RudolfScharping
RudolfScharping
RUDOLF Scharping, varnarmálaráðherra Þýzkalands, virtist í gær geta verið nokkuð viss um að halda ráðherraembætti sínu, eftir að Gerhard Schröder kanzlari varði hann gegn afsagnarkröfum af hálfu stjórnarandstöðunnar.

RUDOLF Scharping, varnarmálaráðherra Þýzkalands, virtist í gær geta verið nokkuð viss um að halda ráðherraembætti sínu, eftir að Gerhard Schröder kanzlari varði hann gegn afsagnarkröfum af hálfu stjórnarandstöðunnar.

Afsagnarkröfurnar eru til komnar vegna þess að ráðherrann lét fyrir skemmstu fljúga með sig í herflugvél, þ.e. á kostnað skattborgaranna, frá Skopje í Makedóníu til Mallorca þar sem hann átti stefnumót við heitkonu sína.

"Afsögn er ekki á dagskrá," sagði Uwe-Karsten Heye, talsmaður þýzku stjórnarinnar í gær, eftir að Scharping og Schröder áttu fund um málið í kanzlarahöllinni á sunnudagskvöld. Schröder studdi yfirlýsingar Scharpings um að skreppitúrinn til Mallorca inn á milli embættiserindagjörða væri í samræmi við reglur sem ríkisstjórnin hefur sett um notkun flugvéla í ríkiseigu, og sagði Heye að kanzlarinn liti nú svo á að málið væri úr sögunni.

Tveir áhrifamiklir menn úr þingflokki Kristilegra demókrata (CDU) urðu strandaglópar í Kosovo vegna Mallorca-ferðar varnarmálaráðherrans, þar sem ráðgert hafði verið að þeir fengju far með umræddri herflugvél til Berlínar. Málið hefur orðið mörgum tilefni til efasemda um pólitíska dómgreind hins ástfangna varnarmálaráðherra, en myndir af honum og heitkonunni, Kristinu Pilati greifynju, að leik í sundlaug á Mallorca birtust í þýzkum fjölmiðlum sömu dagana og hart var deilt á þýzka þinginu um þátttöku þýzkra hermanna í leiðangri NATO til Makedóníu.

Berlín. AFP, AP.