Enn fækkar landanum á landsbyggðinni en fjöldi aðfluttra erlendra ríkisborgara dregur víða úr fólksfækkuninni. Útlit er fyrir að í ár verði fjölgun á landsbyggðinni vegna millilandaflutninga meiri en nokkru sinni.

VEIGAMESTU breytingar íbúaþróunar hér á landi undanfarin ár hafa verið flutningar af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins og flutningar fólks milli landa. Á síðustu misserum hefur seinni þátturinn verið mera áberandi. Í því sambandi má nefna að dregið hefur úr búferlaflutningum íslenskra ríkisborgara í báðar áttir og ríkir nú algert jafnvægi á þeim. Aðfluttum erlendum ríkisborgurum hefur hins vegar fjölgað stöðugt frá 1996 en fjöldi brottfluttra stendur nokkurn veginn í stað.

Í frétt Þjóðhagsstofnunar um íbúaþróun á Íslandi segir að reiknað sé með að aðflutningur erlendra ríkisborgara í ár verði meiri en nokkru sinni fyrr, geti orðið rúmlega 3.000 manns og fjölgun erlendra ríkisborgara vegna aðflutnings geti numið rúmlega 2.000 manns eða 0,8% af mannfjölda. Segir að fari sem horfir verði erlendir ríkisborgarar sem hingað flytja í fyrsta sinn fleiri en aðfluttir Íslendingar.

Útlendingum fjölgar stöðugt á vinnumarkaðinum

Stærsti hluti erlendra ríkisborgara sem fluttu hingað á fyrri hluta ársins eru frá Evrópulöndum utan EES. Pólverjar eru fjölmennastir í þessum hópi og eru þeir nú verulega fleiri en var í fyrra. Litháum hefur fjölgað en Júgóslavar eru heldur færri en var fyrir ári.

Næstfjölmennasti hópurinn sem hingað flytur er frá löndum Evrópska efnahagssvæðisins en flutningar fólks þaðan eru mun meiri fram og til baka en úr öðrum heimshlutum. Danskir ríkisborgarar hafa löngum verið fjölmennastir í búferlaflutningum í þessum hópi en á síðustu árum hefur mjög færst í vöxt að Þjóðverjar flytji hingað.

Þriðji stærsti hópurinn sem hingað flytur eru Asíubúar en fjölgun þeirra er næstmest enda er minna um að fólk þaðan flytji til baka aftur en hjá Evrópubúum.

Í upphafi þessa árs voru erlendir ríkisborgarar búsettir hér á landi tæplega níu þúsund manns en það var um 3,1% af íbúafjöldanum. Aldursskipting þeirra er verulega frábrugðin því sem gildir um þjóðina í heild. Stærstu aldurshóparnir eru milli 20 og 35 ára. Hlutfall erlendra ríkisborgara meðal kvenna hefur alltaf verið hærra en hjá körlum, var 3,4% í upphafi yfirstandandi árs meðan það var 2,8% hjá körlum. Á árinu 2.000 dró þó saman með kynjunum að þessu leyti.

Erlendir ríkisborgarar eru mjög misdreifðir um landið. Hlutfall þeirra er langhæst á Tálknafirði og Bakkafirði. Ásahreppur og Þórshafnarhreppur fylgja á eftir með 11 og 10%.

Spáir Þjóðhagsstofnun því um framvindu íbúaþróunar það sem eftir er af árinu að erlendum ríkisborgurum á vinnumarkaði muni fjölga um 1.500 manns. Sú fjölgun er um það bil sú sama og náttúruleg fjölgun fólks á vinnumarkaði hér á landi miðað við atvinnuþátttöku árið 2000 í vinnumarkaðskönnun Hagstofu.

Í umfjöllun Þjóðhagsstofnunar rætt um búsetuþróun innanlands. Þar segir meðal annars að um miðjan síðasta áratug hafi mismunur aðfluttra á landsbyggðinni vegna búferlaflutninga innanlands verið milli 1.700 og 1.800 manns, eða um 43% af því sem hann hafi verið þegar mest var. Á yfirstandandi ári hefur mismunur brottfluttra og aðfluttra innanlands aukist nokkuð á nýjan leik. Ef seinni hluti ársins verður í samræmi við það sem gerst hefur á fyrri hlutanum og dreifing búferlaflutninga yfir árið í reynslu undanfarinna ára gæti mismunur aðfluttra og brottfluttra innanlands orðið tæplega 1.000 manns á landsbyggðinni.

Fleiri hafa flust á landsbyggðina frá útlöndum en farið hafa

Frá árinu 1996 hafa fleiri flust á landsbyggðina frá útlöndum en farið hafa. Mismunurinn hefur farið stöðugt vaxandi og hefur hann dregið úr heildarfækkun íbúa vegna innanlandsflutninga þótt hann hafi ekki náð að vega hann upp. Útlit er fyrir í ár verði fjölgun á landsbyggðinni vegna millilandaflutninga meiri en nokkru sinni fyrr.

Segir í frétt Þjóðhagsstofnunar að þegar horft sé á áhrif búferlaflutninga á íbúaþróun einstakra landshluta yfir lengra tímabil megi sjá að í öllum landshlutum skipta þeir miklu. Innanlandsflutningar hafa leitt til fækkunar íbúa í öllum landshlutum utan höfuðborgarsvæðisins en flutningar milli landa hafa bætt við mannfjöldann nema á Norðurlandi eystra og Austurlandi.

Mesta fækkunin á Vestfjörðum

Áhrifa þessa gætir mest á Vestfjörðum þar sem fækkun vegna búferlaflutninga innanlands á tímabilinu 1992-2001 nemur samtals nær 29% af íbúafjölda í landshlutanum í upphafi þess tímabils sem hér er til umræðu. Á Norðurlandi vestra nemur fækkun íbúa vegna innanlandsflutninga tæplega 18% af íbúafjölda undir lok ársins 1991 en á Austurlandi nemur fækkun 17%. Á höfuðborgarsvæðinu nema búferlaflutningar síðustu tíu ára alls 9,6% af íbúafjöldanum. Munar þar mest um aðflutta innanlands sem eru samtals 8,3% viðbót við mannfjöldann. Fjölgun íbúa á höfuðborgarsvæðinu á þessu tímabili var 17,2% og því standa beinir búferlaflutningar fyrir um 55% af breytingu mannfjöldans á tímabilinu. Þeim til viðbótar kemur mannfjölgun aðfluttra eftir að þeir eru fluttir.

Að því er varðar innanlandsflutninga er íbúaþróun höfuðborgarsvæðisins spegilmynd af landsbyggðinni. Öðru máli gegnir um búferlaflutninga milli landa. Þeir hafa vaxið stöðugt frá árinu 1995 en aðfluttir urðu fyrst fleiri en brottfluttir árið 1998. Árið 2000 urðu aðfluttir frá útlöndum fleiri en aðfluttir af landsbyggðinni. Í ár stefnir í að fjölgun vegna búferlaflutninga milli landa verði um það bil sú sama og náttúruleg fjölgun(fæddir umfram dána) og verði meiri en nokkru sinni fyrr.