DAGANA 16. til 30. júní var haldið Evrópumót í bridge á eyjunni Tenerife. Að venju sendu Íslendingar lið til keppni í opnum flokki.

DAGANA 16. til 30. júní var haldið Evrópumót í bridge á eyjunni Tenerife. Að venju sendu Íslendingar lið til keppni í opnum flokki. Liðið samanstóð af 6 spilurum ásamt fyrirliða og loks framkvæmdastjóra Bridgesambands Íslands (BSÍ), sem væntanlega hefur verið fararstjóri. Komið hefur á daginn að í hópnum voru einnig eiginkonur fjögurra landsliðsmanna auk eiginmanns fararstjórans. Ferðakostnaður eiginkvennanna mun hafa verið greiddur af BSÍ.

Nú er það svo að fundargerðir stjórnarinnar, sem auglýstar eru á heimasíðu sambandsins, eru ekki uppfærðar nema endrum og eins. Síðasta fundargerð, sem félagsmenn hafa aðgang að, er frá 26. október 2000. Því liggur ekki fyrir sú umræða sem fram fór um þessi mál innan stjórnarinnar, einungis að ákvörðun um hvort senda ætti kvennalið til keppni var samkvæmt fundargerð 26/10 2000 frestað til næsta fundar. Þar virðist sú ákvörðun hafa verið tekin að senda ekki kvennalið til keppni, væntanlega vegna bágs fjárhags sambandsins?

Rekstur Bridgesambandsins er að mestu leyti fjármagnaður af u.þ.b. 2.000 félagsmönnum annars vegar og opinberum framlögum hins vegar. Undirritaður fær ekki séð hvernig útgjöld við að bjóða ofangreindum konum í sólarferð geta heyrt undir eðlilegan rekstur sambandsins. Ég veit einnig að ég er ekki einn um það viðhorf að þykja þessi ráðstöfun einkennileg.

Af þeim sökum vænti ég þess að stjórn BSÍ geri grein fyrir þessari ákvörðun, þ.e.a.s. útskýri hvernig kostnaður við ferðalag eiginkvennanna tengist starfsemi sambandsins. Hvert þeirra hlutverk var í ferðinni? Jafnframt hvort það sé stefna stjórnarinnar að þessi nýbreytni verði til frambúðar? Einnig væri æskilegt að stjórnin legði fram sundurliðað uppgjör á kostnaði vegna þátttökunnar í mótinu annars vegar og hins vegar sundurliðun á kostnaði vegna boðsgestanna. Einnig spyr ég stjórn BSÍ hvort þeir landsliðsmenn sem ekki gátu þegið þetta boð vegna hjúskaparstöðu sinnar, hafi þegið framlög í öðru formi frá Bridgesambandinu vegna þátttöku sinnar í mótinu?

Ég fer fram á það að stjórn BSÍ svari þessari fyrirspurn hér í blaðinu. Hinn almenni félagsmaður getur þá tekið afstöðu til þess hvort um eðlilega ráðstöfun á fjármunum hreyfingarinnar sé að ræða.

Virðingarfyllst,

SIGURÐUR VILHJÁLMSSON,

Bridgefélagi Selfoss.

Frá Sigurði Vilhjálmssyni: