þeim efnum.

Mismunur aðfluttra og brottfluttra um 300-400 manns

Mannfækkun vegna búferlaflutninga hefur á undanförnum árum verið mest á Vestfjörðum og Austurlandi. Mismunur aðfluttra og brottfluttra var 3-400 manns á ári í hvorum landshluta.

Brottfluttum fækkaði fyrst árið 2000 á Austurlandi og sú fækkun heldur áfram í ár. Í umfjöllun Þjóðhagsstofnunar um íbúaþróun hér á landi segir að hugsanlega sé hér farið að gæta væntinga um framkvæmdir í stóriðju sem ráðgerðar eru en þess er að geta að þessarar tilhneigingar gætir víðs vegar í landshlutanum.

Fækkun vegna innanlandsflutninga var mikil á Norðurlandi vestra seinni hluta tíunda áratugarins þótt úr henni drægi undir lokin. Í ár hefur á ný orðið aukning á brottflutningi samfara minnkandi aðflutningi. Fólki þar hefur heldur fjölgað á undanförnum árum með aðflutningi frá útlöndum en í þeim efnum stefnir í samdrátt á þessu ári.

Á Norðurlandi eystra stefnir nú í minni fækkun vegna innanlandsflutninga en verið hefur í langan tíma. Á Akureyri er brottflutningur minni og aðflutningur meiri í búferlaflutningum innanlands á fyrri hluta yfirstandandi árs en var á sama tíma í fyrra.