Listamenn Þjóðleikhússins starfsárið 2001-2002 samankomnir á tröppum leikhússins.
Listamenn Þjóðleikhússins starfsárið 2001-2002 samankomnir á tröppum leikhússins.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þjóðleikhúsið hefur nýtt leikár með frumsýningu á Hver er hræddur við Virginiu Woolf? hinn 15. september. Áætlaðar eru 12 frumsýningar en fjögur verk verða tekin upp frá fyrra leikári.

STARFSMENN Þjóðleikhússins komu saman í gær við hefðbundna setningu leikársins er Stefán Baldursson kynnti væntanlega verkefnaskrá og bauð nýja starfsmenn velkomna til starfa í húsið.

Þrjár konur bætast í leikstjórahóp hússins í vetur, þær María Reyndal og Vigdís Jakobsdóttir auk þýska leikstjórans Saskia Kuhlmann. "Þetta er kannski til marks um áherslurnar í verkefnum vetrarins þar sem sterkar kvenpersónur setja svip sinn á mörg af leikritunum," segir Stefán Baldursson.

Fimm íslensk verk og meistaraverk um ástir og hetjudáðir

Meðal þess sem verður á dagskránni í vetur eru fimm íslensk verk, þar af þrjú ný, Vatn lífsins eftir Benóní Ægisson í leikstjórn Þórhalls Sigurðssonar, Victoria og George eftir Ólaf Hauk Símonarson í leikstjórn Hlínar Agnarsdóttur og Rakstur eftir Ólaf Jóhann Ólafsson í leikstjórn Viðars Eggertssonar. Þá verður frumsýnd ný leikgerð eftir sögum Guðrúnar Helgadóttur um tvíburana Jón Odd og Jón Bjarna og Strompleikur Halldórs Laxness verður frumsýndur á aldarafmæli skáldsins 23. apríl 2002. Að sögn Stefáns Baldurssonar er það í fyrsta sinn sem leikhús í Reykjavík sýnir Strompleikinn frá því hann var frumsýndur í Þjóðleikhúsinu 1963.

Jólaverkefnið verður Cyrano (de Bergerac) - skoplegur hetjuleikur eftir Edmond Rostand. Þetta þekkta franska leikrit um ástir og hetjudáðir skáldsins og skylmingakappans nefstóra er í leikstjórn Hilmars Jónssonar sem leikstýrir nú í fyrsta sinn í Þjóðleikhúsinu. Stefán Karl Stefánsson, Rúnar Freyr Gíslason og Nanna Kristín Magnúsdóttir verða í aðalhlutverkum.

Annað meistaraverk heimsbókmenntanna, Anna Karenina, í leikgerð Helen Edmundsson í leikstjórn Kjartans Ragnarssonar verður frumsýnt í lok janúar. Í helstu hlutverkum verða Margrét Vilhjálmsdóttir, Stefán Jónsson og Jóhann Sigurðarson. Kjartan leikstýrir einnig einu þekktasta leikriti tuttugustu aldarinnar, Hver er hræddur við Virginíu Woolf? sem frumsýnt verður 20. september. Leikarar eru Pálmi Gestsson, Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, Rúnar Freyr Gíslason og Inga María Valdimarsdóttir. Veislan, nýtt leikrit sem byggt er á dönsku kvikmyndinni Festen, verður frumsýnt í mars í leikstjórn Stefáns Baldurssonar.

Á Smíðaverkstæðinu er boðið upp á margverðlaunað verk sem notið hefur mikilla vinsælda beggja vegna Atlantshafsins, Vilja Emmu eftir David Hare, eitt virtasta samtímaleikskáld Breta. Leikstjóri er Vigdís Jakobsdóttir, en þetta er fyrsta leikstjórnarverkefni hennar hjá Þjóðleikhúsinu. Frumsýning verður 15. september.

Hollendingurinn fljúgandi í vor

"Fjórar sýningar verða teknar upp frá fyrra leikári, Syngjandi í rigningunni, Laufin í Toscana, Með fulla vasa af grjóti og Blái hnötturinn, en öll þessi verk hættu fyrir fullu húsi áhorfenda sl. vor," segir Stefán.

"Þá er ótalinn Hollendingurinn fljúgandi, eitt af stórvirkjum Wagners, en þessi fræga ópera verður flutt á Listahátíð í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslensku óperuna og Listahátíð í Reykjavík," segir Stefán. Listrænir stjórnendur koma frá Þýskalandi, leikstjórinn Saskia Kuhlmann, hljómsveitarstjórinn Gregor Bühl og leikmyndahönnuðurinn Heinz Hauser. Að sögn Stefáns standa nú yfir samningaviðræður við þekktan erlendan söngvara um titilhlutverkið en aðrir söngvarar verða íslenskir. "Ef tími vinnst til þá verður frumsýnt nýtt verk í vor eftir Yasmina Reza, Lífið þrisvar sinnum, en líklegra er þó að það bíði frumsýningar til næsta hausts," segir Stefán.

Karíus og Baktus, leiksmiðja og verðlaunadansverk

Auk leiksýninganna verður ýmislegt annað um að vera í Þjóðleikhúsinu í vetur. Má þar nefna danssýningu með dansverkum eftir Láru Stefánsdóttur þar sem frumsýnt verður verðlaunaverkið Elsa ásamt 2-3 öðrum dansverkum við tónlist Guðna Franssonar. María Reyndal leikstýrir farandsýningu á barnaleikriti Thorbjörns Egners, Karíusi og Baktusi, en sýningar verða á Leikhúsloftinu auk þess sem leikskólum og grunnskólum verður boðin sýningin til heimsóknar. Loks nefnir Stefán nýjung í starfi leikhússins sem er leiksmiðja, "...sem verður tilraunavettvangur og suðupottur fyrir leikhúsfólk og höfunda. Hlín Agnarsdóttir stýrir leiksmiðjunni og starfið verður haft eins opið og mögulegt er til að gefa öllum hugmyndum svigrúm til að fæðast og þróast. Þetta er fyrst og fremst hugsað sem innanhússvettvangur fyrir listamennina en þó gerum við ráð fyrir að eitthvað af starfi leiksmiðjunnar verði opið almenningi."

Að sögn Stefáns eru tveir höfundar nú á starfslaunum við leikhúsið, þeir Birgir Sigurðsson og Bjarni Jónsson, en Þjóðleikhúsið hefur skuldbundið sig með samningi við Leikskáldafélag Íslands til að ávallt sé að minnsta kosti einn höfundur á starfslaunum á hverjum tíma. "Þetta er okkur ljúf skylda enda nauðsynlegt að stuðla að endurnýjun höfunda og veita eldri höfundum tækifæri til að sinna skriftum sínum," segir Stefán Baldursson þjóðleikhússtjóri.