Ræðismenn Íslands frá öllum heimshornum hlýða á erindi á Grand Hóteli.
Ræðismenn Íslands frá öllum heimshornum hlýða á erindi á Grand Hóteli.
RÁÐSTEFNA utanríkisráðuneytisins fyrir kjörræðismenn Íslands stendur nú yfir. Hún er sú fimmta af þessu tagi en áður voru sambærilegar ráðstefnur haldnar árin 1971, 1977, 1986 og 1995.

RÁÐSTEFNA utanríkisráðuneytisins fyrir kjörræðismenn Íslands stendur nú yfir. Hún er sú fimmta af þessu tagi en áður voru sambærilegar ráðstefnur haldnar árin 1971, 1977, 1986 og 1995. Meginmarkmiðið með ráðstefnu af þessu tagi er að auka þekkingu og skilning ræðismanna á Íslandi og íslenskum hagsmunum, svo og til að efla tengsl þeirra við starfsfólk utanríkisráðuneytisins og hagsmunaaðila á sviði viðskipta og ferðaþjónustu. Eru 140 af 240 ræðismönnum mættir á ráðstefnuna ásamt mökum sínum.

Að sögn Hannesar Heimissonar var ákveðið að tími væri til kominn að halda ráðstefnu nú, þar sem nýliðun meðal kjörræðismanna væri 40% síðan síðasta ráðstefna var haldin 1995. Hann sagði að ráðstefnan hefði gengið vel, utanríkisráðherra hefði sett hana í gærmorgun og Sverrir Haukur Gunnlaugsson ráðuneytisstjóri hefði síðan verið með innlegg um utanríkisþjónustuna, hlutverk ræðismanna og hvað við gætum gert til að nýta þá betur. "Við höfum á síðustu tveimur árum verið að bæta upplýsingaflæðið til ræðismanna og við viljum virkja þá betur; upplýsa þá betur um það sem er hér í gangi, og höfum verið með eitt og annað á prjónunum í því skyni."

Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri Útflutningsráðs, opnaði fyrirtækjasýningu á Grand Hóteli, þar sem ráðstefnan er haldin. Kynna um 50 fyrirtæki starfsemi sína þar og hafa ræðismennirnir haft tækifæri til að skoða básana í kaffihléum.

Ræðismennirnir snæddu hádegisverð í boði borgarstjóra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, í Listasafni Reykjavíkur.

Eftir hádegisverð héldu ýmsir erindi, svo sem Bjarni Ármannsson, forstjóri Íslandsbanka, Guðfinna S. Bjarnadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík, Geir Haarde fjármálaráðherra og Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

Fundinum lýkur á morgun.