Örn Pálsson
Örn Pálsson
Enginn vafi lék á, segir Örn Pálsson, að samkomulag var gert og við samkomulag á að standa.

Í Morgunblaðinu sl. laugardag var frétt sem bar yfirskriftina: "Einar Oddur fer með rangt mál" sem haft er eftir er hæstvirtum sjávarútvegsráðherra.

Undirritaður las frétt blaðsins og sá sig í framhaldi af því knúinn til að upplýsa eftirfarandi:

Óumdeilt er að sjávarútvegsráðherra gerði tímamóta samkomulag við Landssamband smábátaeigenda 1996, eins og Einar Oddur Kristjánsson greindi frá í grein sinni í Morgunblaðinu 24. ágúst sl.

Því til staðreynda skal vitnað til skrifa Morgunblaðsins á þessum tíma. Í leiðara blaðsins 27. mars 1996, sem bar yfirskriftina "Bætt staða smábáta", segir eftirfarandi:

"Veruleg breyting verður frá og með næsta fiskveiðiári á starfsumhverfi smábáta, en harkalegar deilur hafa staðið síðustu árin um aðstöðu þeirra. Skömmu áður en Alþingi fór í páskaleyfi lagði Þorsteinn Pálsson, sjávarútvegsráðherra, fram tvö frumvörp, sem ætlað er að lögfesta samkomulag við Landssamband smábátaeigenda um breytingar á stjórnun veiða smábátanna. Það felur í sér, að heildarafli þeirra verði framvegis 13,9% af ákvörðuðum heildarþorskafla hvers fiskveiðiárs, sem er sama hlutfall og nú."

Leiðaranum lýkur með eftirfarandi:

"Í ljósi þeirra hörðu deilna, sem verið hafa milli sjávarútvegsráðuneytis og smábátaeigenda, er fagnaðarefni að samkomulag hefur tekizt. Mikilvægt er að smábátaútgerðin sé lífvænleg, því hún hefur úrslitaáhrif á afkomu fólks víða um land."

Þar sem hér var um mjög mikið hitamál í sjávarútveginum að ræða fjallaði blaðið einnig um málið á baksíðu. Þar var greint frá ályktun LÍÚ vegna samnings við smábátaeigendur og viðbrögðum sjávarútvegsráðherra við ályktuninni. Ráðherrann eins og svo oft áður hitti naglann á höfuðið og hefur svo sannarlega reynst forspár er hann sagði:

"Átök við trillukarla bæta ekki stöðu stórútgerða"

Í fréttinni segir m.a.:

"Landssamband íslenskra útvegsmanna hefur mótmælt harðlega þeim vinnubrögðum sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnarinnar að gera einhliða samninga við Landssamband smábátaeigenda um grundvallarbreytingar á lögum um stjórn fiskveiða og lögum um þróunarsjóð."

og síðar í greininni:

"Þorsteinn sagði að það hefði verið mjög brýnt að ná samkomulagi við Landssamband smábátaeigenda og það samkomulag væri í mjög góðu jafnvægi þegar tekið væri tillit til þróunarinnar síðustu árin."

og Þorsteinn bætir við:

"Það ætti að vera stórútgerðinni í landinu keppikefli að skapa frið um fiskveiðarnar. Ég sé ekki að hún bæti stöðu sína með því að vera í endalausum stríðsátökum við minni báta og trillukarla."

Undirritaður taldi rétt að koma þessu á framfæri þannig að lesendur blaðsins fái rétta mynd af gangi mála á þessum tíma. Þó ekki hafi verið undirritað samkomulag, lék enginn vafi á að samkomulag var gert og við samkomulag á að standa.

Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.