Eldgleypar sýndu töfrabrögð sín í portinu hjá Svarta pakkhúsinu á ljósanótt.
Eldgleypar sýndu töfrabrögð sín í portinu hjá Svarta pakkhúsinu á ljósanótt.
LJÓSANÓTT, menningarnóttin í Reykjanesbæ, tókst vel.

LJÓSANÓTT, menningarnóttin í Reykjanesbæ, tókst vel. Fjöldi fólks var á hátíðinni sem fram fór síðastliðinn laugardag og áætla skipuleggjendur og lögregla að 15-20 þúsund manns hafi verið viðstaddir hápunkt hátíðarinnar, þegar kveikt var á lýsingu Bergsins. Gestirnir hafa því verið mun fleiri en íbúar Reykjanesbæjar. Um 10.800 búa í bænum en alls um 16.500 á Suðurnesjum.

"Ég er enn í skýjunum. Það tókst allt vel. Veðrið lék við okkur, eins og ég hafði spáð, og kvöldið fallegt. Þá var gaman að sjá hvað margir gestir komu," segir Steinþór Jónsson hótelstjóri en hann var formaður undirbúningsnefndar ljósahátíðar.

Bæjarbúar ánægðir

Steinþór segist hafa verið að tala við þá sem voru með sýningar og uppákomur á laugardaginn. Allir létu vel af deginum, mikil umferð hafi verið allsstaðar þar sem eitthvað var um að vera. Nefnir hann sem dæmi að áætlað hafi verið að sýna stuttmynd með gömlum myndum úr bæjarlífinu fjórum sinnum en 100 manns hafi orðið frá að hverfa þótt aukasýningu hafi verið bætt við. Segir Steinþór að reynt verði að sýna myndina seinna til þess að allir geti átt þess kost að sjá hana.

"Það var dagskrá fyrir alla aldurshópa og ég held að okkur hafi tekist að gera alla ánægða. Ég finn það á viðbrögðum bæjarbúa að þeir eru ánægðir. Það kemur mér raunar skemmtilega á óvart að okkur hefur tekist að koma fólki aftur á óvart. Það var undrandi á því hvað margir komu á ljósanótt í fyrra, þegar við kveiktum á lýsingu Bergsins í fyrsta skipti, en núna tókst okkur að gera betur með fjölbreyttari dagskrá og nýjum atriðum," segir Steinþór.

Að sögn lögreglunnar í Keflavík fór ljósanóttin vel fram. Einhver útköll voru en allt vegna smávægilegra mála. Þó gistu þrír fangageymslur.