NÍUNDA ársþing Samtaka sveitarfélaga í Norðurlandskjördæmi vestra (SSNV) skorar á Alþingi og ríkisstjórn Íslands að standa fast gegn álagningu auðlindagjalds á sjávarútveg, hvort sem um er að ræða fyrningarleið eða sérstaka gjaldtöku.

NÍUNDA ársþing Samtaka sveitarfélaga í Norðurlandskjördæmi vestra (SSNV) skorar á Alþingi og ríkisstjórn Íslands að standa fast gegn álagningu auðlindagjalds á sjávarútveg, hvort sem um er að ræða fyrningarleið eða sérstaka gjaldtöku.

Þingið telur að sjávarútvegsfyrirtæki muni ekki þola slíka skattlagningu og neikvæð margfeldisáhrif hennar myndu óhjákvæmilega leiða til aukinna erfiðleika í byggðaþróun.

Þrír milljarðar beint út úr rekstri fyrirtækjanna?

Í greinargerð með tillögunni segir svo:

"Niðurstaða svonefndrar auðlindanefndar var að leggja bæri auðlindagjald á sjávarútveg á Íslandi. Nefndin gerði ekki tillögu um fjárhæð gjaldsins en af umræðum um málið má ætla að auðlindagjald muni ekki nema lægri fjárhæð en þremur milljörðum króna sem teknir yrðu beint út úr rekstri útgerðarfyrirtækja.

Áætla má að um 90% aflaheimilda séu á útgerðarfyrirtækjum á landsbyggðinni og því komi gjaldið nánast beint fram sem landsbyggðarskattur.

Sjávarútvegsfyrirtæki hafa á undanförnum vikum birt milliuppgjör fyrir fyrstu 6 mánuði þessa árs og þar hefur komið skýrt fram að burðir sjávarútvegs til að axla auknar álögur er ekki til staðar. Vegna gengisþróunar hafa skuldir þeirra aukist og tap verið á rekstrinum. Verði álagning auðlindagjalds að veruleika er því fyrirliggjandi að þau eiga ekki annan kost en að leita allra leiða til að lækka tekjur sjómanna og draga saman allan þann rekstur sem ekki skilar nægjanlegri arðsemi. Enn aukin sameining sjávarútvegsfyrirtækja mun væntanlega verða afleiðing auðlindagjaldsins og samþjöppun aflaheimilda á færri einingar í samræmi við það. Þá er minnt á að íslenskur sjávarútvegur er í alþjóðlegri samkeppni um sölu á afurðum og auknar álögur munu óhjákvæmilega koma niður á samkeppnisstöðu þeirra."

Flutningsmenn tillögunnar voru Magnús B. Jónsson og Adolf H. Berndsen.

Tillagan var samþykkt mótatkvæðalaust